— 24stundir/Ómar
Eftir Ægi Þór Eysteinsson aegir@24stundir.is „Sumt af þeirri miklu vinnu sem fram fór í okkar tíð hefur í raun legið ofan í skúffum alveg frá því að hinn nýi meirihluti tók við.

Eftir Ægi Þór Eysteinsson

aegir@24stundir.is

„Sumt af þeirri miklu vinnu sem fram fór í okkar tíð hefur í raun legið ofan í skúffum alveg frá því að hinn nýi meirihluti tók við. Þar á meðal er mjög umfangsmikil vinna um alhliða tillögur sem taka á hreinsun, veggjakroti og yfirgefnum húsum í miðbænum.“

Þetta sagði Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær, þegar Tjarnarkvartettinn svokallaði kynnti niðurstöður samráðshóps, sem hafði það hlutverk að móta tillögur að bættri miðborg Reykjavíkur.

Tillögur til frá fyrsta degi

Í byrjun september var að beiðni þáverandi borgarstjóra myndaður þverfaglegur samráðshópur sem fékk það hlutverk að móta tillögur að bættri miðborg Reykjavíkur vegna þess ástands sem skapast hefur vegna fjölgunar vínveitingastaða og lélegrar umgengni á kvöldin og um nætur um helgar. Við vinnslu tillaganna var horft til fjögurra borga erlendis sem hafa náð góðum árangri í uppbyggingu miðborgarsvæða.

„Í ljósi þess að þessar tillögur hafa legið á borði borgarstjóra frá fyrsta degi, urðum við nokkuð hvumsa þegar við heyrðum borgarstjóra boða í fjölmiðlum að nú yrði alveg á næstunni farið að huga að málefnum borgarinnar og þeim jafnvel veitt einhver athygli. Því okkar upplifun var sú að sá taktur sem kominn var af stað með vinnunni við þessa skýrslu, hefði dottið niður með tilkomu nýja meirihlutans,“ sagði Dagur.

Í tillögum miðborgarhópsins til borgaryfirvalda er meðal annars beint til borgarinnar að hafa skýra stefnu og bæta skipulagsmál í miðborginni. Bæta þurfi skipulag út frá umhverfisþáttum, öryggi og samvist vínveitingastaða og íbúðabyggðar.

Borgin láti meira til sín taka

Aðspurð um hús sem verktakar láti grotna niður til að knýja á um niðurrif og til að geta byggt stærra, sagði Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri grænna, að mikilvægt væri að taka harðar á þessum málum.

„Húseigendum ber að halda þessum húsum við, lokuðum og mannheldum. Flest okkar fara sem betur fer að reglum þrátt fyrir að ekki sé alltaf verið að senda okkur bréf til að minna okkur á að gera það. Það blasir við að við höfum ekki nýtt heimildir okkar nægilega vel til þess að fylgja þessum hlutum eftir. Við í minnihlutanum förum því fram á að þessar heimildir verði notaðar í ríkari mæli í þessum málaflokki.“

Í hnotskurn
Taka þarf af skarið um uppbyggingu einstakra reita sem hafa verið í þróun á grundvelli gildandi skipulags. Bæta þarf skipulag út frá umhverfisþáttum, öryggi og samvist vínveitingastaða og íbúðabyggðar. Stuðla að því að gera miðborgina öruggari, hreinni og fegurri en hún er nú og bæta eftirlit og eftirfylgni.