— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
UNICEF uppreisnin heitir verkefni sem Ungmennaráð Unicef, þ.e. Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, stendur að þessa dagana.

UNICEF uppreisnin heitir verkefni sem Ungmennaráð Unicef, þ.e. Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, stendur að þessa dagana. Af því tilefni var haft samband við nemendafélög framhaldsskóla á landinu síðasta sumar og leita liðsstyrks þeirra og svöruðu þrír skólar kallinu: Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Hamrahlíð.

Afrakstur starfsins eru styrktartónleikar á Nasa sem haldnir verða annað kvöld og gefa þar vinnu sína hljómsveitirnar Hjálmar, Hjaltalín, Sprengjuhöllin, Rökkurró, Mammút og Retron. Prentsmiðjan Oddi leggur verkefninu lið með öllu því prentaða efni sem þarf, veggspjöldum, miðum o.fl.

Lilja Dögg Jónsdóttir, formaður nemendafélags Kvennaskólans, segir nemendafélögin þrjú hafa skipulagt tónleikahaldið frá a til ö. Allur ágóði renni til starfs Unicef. „Það er mikil stemning fyrir þessum tónleikum, heyrist mér,“ segir Lilja Dögg. Undirbúningur hafi gengið mjög vel enda allir afar jákvæðir í garð verkefnisins. „Þetta er mjög stórt og spennandi verkefni,“ segir Lilja Dögg, undirbúningur framhaldsskólanemanna hafi staðið yfir í nokkrar vikur og verið afar lærdómsríkur.

Starf Unicef verður kynnt á tónleikunum sem hefjast kl. 20. Forsala aðgöngumiða er þegar hafin á midi.is og í menntaskólunum þremur á aðeins 1.500 kr. en einnig verða miðar til sölu við innganginn á 2.000 kr.

Nánari upplýsingar um starf Unicef má finna á vef samtakanna, www.unicef.is.