Nemendur sem útskrifast úr grunnskóla í vor þurfa senn að taka ákvörðun um hvaða framhaldsskóla þeir fara í næsta haust. Úr vöndu er að ráða enda úr mörgum skólum að velja og enn fleiri námsleiðum.

Nemendur sem útskrifast úr grunnskóla í vor þurfa senn að taka ákvörðun um hvaða framhaldsskóla þeir fara í næsta haust. Úr vöndu er að ráða enda úr mörgum skólum að velja og enn fleiri námsleiðum.

Sumir skólar halda sérstaka kynningardaga fyrir grunnskólanemendur þar sem hægt er að kynna sér námsframboð, félagslíf og margt fleira. Einnig er hægt að nálgast almennar upplýsingar um hvern skóla í bæklingnum Nám að loknum grunnskóla sem er nýkominn út og á vefsíðum skólanna.

Nám við hæfi

Áður en sótt er um skóla ættu nemendur að athuga hvort hann býður upp á nám sem hentar þeim enda reyna framhaldsskólar í auknum mæli að marka sér sérstöðu í námsframboði og leggja sérstaka áherslu á tilteknar greinar eða svið.

Góð aðstaða

Gott getur verið að kynna sér aðstöðu í hverjum skóla fyrir sig. Það á ekki síst við ef nemendur hafa einhverjar sérþarfir til dæmis vegna fötlunar eða veikinda.

Í næsta nágrenni

Lega skólans skiptir flesta miklu máli. Er hann í hverfinu, jafnvel í göngufæri eða þarf maður að ferðast borgarhluta á milli til að komast í skólann?

Öflugt félagslíf

Framhaldsskólaárin ganga ekki aðeins út á lærdóm og lestur heldur miða þau að því að koma fólki til nokkurs þroska. Þar skiptir félagslífið ekki síður máli en skræðurnar og því ekki vitlaust að hafa það til hliðsjónar við val á skóla.