Bolli Thoroddsen
Bolli Thoroddsen
Bolli Thoroddsen skrifar um miðborgina og borgarpólitíkina: "Heilindi og heiðarleiki felast m.a. í því að leggja sömu mælistiku á eigin verk og annarra. Fylgja sjálfur þeim leikreglum sem þú ætlast til af öðrum."

ÞAÐ er umhugsunarefni þegar fólk áfellist aðra fyrir hluti sem það gerir sjálft, á hlutdeild í eða lætur óátalið hjá samherjum sínum.

Getur verið að eftirfarandi ummæli á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, sem birtust á mbl.is um helgina séu dæmi um þetta?: „Að lokum sagði Ingibjörg Sólrún að hún teldi að klækjastjórnmál væru mikill skaðvaldur í íslenskum stjórnmálum.“ „Sjaldan hefur það opinberast með jafn átakanlegum hætti og núna í Reykjavík. Borgin líður fyrir hrossakaup og óheilindi stjórnmálamanna. Ég finn til með borginni minni og finnst þyngra en tárum taki að horfa upp á niðurlægingu hennar sem hvarvetna blasir við. Klækjastjórnmál eru frumstæð og öllum til óþurftar. Þau eiga ekkert erindi við upplýst fólk á Íslandi í upphafi 21. aldar. Nú er ekki tími fyrir klækjastjórnmál, refsskap og útúrsnúninga heldur hreinskiptni og heilindi.“

Hér er Ingibjörg augljóslega að vísa til síðustu meirihlutaskipta í Reykjavík og samkvæmt frétt á Stöð 2 á sunnudagskvöld ennfremur til þess erfiða ástands sem skapast hefur í skipulagsmálum miðborgar Reykjavíkur.

Hvað með Tjarnarkvartettinn?

Núverandi meirihluti í Reykjavík var myndaður í janúar sl. vegna óánægju borgarfulltrúa F-listans með „að málefni F-listans hefðu ekki náð fram að ganga í starfi fyrri meirihluta og að flokkurinn hefði ekki fengið fulltrúa í nefndum í samræmi við atkvæðahlutfall“, svo vitnað sé til hans eigin ummæla. F-listinn fékk rúm 10% atkvæða en mun minni möguleika til áhrifa en Framsóknarflokkurinn, sem hafði fengið um 6%. Það var mat Ólafs F. Magnússonar að þau mál sem hann var kosinn útá ættu meiri möguleika í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn en í Tjarnarkvartettinum svonefnda undir forystu Dags B. Eggertssonar. Það var því bæði réttur hans og skylda gagnvart kjósendum sínum að mynda meirihluta þar sem hans baráttumál kæmust áfram. Þó deila megi um skiptingu embætta, þá gerðist það einfaldlega að Sjálfstæðisflokkurinn nýtti tækifærið til að koma stefnu sinni í framkvæmd, eins og hann var kosinn til.

Það er hans lýðræðislegi réttur með sama hætti og þegar Björn Ingi Hrafnsson í október sl. myndaði „yfir nótt“ meirihluta með Samfylkingu, VG og Margréti Sverrisdóttur, óháðum borgarfulltrúa. Hann lét okkur, félaga sína í meirihlutanum, sjálfstæðismennina, halda að allt væri í stakasta lagi, hafði fullvissað Vilhjálm um það kvöldið áður. Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, passaði svo uppá sjálfstæðismennina morguninn eftir, þar sem þeir sátu grunlausir í Höfða klukkutímum saman og biðu Björns Inga. Á meðan myndaði hann nýjan meirihluta í borgarstjórn undir forystu Samfylkingarinnar. Undir hádegið var hringt í Óskar inná fundinn, látið vita að nýr meirihluti væri í höfn. Óskar stóð upp og sagði efnislega; krakkar mínir, þetta er búið!

Beittu Dagur og Björn Ingi klækjastjórnmálum?

Varð Tjarnarkvartettinn til í krafti klækjastjórnmála? Það fannst Ingibjörgu augljóslega ekki því hún fagnaði meirihlutanum og aðild Samfylkingarinnar að kvartettinum. Klækjastjórnmálin komu ekki til fyrr en Samfylkingin missti völdin í borginni.

Björn Ingi var ósáttur við framvindu REI-málsins og taldi framtíð þess fyrirtækis betur tryggða hjá Tjarnarkvartettinum. Með sama hætti og áður sagði um Ólaf F. þá var það réttur Björns Inga og skylda gagnvart sínum kjósendum að standa með þeim málefnum sem hann trúði á en ekki öðrum stjórnmálaflokkum, í þessu tilfelli Sjálfstæðisflokknum.

Hver ber ábyrgð á þróun miðborgarinnar?

Í ummælum Ingibjargar um „niðurlægingu Reykjavíkur, sem hvarvetna blasi við“, er hún, samkvæmt frétt Stöðvar 2, að vísa til þess erfiða ástands sem skapast hefur í skipulagsmálum í miðborginni. Og kannast augljóslega ekki við neina ábyrgð í því máli.

Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri í 10 ár og á þeim tíma var samþykkt það deiliskipulag sem nú er í gildi fyrir miðborgina. Deiliskipulag sem Sigmundur D. Gunnlaugsson skipulagsfræðingur segir skilgreina miðborgina sem þróunar- eða endurnýjunarsvæði. Og telur hann þau einkenni deiliskipulagsins, auk hækkandi íbúðaverðs í miðborginni, meginorsök þess að verktakar hafi í stórum stíl keypt upp húseignir í miðbænum til niðurrifs. Vafalaust kemur þó fleira til.

Það hvarflar ekki að mér að Ingibjörg hafi séð þetta fyrir en hún getur ekki firrt sig allri ábyrgð, frekar en aðrir sem sl. 15 til 20 ár hafa ráðið þróun Reykjavíkurborgar. Það væru klækjastjórnmál að varpa allri ábyrgð á núverandi meirihluta?

Hreinskiptni og heilindi

Ingibjörg hvetur til hreinskiptni og heilinda í stjórnmálum og hafnar klækjastjórnmálum. Þar er ég henni sammála og er tilgangur þessarar greinar að benda á eftirfarandi; Heilindi og heiðarleiki í stjórnmálum felast m.a. í því að leggja sömu mælistiku á eigin verk og annarra. Fylgja sjálfur þeim leikreglum sem þú ætlast til af öðrum. Það eru gömul kristileg sannindi.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður ÍTR.