Estelle Söng lagið „American Boy“ með Kanye West fyrir skömmu.
Estelle Söng lagið „American Boy“ með Kanye West fyrir skömmu.
BRESKA söngkonan Estelle er verulega ósátt við að bresk útgáfufyrirtæki og fjölmiðlar skuli hafa meiri áhuga á ungum, hvítum söngkonum en þeldökkum.
BRESKA söngkonan Estelle er verulega ósátt við að bresk útgáfufyrirtæki og fjölmiðlar skuli hafa meiri áhuga á ungum, hvítum söngkonum en þeldökkum.

Estelle furðar sig á því, í samtali við blaðamann Guardian, að hvítum söngkonum sem syngja sálartónlist skuli heldur hampað en þeldökkum sem syngi sams konar tónlist og þá oft betur. Hún segir að svo virðist sem það sé vænlegra til árangurs fyrir söngkonur að vera hvítar á hörund en þeldökkar, ef marka megi þær sem hvað vinsælastar séu á Bretlandseyjum nú um stundir.

Estelle nefnir sem dæmi söngkonurnar Duffy og Adele. „Ég er ekki fúl út í þær, en ég velti því fyrir mér af hverju engin þeldökk manneskja syngi sálartónlist í fjölmiðlum. Adele er ekki sálartónlistarmaður. Hún virðist hafa hlustað á eina plötu með Arethu og hún er með djúpa rödd, en það þýðir þó ekki að hún sé sálartónlistarkona,“ segir Estelle. Hún skilji sem lagahöfundur hvað þessar konur séu að gera en sem þeldökk kona geti hún ekki viðurkennt tónlistina sem almennilega sálartónlist. „Fjandinn hafi það!“ segir Estelle.

Estelle átti smell árið 2004 sem heitir „1980“. Paul McKenzie, ritstjóri tónlistarritsins Touch , segir að „YWF“ (skammstöfun fyrir young white females, þ.e. ungar hvítar konur) séu „í tísku“. Í þær sé peningum dælt og menn verji frekar tíma í þær í von um gróða. Fólk sýni þessum tónlistarkonum meiri þolinmæði en þeim þeldökku. Þannig sé Bretland í dag.