Stund milli stríða Þó að illa ári í efnahagsmálum gefst ráðamönnum stundum tóm til að gleðjast. Ekki fylgir sögunni þó hvað gladdi ráðherrana tvo svo mjög í gær en eflaust hefur það verið eitthvert gott þingsprell.
Stund milli stríða Þó að illa ári í efnahagsmálum gefst ráðamönnum stundum tóm til að gleðjast. Ekki fylgir sögunni þó hvað gladdi ráðherrana tvo svo mjög í gær en eflaust hefur það verið eitthvert gott þingsprell. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is STYRKING krónunnar og innlends hlutabréfamarkaðar í gær bendir til þess að botninum hafi verið náð í efnhagsmálum, að því er fram kom í máli Geirs H.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

STYRKING krónunnar og innlends hlutabréfamarkaðar í gær bendir til þess að botninum hafi verið náð í efnhagsmálum, að því er fram kom í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra í utandagskrárumræðum á Alþingi en honum þótti ánægjulegt að krónan skyldi styrkjast myndarlega á fyrsta viðskiptadegi eftir ársfund Seðlabankans.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, var málshefjandi í umræðunum og hafði áhyggjur af því að stefnt gæti í dýpri og langærri efnahagskreppu en sést hefði lengi á Íslandi. Gagnrýndi hann jafnframt stórkaupmenn og sakaði þá um fáránleg viðbrögð – „að boða sjálftöku í verðhækkunum í skjóli verðbólgu“.

Guðni kallaði eftir þjóðarsáttarnefnd sem ynni neyðaráætlun um aðgerðir. „Stærsta málið við svona aðstæður er að auka útflutningstekjur þjóðarbúsins og hlúa að innlendri framleiðslu,“ sagði Guðni og vildi einnig, eftir endurskoðun fjárlaga, lækkun eða niðurfellingu á sköttum á matvælum og eldsneyti og möguleika á því að Íbúðalánasjóður tæki yfir fasteignalán banka væri þess óskað af lántakendum eða bönkum.

Þá tók Guðni undir gagnrýni á háa stýrivexti Seðlabankans og sagði margt benda til þess að þeir yllu taugaveiklun og vantrú á íslenska efnahagsstjórn. „Það má velta því fyrir sér að sjúklingurinn sé á röngum meðulum og að vaxtaokrið auki sótthitann,“ sagði Guðni.

Haldi aftur af sér í hækkunum

Geir H. Haarde sagði núverandi efnahagsvanda vera tvenns konar. Annars vegar væri um lausafjárkreppu að ræða um allan heim sem gerði bönkum erfitt að afla sér fjár til að standa við skuldbindingar sínar. Hins vegar hefði komið upp gjaldeyrisskortur sem aftur hefði valdið gengisfellingu.

Geir áréttaði að gengislækkun hefði verið séð fyrir enda hefði gengið verið of hátt skráð miðað við efnahagsaðstæður. Hins vegar hefði komið á óvart hversu hratt hún átti sér stað en Geir minnti þó á misjöfn áhrif gengislækkunar á ólíka atvinnuvegi. „Hún bætir afkomu sjávarútvegsins, hún bætir afkomu álfyrirtækjanna og gerir það að verkum t.a.m. að sjávarútvegurinn mun fara auðveldar í gegnum þá aðlögun sem hann þarf að fara í gegnum varðandi skerðingu á þorskaflakvóta,“ sagði Geir en bætti við að vandinn væri að verð á innfluttri vöru hækkaði og skoraði á þá sem vald hefðu yfir verðlagi að halda aftur af sér í hækkunum á meðan ekki væri séð fyrir endann á þróuninni.

Í hnotskurn
» Alþingi kom saman eftir páskahlé í gær og þ.a.l. í fyrsta sinn eftir að krónan hrundi og hlutabréfamarkaðir lækkuðu.
» Almenn samstaða var um það í umræðum að styrkja þyrfti gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans.