Anna Guðrún Antonsdóttir fæddist á Siglufirði 17. júlí 1935. Hún lést af slysförum 19. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Oktovía Sæmundsdóttir f. 7. október 1900, d. 5. febrúar 1982 og Björn Anton Kjartansson, f. 8. september 1904, d. 30. ágúst 1935. Systir Önnu er Gunnlaug Sæunn, f, 18. janúar 1932.

Anna giftist Ásgrími H. Aðalsteinssyni, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Bjarnheiður, f. 10. 10. 1956, maki Guðjón Gunnar Þórðarson, þau eiga tvær dætur og eitt barnabarn. 2) Aðalsteinn Sigurður, f. 20.11. 1959, maki Herborg Berndsen, þau eiga tvær dætur og tvo syni. Barnabörn þeirra eru 5. 3) Ómar Anton, f. 30.4. 1962, maki Valborg Erna Ingólfsdóttir, þau eiga tvo syni, fyrir á Ómar tvær dætur. Þau eiga tvö barnabörn.

Anna bjó síðar í nokkur ár með Árna Bjarnasyni, fyrrum sjómanni, d. 2005.

Anna fluttist til Reykjavíkur fljótlega eftir andlát föður hennar ásamt móður sinni og systur,og bjó þar nær alla tíð, að undanskildu u.þ.b. einu ári, en þá bjó hún í Hveragerði, og síðustu æviár bjó hún í Hafnarfirði.

Útför Önnu verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Í Spámanninum segir:

„Og hvað er það að hætta að draga andann

annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund guðs síns?“

Elsku, elsku mamma mín.

Nú hafa öldur lífs þíns lægt og þú komin þangað sem þú varst svo viss um að biði þín svo miklu, miklu betra.

Ég vil þakka þér fyrir allt, sem þú gafst og kenndir mér. Hvað væri ég án þíns veganestis?

Kærleikur þinn og hlýja munu allt mitt líf búa innra með mér.

Góður Guð geymi þig og blessi.

Þín dóttir,

Guðrún.

Elsku amma.

Loksins fékkstu æðstu ósk þína uppfyllta, að yfirgefa þennan heim. Þú trúðir því að þá færum við á betri stað þar sem sálin héldi áfram að ,,lifa.“ Stað þar sem þér líður mun betur á en þér hefur liðið síðustu árin. Einkennilegt hvernig lífið getur farið með suma eins og það fór með þig, bæði á líkama og sál. Ævi þín var ekki auðveld. Kannski var það ekkert skrítið að þú varst reið og bitur út í lífið. Ég hef alltaf sagt að maður skapi sína eigin hamingju sjálfur, ekki það að ég fari alltaf eftir því, en stundum þarf maður aðstoð við að skapa hamingjuna.

Ég vildi óska að ég hefði getað fært þér meiri gleði og hamingju, ég var sjálfsagt ekki nógu dugleg við að reyna það. Ég var farin að minnka heimsóknir mínar til þín einfaldlega vegna þess að mér fannst oft og tíðum erfitt að vera í kringum þig. Mér fannst þú svo breytt og minning mín um þig var þessi yndislega amma sem ég hélt mikið upp á og sóttist eftir að vera með, breyttist allt í einu í leiða, bitra, ,,gamla“ konu. Ég saknaði þín eins og þú varst og átti erfitt með að sætta mig við hvernig þú varst orðin. En það er engin afsökun fyrir því að sinna ekki ástvini sínum. Ég vildi óska að ég hefði sýnt líðan þinni betri skilning í stað þess að vera svekkt yfir því að þú varst ekki lengur sama amma. Það er sárt að vera vitur eftir á.

Í minningunni var ég mikið hjá þér og minnist ég þess að við spjölluðum mikið saman. Ég man eftir okkur í Írabakkanum, sérstaklega eftir slánni í hurðaropinu þar sem hægt var að hífa sig upp. Ég fékk að standa á stól til þess að prófa og fannst það æðislegt. Flestar minningar mínar tengjast Öldugötunni. Þangað kom ég oft, enda mjög hrifin af þessu gamla húsi með sögu fjölskyldunnar, sem var svo seinna tekið frá þér.

Hjá ömmu var alltaf til ís og hægt að fara upp á loft til Palla í prins og kók. Það brást varla að þú sast við borðstofuborðið með gömlu, lúnu spilin þín að leggja kapal. Þegar ég varð unglingur krafðist ég þess oft að fá að koma með þér í vinnuna og hjálpa þér að skúra, þú varst svo glöð að fá aðstoð. Einnig minnist ég ferða okkar á Hressó þar sem við fengum okkur köku og drykk, þér fannst svo gaman að fara á kaffihús. Við deildum áhuga okkar á andlegum málefnum og gátum við setið tímunum saman að spjalla um það og oft fékk ég þig til að spá fyrir mér í bolla, langur maður, lukkustóð og barn.

Ég gleymi seint jólunum 2005 þegar ég og Lísa systir gáfum þér Trítil. Gleðin sem skein í augum þínum var óborganleg, hann veitti þér svo mikla hamingju.Upp á síðkastið varstu búin að vera mun glaðari en oft áður og voru síðustu jól frábær. Mér þótti svo vænt um það þegar mamma sagði mér að þú hefðir verið að tala um hvað Brynja Vigdís 4 mánaða dóttir mín væri falleg. Þú ætlaðir að eyða páskunum með okkur uppi í bústað en það varð ekkert úr því frekar en hádegismatnum okkar, sviðunum.

Elsku amma mín, vonandi líður þér vel nú og finnur gleðina í hjarta þínu, við hittumst síðar. Ég elska þig.

Þitt barnabarn,

Karen Björk Guðjónsdóttir.

Elsku amma mín.

Í dag kveð ég þig og það er svo margt sem berst í huga mér. Mér finnst svo skrýtið að hugsa til þess að þú sért farin. Það eru ótal minningar sem ég á um þig sem ég mun alltaf varðveita. Þegar ég hugsa til baka þá man ég hvað mér þótti alltaf svo gaman að koma til þín. Alltaf knúsaðiru og kysstirðu mann í bak og fyrir og spurðir hvað væri að frétta. Þér fannst svo spennandi að vita hvað væri að gerast hjá manni og hafðir brennandi áhuga á því sem fólkið þitt tók sér fyrir hendur.

Við sátum oft og spjölluðum lengi vel um allt milli himins og jarðar, því þannig varstu, elsku amma mín, það var hægt að spjalla um allt við þig. Og ekki má gleyma að þú passaðir vel upp á að enginn færi með tóman maga úr þínum húsum, og er mér það minnistætt þegar ég stundaði nám við Iðnskólann að í hádegishléum var best að koma til þín og fá gott að borða.

Það er svo stutt síðan ég hitti þig síðast og ég man að ég sagði þér að í páskafríinu lofaði ég að koma að heimsækja þig, ég man að þú varst svo glöð og sagðir mér að þú hlakkaðir til að fá mig í kaffi og spjall. Því miður komst ég ekki til þín, amma mín, en ég veit það í hjarta mér að þú ert hjá mér og munt alltaf vera hjá mér. Þú verður einn af fallegustu englunum á himnum sem munt vaka yfir okkur og fylgja okkur út í lífið. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér, elsku amma mín. Hvíl í friði.

Þín

Svanhildur.

Ég man eftir því hvað mér fannst alltaf gott að kúra í hálsakotinu hjá ömmu þegar ég var lítil og vorum við frændsystkinin dugleg að heimsækja hana á Öldugötuna og fá að gista hjá henni. Það er eitt skipti sem er mér ofarlega í minni. Það var 16. júní og ég hef verið svona 8 ára, ég og Aníta frænka fengum að gista hjá ömmu. Um kvöldið þegar við áttum að fara að sofa gátum við ekki sofið fyrir hávaða og tónlist neðan úr bæ, endaði það með því að við fengum að kúra uppi í hjá ömmu.

Í seinni tíð var alltaf gaman að kíkja á ömmu í kaffi það var hægt að spjalla við hana um allt milli himins og jarðar. Því miður fékk ég ekki tækifæri til að kveðja ömmu þar sem hún kvaddi þennan heim með hraði. En ég veit að hún er komin á góðan stað og fullt af fólki sem tekur á móti henni þar. Elsku amma mín, takk fyrir allt sem þú kenndir mér þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu. Blessuð sé minning þín.

Þú, Guð, sem stýrir stjarnaher

og stjórnar veröldinni,

í straumi lífsins stýr þú mér

með sterkri hendi þinni.

(Valdimar Briem.)

Hvíldu í friði, elsku amma.

Þín

Elínborg Elísabet.

Kæra Anna G. Antons.

Við systurnar frá Siglufirði viljum þakka þér hjartanlega fyrir öll góð kynni sem við áttum við þig og börnin þín frá þeim tíma þegar við bjuggum hjá ykkur í Samtúni 4 í Reykjavík.

Það var á árunum 1965-1966 sem við bjuggum hjá ykkur og vorum að stíga fyrstu sporin til sjálfstæðis úr foreldrahúsum. Þá reyndist þú okkur ávallt vel og myndaðist vinátta sem haldist hefur til þessa dags.

Oft var glatt á hjalla hjá okkur í Samtúninu og við eigum margar góðar minningar frá þessum tíma.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Börnum Önnu G. Antonsdóttur og fjölskyldum þeirra færum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð blessi ykkur öll.

Guðrún Hanna Halldórsdóttir.

Halldóra Halldórsdóttir.