Íslenskum neytendum hefur ekki verið sérlega lagið að mótmæla á afgerandi hátt. Mótmæli vörubílstjóra undanfarna daga, vegna gjaldtöku ríkissjóðs af olíu og bensíni, eru mótmæli af því tagi sem Íslendingar eiga ekki að venjast.
Íslenskum neytendum hefur ekki verið sérlega lagið að mótmæla á afgerandi hátt. Mótmæli vörubílstjóra undanfarna daga, vegna gjaldtöku ríkissjóðs af olíu og bensíni, eru mótmæli af því tagi sem Íslendingar eiga ekki að venjast. Þetta eru athyglisverð mótmæli sem engin ástæða er til að fordæma. Miklu nær væri að spyrja af hverju menn hafi ekki mótmælt fyrr.

Mótmæli eins og þessi geta ekki farið fram eins og fyrirmyndar safnaðarsamkoma en hafa þó farið vel fram miðað við tilefnið. Vörubílstjórar hafa ekki verið að tefja umferð mestan part dags og þeir hafa rætt við lögreglu æsingalaust. Mótmælin hafa verið jafn friðsamleg og hægt er að ætlast til. Mótmælendur mættu hins vegar vel taka til athugunar beiðni lögreglu um að fá að vita af staðsetningu mótmæla með tilliti til öryggissjónarmiða.

Ekki verður annað séð en að þorri almennings styðji þessar aðgerðir vörubílstjóra, enda þótt þær kosti nokkra töf í umferðinni. Almenningur er einfaldlega orðinn langþreyttur á lífsbaráttunni í íslensku okurþjóðfélagi. Stjórnvöld láta ekkert í sér heyra en fæstir bjuggust svosem við viðbrögðum úr þeirri áttinni. Ríkisstjórnin virðist lítt fær um annað þessa dagana en að setja mál í nefnd.

Það má vel velta því fyrir sér hvort mótmæli vörubílstjóra hafi ratað alveg rétta leið. Stjórnvöld geta hæglega leitt hjá sér það sem gerist í Ártúnsbrekku, Kringlumýrarbraut eða Reykjanesbraut en örðugra er fyrir þau að loka augunum fyrir mótmælum við Alþingishúsið eða Stjórnarráðið. Kannski hafa vörubílstjórar verið að aka of langan veg í mótmælum sínum síðustu daga.

Nú er ekki bara olía og bensín selt á okurverði hér á landi. Matvælaverð er himinhátt. Almenningur hefur hingað til tekið því af furðulegri þolinmæði. Það hlýtur að koma að því að sú þolinmæði bresti. Ekki er endalaust hægt að ætlast til að neytendur taki á sig hverja kjaraskerðinguna á fætur annarri. Neytendur verða að láta heyra í sér og á þann hátt að stjórnvöld leggi við hlustir og grípi til aðgerða.

Ríkisstjórn í lýðræðisríki ber að huga að hag almennings. Það hefur Þingvallastjórnin sannarlega ekki verið að gera. Það er kominn tími til að hún átti sig á því að hveitibrauðsdögum hennar er lokið og nú þarf hún að fara að vinna vinnuna sína. Sú vinna á að vera í þágu almennings.