Bókasafn Háskólans á Akureyri, kennaradeild skólans og 3f - félag um upplýsingatækni og menntun, standa fyrir fræðslufundi um upplýsingatækni í skólastarfi í Háskólanum á Akureyri föstudaginn 4. apríl kl. 13:30-17.
Bókasafn Háskólans á Akureyri, kennaradeild skólans og 3f - félag um upplýsingatækni og menntun, standa fyrir fræðslufundi um upplýsingatækni í skólastarfi í Háskólanum á Akureyri föstudaginn 4. apríl kl. 13:30-17. Fundurinn fer fram í stofu L201 í húsnæði skólans við Norðurslóð.

Samþætt öðrum námsgreinum

„Tilgangurinn er að vekja athygli á upplýsingatækninni í námi og það verða fyrirlestrar sem henta eiginlega öllum skólastigum. Við lögðum upp með að þetta yrði praktískt, að fólk hefði eitthvað hagnýtt í höndunum eftir fundinn,“ segir Dagný Birnisdóttir, kennari og ritari 3f - félags um upplýsingatækni og menntun.

„Það sem er kannski æskilegast, til dæmis í grunnskólunum, er að samþætta upplýsingatæknina sem mest öðrum námsgreinum þó að það þurfi alltaf að kenna vissa grunnfærni eins og fingrasetningu. Ég held að það skili krökkunum mestu ef þeir fást við eitthvað hagnýtt og sjá tilganginn í því sem þeir eru að gera,“ segir Dagný.

Tæknibúnaður misjafn

Dagný segir að íslenskir kennarar séu misduglegir að nýta sér upplýsingatækni í skólastarfi. „Það sem við erum líka að kljást við sums staðar er að tæknibúnaðurinn er ekki alltaf í nægilega góðum málum. Það er mjög misjafnt eftir skólum. Sums staðar er hann í mjög góðu lagi og annars staðar ekki,“ segir hún.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis en mælst er til þess að fólk skrái sig áður á netfanginu http://vefir.unak.is/fraedslufundur/.