Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur thorakristin@24stundir.is Einn af hverjum þremur tíundubekkingum langar að flytjast úr landi og einn af hverjum fimm býst við að flytja utan síðar á ævinni skv.
Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur

thorakristin@24stundir.is

Einn af hverjum þremur tíundubekkingum langar að flytjast úr landi og einn af hverjum fimm býst við að flytja utan síðar á ævinni skv. niðurstöðum rannsóknar Þórodds Bjarnasonar, prófessors í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Er þetta talsverð aukning frá árinu 1992 því þá langaði fjórðung til að flytjast úr landi og bjóst einn af hverjum tíu við að láta verða af því.

„Í kjölfar EES-samningsins hefur leiðin auðvitað opnast í báðar áttir svo það er auðveldara fyrir Íslendinga að flytjast úr landi. Það skýrir þetta að hluta,“ segir Þóroddur.

Hefur spágildi

„Út frá þessum gögnum er ljóst að fleiri ungmenni munu flytja á næstu árum en áður,“ segir Þóroddur og bendir á að eldri rannsóknir hans á áhuga unglinga á búferlaflutningum eftir sveitarfélögum hafi haft spágildi því mesta íbúafækkun hefur verið þar sem krakkarnir sýndu mestan áhuga á að flytja burt. „Þó þarf að athuga að niðurstöðurnar hafa ekki spágildi varðandi einstaklinginn, þ.e. ekki er víst að þeir sömu flytji til útlanda og búast við því nú en þetta endurspeglar stemmninguna í samfélaginu og það hefur forspárgildi,“ segir hann.

Þá segir hann athyglisvert að fleiri ungmenni hafi nú áhuga á að flytja til útlanda en til Reykjavíkur af þeim sem búa á landsbyggðinni.

Aðspurður hvort ungmennin hugsi sér að flytjast úr landi tímabundið eða til frambúðar segir hann það algengara að um tímabundinn brottflutning sé að ræða.

Flestir til Bandaríkjanna

Þegar unglingarnir voru beðnir um að merkja við það land sem þeir vildu helst flytja til ef þeir þyrftu að yfirgefa Ísland, völdu langflestir Bandaríkin. Helmingi færri völdu England, næsta land á eftir. „Einnig fannst munur á milli kynja og voru strákarnir líklegri til að velja Bandaríkin á meðan stelpurnar völdu frekar Norðurlöndin,“ segir Þóroddur. Þó töldu þau flest íbúa Norðurlanda standa næst sér.

Aðspurður hvers vegna Bandaríkin verði svo oft fyrir valinu segir Þóroddur það líklega vera vegna þess að þau þyki spennandi. „Svo finnst ungmennunum mögulega þau hafa skýrari mynd af því hvernig er að búa þar heldur en annars staðar, í gegnum kvikmyndir og sjónvarpsþætti,“ segir hann.

Í hnotskurn
Eftir því sem foreldrar ungmennanna voru menntaðri, því líklegri voru þau til að velja Norðurlöndin sem næsta búsetustað ef þau þyrftu að flytja. Ungmenni af erlendum uppruna voru líklegri til að velja Færeyjar og Grænland. Þau voru einnig líklegri til að vilja flytjast úr landi til frambúðar en önnur ungmenni.