Í Ríó Barist við eiturlyfjabaróna og undirmenn þeirra í <strong> Tropa de Elite</strong> .
Í Ríó Barist við eiturlyfjabaróna og undirmenn þeirra í Tropa de Elite .
KVIKMYNDAHÁTÍÐ Græna ljóssins, Bíódagar, stendur yfir 11.-24. apríl í Regnboganum og er nú ljóst að 13 myndir verða sýndar, en sex bættust í síðustu viku við þær sjö sem áður höfðu verið staðfestar til sýningar.
KVIKMYNDAHÁTÍÐ Græna ljóssins, Bíódagar, stendur yfir 11.-24. apríl í Regnboganum og er nú ljóst að 13 myndir verða sýndar, en sex bættust í síðustu viku við þær sjö sem áður höfðu verið staðfestar til sýningar. Opnunarmyndin verður Tropa de Elite eftir Brasilíumanninn José Padilhasem, en hún hlaut aðalverðlaun Kvikmyndahátíðarinnar í Berlín í febrúar sl. Myndinni er lýst sem pólitískri hasar-dramamynd um sjálfstæða sérsveit innan lögreglunnar sem hefur það hlutverk að berjast með öllum tiltækum ráðum við eiturlyfjabaróna í fátækrahverfum Rio De Janeiro. Myndin hefur aðeins verið sýnd í Brasilíu og Þýskalandi.

Le Renard et l'enfant (Refurinn og barnið) er verk Frakkans Lucs Jaquets sem gerði Ferðalag keisaramörgæsanna . Myndin er í senn náttúrulífsmynd og gamaldags ævintýri um vinskap ungrar stúlku við ref. King of Kong er bandarísk heimildarmynd eftir Seth Gordon og segir af tveimur ólíkum mönnum sem keppa um heimsmetið í tölvuleiknum Donkey Kong. Annar framleiðir sósur með góðum árangri en hinn er grunnskólakennari sem ætlaði eitt sinn að verða rokkstjarna.

Sand and Sorrow er einnig heimildarmynd, eftir Bandaríkjamanninn Paul Freedman og fjallar um þjóðarmorðin í Darfur-héraði í Súdan. Freedman fjallar m.a. um það hvernig alþjóðasamfélagið hafi brugðist skyldum sínum í að koma böndum á hörmungarástandið í Darfur. George Clooney er þulur myndarinnar en hann hefur látið sig ástandið miklu varða.

Bella eftir mexíkóska leikstjórann Alejandro Gomez Monteverde er hugljúf mynd. Sögusviðið er New York og fjallað um afdrifaríkan dag í lífi þriggja manneskja. Myndin hlaut áhorfendaverðlaunin á Toronto-
kvikmyndahátíðinni 2006.

Living Luminaries er bandarísk frá árinu 2007 og leikstjóri hennar Larry Kurnarskuy. „Ef þú fílaðir The Secret þá muntu elska þessa,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjanda hátíðarinnar, Ísleifi Þórhallssyni. Helstu fræðimenn og spekingar heims á sviði hamingjuleitarinnar fjalli í myndinni með áhugaverðum hætti um hver sé rétta leiðin að sannri hamingju.

Frekari upplýsingar um Bíódaga er að finna á vefsíðu Græna ljóssins, www.graenaljosid.is. Miðasala verður á midi.is þegar nær dregur hátíð.