Jónas Fr. Jónsson
Jónas Fr. Jónsson
Það vakti athygli þegar Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði á ársfundi Seðlabankans á föstudag að til greina kæmi að gera alþjóðlega rannsókn á því hvort óprúttnir miðlarar hefðu ákveðið að gera tilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið.
Það vakti athygli þegar Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði á ársfundi Seðlabankans á föstudag að til greina kæmi að gera alþjóðlega rannsókn á því hvort óprúttnir miðlarar hefðu ákveðið að gera tilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið.

Viðskiptadagblaðið Financial Times upplýsti síðan í gær að Fjármálaeftirlitið hefði þegar hafið rannsókn á því hvort alþjóðlegir vogunarsjóðir hefðu ráðist gegn krónunni og hlutabréfamarkaðnum.

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, staðfesti í fréttum Útvarpsins á hádegi í gær að leitað væri gagna um hvort einhverjir hefðu vísvitandi og skipulega komið af stað orðrómi um íslenska fjármálamarkaðinn og bankana beinlínis til að hagnast á því.

Hann sagði raunar að þegar í síðustu viku hefði verið kallað eftir slíkum gögnum og að rannsóknin væri alfarið að frumkvæði Fjármálaeftirlitsins. Á fréttavef Ríkisútvarpsins er fullyrt að slík rannsókn hafi staðið yfir í tvær vikur.

Það sætir furðu að Íslendingar þurfi að fá slíkar fréttir í gegnum erlenda fjölmiðla. Hvers vegna skýrði Fjármálaeftirlitið ekki frá því hér á landi í síðustu viku að slík rannsókn stæði yfir?

Víst þarf Fjármálaeftirlitið að stíga gætilega til jarðar í upplýsingamiðlun, en þegar ráðist er í alþjóðlega rannsókn af þessari stærðargráðu, þá varðar fjármálamarkaðinn og almenning um það. Og eðlilegt að allir sitji við sama borð. Til hvers að þegja um það sem hlýtur að spyrjast?