Utandyra Fjölmargir möguleikar eru í sveitinni til að bregða á leik og finna nýjar leiðir í samlífinu.
Utandyra Fjölmargir möguleikar eru í sveitinni til að bregða á leik og finna nýjar leiðir í samlífinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skemmtilegir sjortarar geta verið krydd í tilveruna, sérstaklega þegar neistinn er farinn að dofna hjá þeim sem hafa verið lengi saman. Kristín Heiða Kristinsdóttir spáði í fyrirbærið og gluggaði í bók sem gefur ýmsar hugmyndir að hraðsoðnum ánægjustundum.
Í tímaleysi nútímamannsins vilja langar góðar stundir til kynlífsiðkana stundum verða útundan, sérstaklega hjá þeim sem hafa verið lengi saman og hvað þá ef hversdagsstreðið rænir fólk bæði tíma og orku. Slíkt vandamál er ekki nýtt af nálinni, til dæmis söng Spilverk þjóðanna á áttunda áratugnum um fólk sem er „of þreytt til að sofa hjá“ vegna húsbygginga.

„Kynlíf fyrir önnum kafið fólk“ er einmitt undirtitill bókarinnar Sjortarar sem nýlega kom út hjá JPV-útgáfunni, en hún virðist vera hugsuð sem hjálpartæki fyrir pör í tímahraki sem vilja bæta svolítilli spennu í kynlífið og kynna sér leiðir, hugmyndir og „reglur“ um sjortara.

Um að gera að sprella svolítið

Það er óneitanlega örvandi að kanna nýjar leiðir í kynlífi, rétt eins og með mat og aðrar nautnir, og sjortarar eru tilvalin leið til hverslags uppátækja og um að gera að taka djarft frumkvæði. Það eflir kynhvötina að leita óvæntra staða til slíkra athafna og það skapar æsandi spennu ef viss hætta er á að vera staðin að verki. Full ástæða er til að hvetja fólk til fíflagangs, kynlíf er jú miklu skemmtilegra ef það er ekki háalvarlegt eða hátíðlegt. Vert er að taka fram að tæplega stendur ending sambands og fellur með kynlífsleikjum, einfaldlega vegna þess að þó svo að kynlíf spili stórt hlutverk í sambandi fólks, þá er ansi margt annað sem vegur þungt og skiptir máli fyrir „límið“ sem heldur fólki saman. Sjortarar duga skammt til að laga alvarlegan vanda í samlífi para.

Stolnar stundir æsandi

Aftur á móti er nokkuð ljóst að það skaðar tæplega nokkurt samband að nota hádegið eða annan tíma áður en fólk er orðið úrvinda eftir langan dag til að leika sér óvænt. Stolnar stundir í eldhúsinu, kannski rétt áður en gestir koma í mat, geta verið mjög skemmtilegar og að rífa sig úr fínu fötunum örskömmu áður en haldið er út í boð hjá öðrum, getur líka alveg bjargað kvöldinu. Og ekki má gleyma að vinnustaðurinn býður upp á ýmsa möguleika. Að fá sér nettan sjortara á óvæntum stöðum er hressandi tilbreyting frá gamla vananum heima í rúmi. Og möguleikarnir eru nánast ótæmandi, þetta snýst jú um hugmyndaflug og vilja. Þeir sem búa í sveitinni ættu ófeimnir að fá sér einn stuttan í fjósinu, hlöðunni eða úti á túni þegar sólin skín hvað skærast. Og það tekur enga stund að sópa mesta heyinu úr garðanum í fjárhúsinu yfir veturinn og skella sér á fjalirnar. Svo eru það hinir ýmsu opinberu staðir sem margir horfa löngunaraugum til þegar kemur að sjorturum, eins og kvikmyndahús, leikhús og jafnvel kirkjugarðar. Gerði Þórbergur það ekki undir leiði hér forðum? Flugvélar hafa einnig örvað marga til dáða á þessu sviði. Langflug getur jú verið leiðigjarnt og um að gera að brjóta upp stemninguna með því að dúlla sér undir teppinu eða bregða sér saman á klósettið.

Aðeins fyrir fagra og flotta?

Hafa má nokkra skemmtun af bókinni Sjortarar en þótt myndirnar séu vissulega litríkar og settar fram á skemmtilegan hátt má velta fyrir sér hvort nauðsynlegt hafi verið að hafa fólkið sem þar situr fyrir einvörðungu ungt, „fallegt“ og með „fullkominn líkama“. Einhver gæti lesið þau skilaboð út úr því að skemmtilegt kynlíf sé aðeins fyrir fagra og flotta. Ef einhverjar myndanna hefðu verið af „venjulegu fólki“ og á misjöfnum aldri hefðu fleiri getað samsamað sig þeim. Og hvað með samkynhneigða? Í þessari bók eru engar myndir eða hugmyndir fyrir slíkt fólk. Getur verið að í öllu hispursleysinu sem sagt er einkenna bókina sé samt sem áður ekki pláss fyrir samkynhneigða?

khk@mbl.is