Sá ljóti Hann er nýkominn úr aðgerð sem á eftir að breyta lífi hans sjálfs, og allra sem umgangast hann. Jörundur Ragnarsson í hlutverki Lárusar.
Sá ljóti Hann er nýkominn úr aðgerð sem á eftir að breyta lífi hans sjálfs, og allra sem umgangast hann. Jörundur Ragnarsson í hlutverki Lárusar.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is LÁRUS er ljótur. Svo ljótur að honum er bannað að fara á ráðstefnu á vegum fyrirtækisins.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

LÁRUS er ljótur. Svo ljótur að honum er bannað að fara á ráðstefnu á vegum fyrirtækisins. Bannið kemur honum algerlega í opna skjöldu og þegar vinnufélagar hans og eiginkona segjast skilja afstöðu fyrirtækisins fullkomlega tekur hann ákvörðun sem gjörbreytir lífi hans – og útliti.

Þetta er í stórum dráttum sagan í leikrinu Sá ljóti eftir Marius von Mayenburg, sem frumsýnt verður á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins á laugardagskvöld, en forsýnt annað kvöld og fimmtudagskvöld. Það væri kannski réttara að kalla þessa sögu inngang, því það er dramað kringum umbreytingu Lárusar sem er kjarni verksins.

Dramatúrg í Schaubühne

Kristín Eysteinsdóttir er leikstjóri sýningarinnar og segir að Mayenburg sé mikill spútnik, verk hans séu nú hvert af öðru tekin til sýninga í evrópskum leikhúsum. „Hann segir að kveikjan að verkum sínum sé það sem honum finnst vanta hverju sinni í leikhúsið. Hann starfar sem dramatúrg í Schaubühne í Berlín og er mjög vel að sér um leikhúsið. Hann er ótrúlega fær í að brjóta reglur, og kann það, af því að hann þekkir reglurnar. Hann semur ótrúlega framsækin og skemmtileg verk.“

En aftur að Lárusi. Kristín segir að ákvörðun hans breyti lífi allra persóna verksins. „Hann er að fjalla um togstreituna milli umbúða og innihalds. Þetta er paródía. Hann tekur á fegurðardýrkun samfélagsins og því sem mótar sjálfsmynd okkar. Hann spáir í það hversu mikið það sem við heyrum í umhverfi okkar, um okkur, mótar okkur – og hvernig við trúum því sem aðrir segja um okkur og það hvað er fegurð og hvað er ekki fegurð.“

Kristín segir verkið grátbroslegt, fyndið en átakanlegt í senn.

Jörundur Ragnarsson er í hlutverki Lárusar, en aðrir leikarar eru í tveim hlutverkum hver.

Umgjörð sýningarinnar er óvenjuleg og er markvisst í anda verksins, að því er Kristín segir.

„Við förum mjög einfalda og umbúðalausa leið að verkinu,“ segir Kristín. „Við leikum verkið í hvítum kassa, og reglan er sú, að bannað sé að ljúga að áhorfandanum. Þess vegna notum við engar leikhússbrellur, heldur fær áhorfandinn að sjá hvernig allt gerist. Hljóðið kemur frá sviðinu, ljósin breytast ekki; áhorfandinn fær líka að sjá hvernig leikararnir skipta um persónur. Þetta er því umbúðalaus sýning og tónar við innihald verksins, spurninguna um það hvort skipti meira máli, umbúðirnar eða innihaldið. Við viljum koma innihaldinu betur til skila með því að sleppa umbúðunum. Ég held að áhorfendur verði því líka þakklátir að fá að sjá svona hrátt og umbúðalaust leikhús. Galdurinn gerist samt. Við sjáum allt gerast því ímyndunaraflið tekur við, án þess að við þurfum að þvinga allt ofaní fólk.“

Vér morðingjar í samstarfi

SÁ LJÓTI er nýjasta verk Mariusar von Mayenburg og fyrsta verk hans sem sviðsett er á Íslandi. Mayenburg þykir einn athyglisverðasti leikhöfundur Evrópu í dag. Það er leikhópurinn Vér morðingjar sem stendur að sýningunni og setur verkið upp. Leikhópurinn og Þjóðleikhúsið hugðust bæði sýna verkið í vetur, en ákváðu að hafa samstarf um eina sýningu.

Sá ljóti

Höfundur: Marius von Mayenburg.

Þýðandi: Bjarni Jónsson.

Leikstjóri: Kristín Eysteinsdóttir.

Leikmynd: Stígur Steinþórsson.

Tónlist: Hallur Ingólfsson.

Leikarar: Dóra Jóhannsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Stefán Hallur Stefánsson og Vignir Rafn Valþórsson.

Frumsýning á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins 2. apríl.

Leiðrétting 2. apríl - Leiksýning Þjóðleikhússins

Í UMFJÖLLUN um sýningu á Þeim ljóta í blaðinu í gær kom fram að uppfærslan væri samstarfsverkefni, að því stæðu Vér morðingjar og Þjóðleikhúsið. Það rétta er að sýningin er alfarið Þjóðleikhússins. Frumsýning er á laugardagskvöld.