1. apríl 2008 | Viðskiptafréttir | 322 orð

Ríkið komi bönkunum til aðstoðar

ÍSLENSKA ríkið ætti að kaupa hluta af skuldabréfum bankanna, sem nú eru á eftirmarkaði, til að slá á þá móðursýki sem einkennir skuldabréfamarkaði hvað varðar skuldabréf íslensku bankanna.
ÍSLENSKA ríkið ætti að kaupa hluta af skuldabréfum bankanna, sem nú eru á eftirmarkaði, til að slá á þá móðursýki sem einkennir skuldabréfamarkaði hvað varðar skuldabréf íslensku bankanna.

Segir þetta í nýrri skýrslu greiningardeildar bandaríska fjárfestingarbankans Merrill Lynch, en þar segir að skuldatryggingarálag á skuldabréfum bankanna sé ekki lengur í neinum tengslum við fjárhagslegan styrkleika þeirra eða eignastöðu.

Telur Merrill Lynch að vandamál íslensku bankanna liggi í fjármagnsflæði og segir markaðinn hafa áhyggjur af því að viðskiptavinir taki út innlán sín í stórum stíl.

Íslenska ríkið gæti til dæmis ákveðið að kaupa öll skuldabréf bankanna sem komi til greiðslu á næstu þremur árum og gæti slíkt inngrip að mati Merrill Lynch slegið á áhyggjur fjárfesta og gert skuldabréf bankanna meira aðlaðandi fyrir þá.

Ofsahræðsla á markaði

Hegðun fjárfesta á eftirmarkaði með skuldabréf íslensku bankanna ber einkenni ofsahræðslu, sem ekki hefur haft áhrif á hlutabréfaverð bankanna. Kemur þetta meðal annars fram í skýrslu Credit Sights um skuldatryggingarálag á skuldabréf bankanna.

Segir þar að CS hafi undanfarin tvö ár verið í hópi hörðustu gagnrýnenda íslensku bankanna, en sé nú í þeirri óvenjulegu stöðu að verja þá.

Almennt sé tryggingarálag vísbending um það hversu líklegt markaðurinn telji að útgefandi bréfanna, í þessum tilvikum bankarnir, geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Samkvæmt kenningunni ætti staða íslensku bankanna því að vera ansi slæm. Í skýrslunni segir hins vegar að markaðurinn með skuldabréfin sé hins vegar ekki virkur og því takmarkað mark á honum takandi. Þá er einnig bent á að gengi hlutabréfa bankanna hafi hækkað undanfarið, sem sýni að fjárfestar á hlutabréfamarkaði hafi ekki miklar áhyggjur af því að bankarnir lendi í greiðsluerfiðleikum.

Í hnotskurn
» Úrvalsvísitala kauphallarinnar hækkaði um 2,47% og er nú rúm 5.050 stig.
» Gengi krónunnar hækkaði sömuleiðis, eða um 2,84%. Stendur gengisvísitalan nú í 153,4 stigum, en var 157,75 stig við opnun markaða í gær.
» Hefur Úrvalsvísitalan því lækkað um 20% frá áramótum og gengi krónunnar um 23% á sama tíma.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.