— 24stundir/Kristinn
Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynur@24stundir.is Ef reglur um hreinsun afrennslis frá byggð við Þingvallavatn verða ekki hertar, má búast við því að Þingvallavatn verði eins og grænmetissúpa á að líta vegna ofauðgunar.

Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynur@24stundir.is

Ef reglur um hreinsun afrennslis frá byggð við Þingvallavatn verða ekki hertar, má búast við því að Þingvallavatn verði eins og grænmetissúpa á að líta vegna ofauðgunar. Þetta segir segir Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði við Háskóla Íslands.

Samkvæmt reglugerð um verndun Þingvallavatns frá árinu 2006 skal við hreinsun á affalli við Þingvallavatn gæta sérstaklega að mengunarefnum sem Þingvallavatn er viðkvæmt fyrir, svo sem köfnunarefnum og saurmengun.

Gísli segir ekki nóg að setja upp rotþrær og hreinsibúnað til að hreinsa affallið og dæla því að svo búnu í vatnið, eins og reglugerðin kveði á um.

„Það er að mörgu leyti ágætt að vera með rotþró við húsin þar sem föst efni eru látin rotna. En í gegnum rotþrærnar flæðir rotinn úrgangur, svo sem áburðarefni sem eyðast ekki upp í vatni, og skilar sér út í vatnið sem uppleystar jónir. Þar með er komin niturmengun í vatnið og hætta á ofauðgun.“

Gísli bendir á vötn norðan Kaupmannahafnar sem dæmi um þær afleiðingar sem ofauðgun vegna saur- og niturmengunar getur haft, en með ofauðgun er átt við það ástand sem skapast þegar jafnvægi vistkerfa er raskað með ofgnótt næringarefna, sem veldur hömulausri fjölgun lífvera.

„Þegar byggð fór að aukast í kringum vötnin fóru menn við Kaupmannarhafnarháskóla að vara við ofauðgun þeirra. Ekki var hlustað á þá og fljótlega urðu vötnin eins og grænmetissúpa. Nú er í 10 til 15 ár búið að veita öllu skolpi frá vötnunum, en ekki hefur enn tekist að ná úr þeim menguninni enda erfitt snúa við slíkri þróun.“

Hann segir að ef fram fer sem horfir megi búast við að svipað ástand skapist í lífríki Þingvallavatns innan tíðar.

„Á öðrum stöðum í Evrópu sem njóta sömu virðingar og Þingvallaþjóðgarður, hefur verið farin sú leið að veita affalli í lokað rotþróarkerfi og vatninu síðan dælt út fyrir verndarsvæðið,“ segir Gísli.

Í hnotskurn
Prófessor í vatnalíffræði segir ekki nóg að hreinsa affall og setja það svo út í Þingvallavatn. Slíkt geti skapað hættu á niturmengun og ofauðgun í vatninu.