Sveinn Guðmundsson fæddist í Reykjavík 1958. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1979, cand.jur. frá Háskóla Íslands 1993 síðar hdl. og hrl. Sveinn hefur síðan starfrækt eigin lögfræðistofu.

Sveinn Guðmundsson fæddist í Reykjavík 1958. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1979, cand.jur. frá Háskóla Íslands 1993 síðar hdl. og hrl. Sveinn hefur síðan starfrækt eigin lögfræðistofu. Eiginkona Sveins er Aðalheiður Valdimarsdóttir leikskólakennari og eiga þau samtals fjögur börn.

Í Háskólanum í Reykjavík er í dag boðið til fundar um nýtt frumvarp til laga um frístundabyggðir. Á fundinum munu þeir Ólafur Björnsson hrl. og Sveinn Guðmundsson hrl. og framkvæmdastjóri Landssambands sumarhúsaeiganda fjalla um ólíkar hliðar frumvarpsins.

Sveinn Guðmundsson segir frumvarpið komið fram til að bregðast við óheppilegri þróun á leigumarkaði sumarhúsalóða: „Á árum áður bauðst fólki oft ekki annar kostur til að eignast sumarhúsalóð en að leigja skika á bújörð, þó svo eiganda jarðarinnar langaði gjarna til að selja. Kvaðir um búrekstur og nýtingu leyfðu ekki að gert væri nýtt deiliskipulag og aðrar nauðsynlegar aðgerðir til að sala gæti farið fram, og því leiguleiðin farin í staðinn,“ útskýrir Sveinn. „Í mörgum tilvikum borgaði fólk ígildi kaupverðs með svokölluðu stofngjaldi, og hefur síðan greitt hóflega leigu. Síðan fer það að gerast á síðustu árum að byrjað er að skipta bújörðum, og aðstaða skapast til að selja lóðir undir sumarhúsabyggð. Þá hafa bújarðirnar áður gengið kaupum og sölum, jafnvel margfaldast í verði, og þegar leigusamningar eigenda sumarhúsa renna út standa þeir margir frammi fyrir að gerð er krafa um mun hærri leigu á endurnýjuðum samningi, – jafnvel meira en tífalt hærri en var áður.“

Að sögn Sveins fjallar hið nýja frumvarp m.a. um eignar- og ráðstöfunarrétt þessara lóða: „Ljóst er að eigendur sumarhúsanna hafa lagt mikið fjármagn og tíma í að byggja upp mikil verðmæti á lóðinni sem þó telst í eigu annars aðila. Hafa sumarhúsaeigendur t.d. staðið straum af vegagerð og vatnsveitu, stundað skógrækt og lóðarbætur fyrir utan svo sjálft sumarhúsið sem reist hefur verið á lóðinni,“ útskýrir hann. „Nýja frumvarpið tryggir sumarhúsaeigendunum ákveðna réttarstöðu og færir til þeirra ákvörðunarréttinn um að leigja jörðina áfram undir sumarhúsið. Frumvarpið leitast líka við að tryggja sanngjarnt leiguverð með þeim möguleika að hægt sé að vísa deilum um leiguupphæð til sérstakrar úrskurðarnefndar eða í gerðardóm.“

Fundurinn í dag er haldinn í húsi HR í Ofanleiti frá kl. 12 til 13. Fundurinn er öllum opinn og aðgangseyrir kr. 2.000 og veitingar innifaldar.