Víkverji styður heilshugar aðgerðir flutningabílstjóra síðustu daga, þar sem bensínhækkunum hefur verið mótmælt og aðgerðaleysi stjórnvalda í því að koma til móts við hækkandi eldsneytiskostnað.
Víkverji styður heilshugar aðgerðir flutningabílstjóra síðustu daga, þar sem bensínhækkunum hefur verið mótmælt og aðgerðaleysi stjórnvalda í því að koma til móts við hækkandi eldsneytiskostnað. Auðvitað á að gæta fyllsta öryggis í slíkum mótmælum, þannig að þær hindri ekki för neyðarbíla í útkalli, en það er engu að síður kominn tími til að á bílstjórana verði hlustað. Í raun ættu allir bílstjórar þessa lands að mótmæla með einhverjum hætti, þó ekki væri nema að fjölmenna á Austurvöll og þeyta flautur. Einnig væri hugmynd að leita uppi þingmennina og ráðherrana og teppa heimreiðar þeirra einn morguninn og tefja för þeirra til vinnu, til að sýna fulla alvöru í málinu. Koma upp svona smá „frönsku ástandi“. Skuldlaus ríkissjóður getur vel létt af álögum á eldsneytið, sem gerir ekkert annað en að hækka í verði.

Ríkissjóður gæti einnig lækkað álögur á matvæli en er þá komið að öðru sem brennur heitt á Víkverja þessa dagana. Mótmæli ættu sömuleiðis að beinast að annarri stétt þjóðfélagsins, þ.e. matvörukaupmönnum, en sumir þeirra hafa ítrekað komist upp með að tala hreinlega upp matarverðið eins og ekkert væri eðlilegra. Koma fram í fjölmiðlum og segja að svo og svo mikil þörf sé á að hækka matarverð. Það er auðvitað glórulaust ef menn ætla að fara að hækka verðið um 25-30%. Viðbrögð utanríkisráðherra við þessu um helgina voru hárrétt, það á ekki að láta kaupmennina komast upp með þetta. Þeir verða að sýna samfélagslega ábyrgð í verki. Vissulega hefur hráefnisverð hækkað, laun hækkað lítillega og gengið verið óhagstætt, en það réttlætir samt ekki svo gífurlegar hækkanir.

Víkverji hvetur neytendur til þess að vera á varðbergi, og mótmæla hækkunum með því einfaldlega að versla ekki við þá kaupmenn sem munu reyna að misnota sér núverandi aðstæður í þjóðfélaginu. Flutningabílstjórar eru orðnir sjóaðir í mótmælum og gætu t.d. neitað að flytja varning til slíkra verslana.

Það væri viðbragð í lagi!