Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is FORSTJÓRI Samkeppnisstofnunar telur að yfirlýsingar forsvarsmanna fyrirtækja og samtaka fyrirtækja að undanförnu um verðlag eða fyrirætlanir um breytingar á verði geti raskað samkeppni og skaðað hagsmuni neytenda.
Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

FORSTJÓRI Samkeppnisstofnunar telur að yfirlýsingar forsvarsmanna fyrirtækja og samtaka fyrirtækja að undanförnu um verðlag eða fyrirætlanir um breytingar á verði geti raskað samkeppni og skaðað hagsmuni neytenda.

Á undanförnum dögum hafa forsvarsmenn fyrirtækja og samtaka fyrirtækja fjallað um verðhækkanir. Finnur Árnason, forstjóri Haga, sagði fyrir nokkrum dögum að ef gengislækkun krónunnar gengi ekki til baka mætti búast við 20% hækkun á innfluttum matvörum. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, sagði í samtali við RÚV um helgina að búast mætti við 20-30% hækkun á matvöru á næstunni. Eftir búnaðarþing fyrir nokkrum vikum ræddi Morgunblaðið við nokkra forystumenn bænda um verðbreytingar og birti viðtölin undir fyrirsögninni „Sátt um hækkanir nauðsynleg.“

Andrés segist með orðum sínum hafa verið að ræða um að gengi krónu hafi lækkað mikið og hráefnisverð hafi hækkað. Hann segist telja að sér hafi verið heimilt að leggja út af þessum staðreyndum.

Samkvæmt samkeppnislögum er samtökum fyrirtækja óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem eru bannaðar. Samkeppniseftirlitið hefur þegar gert athugasemd við Bændasamtökin og hefur einnig óskað eftir upplýsingum og skýringum á ummælum Andrésar Magnússonar.

Í yfirlýsingu sem Samkeppniseftirlitið sendi frá sér segir að það geti raskað samkeppni og skaðað hagsmuni neytenda ef fyrirsvarsmenn fyrirtækja gefi t.d. nákvæmar upplýsingar um fyrirhugaðar verðhækkanir eða lýsi yfir vilja til verðhækkana. Slík umfjöllun geti verið til þess fallin að hvetja keppinauta á markaði til verðhækkana og stuðlað að ólögmætu samráði.

„Við munum fylgjast mjög vel með því að það sé ekki verið að nýta aðstæður og fjölmiðla til þess að koma af stað verðhækkunum sem grundvallast á samráði og eiga sér ekki eðlilegar forsendur,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. | 6