Þór Willemoes Petersen fæddist á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn 13. október 1990. Hann lést á Barnaspítala Hringsins í Reykjavík að morgni annars dags páska, 24. mars s.l.

Foreldrar hans voru Steinunn Anna Ólafsdóttir blaðamaður f. 14.4. 1956, d. 25.10. 1991 og Per Willemoes f. 8.9. 1946. Þau voru ekki í sambúð. Þór átti eina hálfsystur, Gobelin Willemoes, að nafni f. 2.9. 1971.

Vegna veikinda móður sinnar ólst Þór upp hjá Óla Þór móðurbróður sínum og konu hans Hjördísi fyrstu æviárin.

Þór ólst upp í Hafnarfirði frá 5 ára aldri hjá hjónunum Guðmundi Jónssyni mjólkurfræðingi f. 29.7. 1956 og Sigrid Foss mjólkurfræðingi og húsmóður f. 20.1. 1954. Börn þeirra hjóna eru Laufey f. 4.10. 1985, Steinunn Ruth f. 14.12. 1987 og Jón Foss f. 10.1. 1997.

Þór lauk samræmdum prófum frá Lækjarskóla í Hafnarfirði. Að því loknu stundaði hann nám í einn vetur í Menntaskóla Kópavogs og svo frá síðustu áramótum í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Þór starfaði jafnframt hjá Nóatúni í Hafnarfirði.

Útför Þórs verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Það ótrúlega hefur skeð. Hann Þór er farinn frá okkur, en ekki langt, svo ljóslifandi er hann í hjörtum okkar allra sem elskuðum hann. Það er svo sárt að sjá hann fara núna því að svo oft var hann búinn að sigrast á þessum vonda sjúkdómi og marga orrustuna unnið, en kannski var þetta hans lokasigur að fá að fara inn í hátíð páskanna – upprisuhátíðina sjálfa.

Margir hugsa sem svo að ekki sé margt hægt að segja um 17 ára gamlan dreng, en það á ekki við um Þór, um hann væri hægt að skrifa heila bók, svo mikið var hann búinn að upplifa á sinni stuttu ævi. Hann var aðeins 7 ára þegar hann veiktist fyrst en vissulega átti hann góðan tíma inn á milli sem hann naut með góðum vinum og fjölskyldu sinni. Það var alveg ótrúlegt hvernig Þór tókst á við sjúkdóm sinn, hann kvartaði aldrei, viðkvæðið hjá honum, þegar hann var spurður, var: Það er allt í lagi með mig. Hann var alltaf að hlífa okkur fullorðna fólkinu og oft var hann búinn að segja: Þetta verður allt í lagi, amma mín.

Sorgin er nístandi sár hjá okkur yfir brottför hans, en mikið er hann búinn að gefa okkur á sinni stuttu ævi og björt er minningin sem hann skilur eftir í hjörtum okkar.

Við ykkur, Sigga og Guðmundur, viljum við segja þetta: Það var ekki létt verkefni að taka Þór í fóstur 5 ára gamlan, en það leystuð þið með mikilli prýði og reyndust Þór frábærir foreldrar, og Þór elskaði ykkur og systkini sín og mat fjölskyldu sína mikið.

Þór átti einnig góða fjölskyldu að í Danmörku sem honum þótti mjög vænt um og var hann í góðu sambandi við hana.

Nú bíður okkar allra, sem elskuðu Þór, stórt verkefni enn; það er að læra að lifa með sorginni yfir fráfalli hans, því sátt erum við ekki. En eitt er víst, að mikið erum við búin að læra á þessum tíma og vonandi kunnum við að fara með þann lærdóm, en eins og við segjum stundum, þá eigum við ekkert val í þessu og aldrei finnum við eins fyrir vanmætti okkar og einmitt á svona stundum.

Starfsfólki á deild 22E á Barnaspítala Hringsins þökkum við frábæra umönnun við Þór og hlýju í okkar garð, þið eruð öll frábær, og séra Vigfúsi þökkum við mikinn hlýhug í okkar garð. Guð gefi ykkur öllum styrk í ykkar frábæra starfi.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp var þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt,

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stef.)

Við biðjum Guð um styrk í sorg okkar og vertu Guði falinn, elsku drengurinn okkar.

Amma og afi.

Hann Þór Willemoes Petersen var kallaður af velli að morgni annars páskadags. Hann hafði barist sem ljón inni á vellinum og lagt allt sitt af mörkum. Seinustu árin oft sárþjáður. En aldrei kvartaði hann. Og oftast stutt í brosið. Auðvitað var skapið þarna líka og stundum stuttur kveikurinn. Baráttan var erfið á stundum. Inni á vellinum skiptast á skin og skúrir, sigrar og töp. Það sama átti við í lífi Þórs. En erfiðleikar styrktu hann og efldu. Það var aðdáunarvert að fylgjast með baráttu hans og jákvæðni – og kraftinum, hvort sem var í sókn eða vörn. Uppgjöf var ekki til í hans orðabók. Það skyldi barist til síðustu sekúndu. En svo var leikurinn flautaður af að morgni mánudagsins 24. mars síðastliðinn. Þessum leik var lokið. Þór hafði verið kallaður til annarra verkefna.

Þeir syngja í Liverpool: „You´ll never walk alone“ eða: „Þú ert aldrei einn á ferð“. Og Liverpool var svo sannarlega liðið hans Þórs. Hann var eins og alfræðiorðabók þegar lið Liverpool var annars vegar. Og Þór var heldur „aldrei einn á ferð“, þótt hann hefði misst sína góðu móður í æsku, hana Steinunni Ólafsdóttur, sem lést aðeins 35 ára gömul. Þór var þá rétt orðinn eins árs. Þau voru um margt mjög lík mæðginin. En hann Þór átti góða að. Faðir hans, hálfsystir og afi hafa búið í Danmörku. Móðuramma hans, hún Þóra Antonsdóttir, og maður hennar, Friðþjófur Sigurðsson, voru ávallt til staðar, sem og móðurbróðir hans, Óli Þór. Hjá honum og hans konu, Hjördísi, átti Þór heimili fyrstu æviárin. En kringumstæður og örlögin leiddu til þess að vinur okkar og frændi Þórs, Guðmundur Jónsson og hans góða kona, Sigrid Foss, tóku við forræði og uppeldi Þórs litla þegar hann var aðeins fjögurra ára og urðu hans pabbi og mamma: hans sverð og skjöldur. Þar ólst hann upp í góðu atlæti og naut elsku og hlýju í faðmi fjölskyldunnar, pabba og mömmu og þriggja systkina.

Það hefur ekki alltaf verið dans á rósum hjá okkar góðu vinum á Arnarhrauninu í Hafnarfirði. Sigrid missti foreldra sína, Tore og Ruth, báða með skömmu millibili og Guðmundur móður sína Steinunni. Þau létust öll fyrir nokkrum árum. Og Þór var aðeins 7 ára þegar hann greindist fyrst með krabbamein og við tóku erfiðar meðferðir. En styrkur þeirra allra er undraverður og eftir mótlæti og áföll komu alltaf nýir dagar með möguleika og væntingar – nýjar vonir með bros og bjartsýni.

En nú er þessi kafli fullskrifaður. Þór er allur. Hann er farinn, en samt „aldrei einn á ferð“, því á annarri ströndu taka á móti honum ættingjar og vinir, þar sem mamma Steina er í fararbroddi.

Elsku vinirnir okkar, Gvendur og Sigga, Laufey, Steinunn, Jónsi, Kristín Erla, Þóra og Friðþjófur og þið öll sem áttu stað í hjarta Þórs: Guð mildi ykkar sáru sorg og gefi ykkur von og trú. Minningin um góðan dreng hjálpar.

Við hjónin og börnin okkar, Brynjar Ásgeir, Heimir, Fannar, Margrét Hildur og barnabarnið, Aþena Arna, sjáum á bak góðum vini, sem gaf okkur svo margt. Við höldum fast í allar góðu minningarnar sem ylja. Hann Þór kenndi okkur svo margt, en eitt umfram annað: Að gefast aldrei upp og sýna æðruleysi í mótlæti. Og auðvitað að halda með Liverpool!

Bros þitt fylgir okkur öllum ævina á enda.

Far vel, kæri vinur. „You'll never walk alone.“

Guðmundur Árni og Jóna Dóra.

Þór. Hann Þór hennar Steinunnar. Hann Þór hennar ömmu sinnar, hennar Þóru. Drengurinn með fallegu augun og bjarta brosið. Hann sem færði henni Steinunni svo mikla gleði síðasta árið sem hún lifði. Það var stuttur tími sem þau fengu að vera saman mæðginin. Hún náði að halda upp á eins árs afmælið hans áður en hún dó. Hann var móður sinni mikill gimsteinn og nú er hann kominn til hennar klæddur Liverpool-búningnum sínum.

Hann barðist hetjulegri baráttu alla sína ævi við sjúkdóminn sem sigraði hann að lokum. Nýbúinn að fá bílpróf og bara búinn að prófa nýja bílinn sinn í fjóra daga. Við höfum fylgst með honum Þór litla, allt hans líf. Alltaf vitað af honum og glaðst þegar hann sigraði. Hann sagðist vera frændi hennar Sunnu okkar þegar þau voru saman í félagsmiðstöðinni Vitanum hér í Hafnarfirði. „Sjáið þið ekki hvað við erum lík hvort öðru?“ sagði hann við hina krakkana. Hann var svo duglegur og félagslyndur. Átti sæg af vinum, spilaði í hljómsveitinni, fór í kokkaskólann í MK og vann eins og hetja í kjötborðinu í Nóatúni en alltaf sló sjúkdómurinn hann niður og alltaf reif hann sig upp og við héldum aftur og aftur að núna væri hann loksins laus.

Við héldum alltaf í vonina og það gerðum við svo sannarlega öll alla síðustu viku á meðan við fylgdumst með fréttum af honum. Síðast vissum við að hann vildi sjá leikinn á sunnudaginn með Liverpool en hann náði því ekki.

Við vitum að hún Steinunn mamma hans tekur vel á móti honum og loksins fá þau að vera aftur saman.

Það hefur gert okkur öll ríkari að fá að kynnast honum. Börnin hans Friðþjófs litu á hann sem eitt af barnabörnunum. Gunnvör hitti hann alltaf þegar hún kom frá Þýskalandi í heimsókn og þau voru góðir vinir.

Við sendum fjölskyldu Þórs, fósturforeldrum og systkinum innilegar samúðarkveðjur og við ykkur Þóra og Friðþjófur segjum við, hann kom eins og engill inn í líf ykkar og nú er hann farinn en mun ávallt vaka yfir ykkur.

Gyða, Sigurður, Starri,

Sunna Elín og Árni Valur.

Það bærðust svo margar tilfinningar í brjóstum okkar systkinanna þegar við fengum tíðindin: Þór okkar var farinn. Sorg, en jafnframt reiði helltust yfir okkur. Þetta var þrátt fyrir allt svo óvænt. Því svo oft í þínum veikindum snerir þú á læknavísindin. Og einhvern veginn vorum við viss um að í þetta sinn tækist þér það líka. Þú gafst öllum læknunum langt nef og barðist hatrammri baráttu og hafðir ávallt betur. En nú er komið að leikslokum. Eftir öll þessi ár erfiðra veikinda og allt sem þú lagðir á þig til að sigrast á þeim erum við öll bálreið við þann sem tók þig frá okkur. Það virtust enginn takmörk fyrir því hvað Guð var tilbúinn til að leggja á þig, elsku vinurinn okkar. Samt naustu lífsins í botn. Og fékkst tækifæri til að gera svo margt skemmtilegt. En nú ertu kominn á fjarlægan stað, við vitum að það munu margir taka vel á móti þér. Við erum þess viss að þú er nú í faðmi mömmu þinnar, sem var tekin frá þér allt of snemma og við vitum að bræður okkar munu taka þér opnum örmum. Og svo auðvitað mormor og morfar og amma Steinunn. Og síðast en ekki síst muntu njóta þess að verða heilbrigður á ný, elsku Þór, og njóta alls þess sem þér var ekki ætlað í þessu lífi. Það mun vissulega sefa sorg okkar að einhverju leyti en það breytir því ekki að þú varst kallaður af þessari jörð allt of snemma.

Jólin hafa alla okkar ævi hafist heima hjá þér á Þorláksmessukvöld. Þessi ómissandi hefð í lífi okkar verður aldrei aftur eins. Það verður auður stóll við veisluborðið. Við fáum heldur ekki að njóta þess að horfa saman á Liverpool spila. Við fáum ekki að sitja með þér í nýja flotta bílnum þínum. En við eigum eftir að hittast aftur, bara seinna. Og þá munum við aftur finna hlýja og þétta faðmlagið þitt.

Það er með trega sem við kveðjum okkar yndislega og brosmilda vin sem var tekinn frá okkur í blóma lífsins. En við kveðjum hann jafnframt með þakklæti í huga, það eru forréttindi að hafa fengið að vera þátttakandi í lífi Þórs, sem tókst á við sitt stutta líf af svo ótrúlegri jákvæðni, baráttuþreki og æðruleysi. Hann kenndi okkur að á hverju sem gengur er alltaf rúm fyrir jákvæðni, bros og góða skapið. Það munu allir sem kynntust Þór búa að alla ævi.

Per pabba Þórs, Gobeline systur hans og Tormod afa hans sendum við hlýjar kveðjur.

Elsku Sigga, Guðmundur, Laufey, Steinunn, Jónsi og Kristín Erla, Þóra og Friðþjófur. Hugur okkar allra er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum og við vottum ykkur okkar dýpstu samúð en þökkum ykkur líka fyrir að hafa gefið okkur tækifæri til að kynnast jafn frábærum strák og hann Þór okkar var og eiga hann að vini.

Hildur, Heimir, Fannar

og Aþena.

Það er svo sárt og næstum ómögulegt að trúa því að þú sért farinn.

Þú, sem varst alltaf svo líflegur og hress, þrátt fyrir veikindin. Maður gat alltaf treyst því að hafa gaman í kringum þig. Við höfum átt svo margar ógleymanlegar stundir saman, allt frá því við vorum smápjakkar í Stekkjarhvamminum. Allar hjólaferðirnar, öll prakkarastrikin, fótboltinn niðri á túni, Þorláksmessukvöldin, Liverpool-ferðirnar, Skorradalurinn hjá Bárði og co. og öll msn-samtölin okkar, það síðasta nokkrum dögum áður en þú fórst; þetta eru bara lítil brot af öllum minningunum sem ég mun aldrei gleyma.

Takk fyrir vináttuna í öll þessi ár, takk fyrir ísbíltúrinn um daginn, takk fyrir að hafa verið til.

Um leið og ég er svo sorgmæddur yfir því að þú sért farinn er ég svo glaður yfir því að hafa fengið að vera vinur þinn. Sakna þín.

Þinn vinur,

Brynjar Ásgeir (Binni).

Kæri vinur.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

veki þig með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni

vekja hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Mun glaður vinur alltaf lifa í minningunni.

Samúðarkveðja til fjölskyldunnar.

Þinn vinur,

Gunnar Ágúst.

Það er sárt og óvægið þegar æskumaður er hrifinn á brott. Hann sem á að njóta, veita, stælast og styrkjast í mótlæti sem meðbyr. Kannski er honum ætlað annað hlutverk. Kannski er honum ætlað að kenna okkur hinum, með stuttu æviskeiði sínu, hverju hægt er að áorka, gefa, veita og gleðja.

Þór Willemoes á fastan stað í hjarta mínu. Hann hefur kennt mér meira en ég nokkru sinni honum. Hann hefur kennt mér að hvar sem þú ert staddur í þínu lífi og hver sem skilyrði þín eru þá getur þú sótt til sigurs. Líkt er honum að leggja upp í sitt hinsta ferðalag í dögun upprisunnar.

Ég kynntist Þór þegar ég tók við starfi skólastjóra Lækjarskóla fyrir tæpum fimm árum. Segja má að hann hafi öðru hvoru þurft að hitta skólastjórann sinn ýmissa erinda. Ekki man ég lengur hver þessi erindi voru, hitt man ég að húmor fylgdi hverri hans heimsókn. Þrátt fyrir að fullorðnir hafi stefnt til fundanna þá finnst mér þegar ég lít til baka að það hafi verið Þór sem ætíð réð för og að málalokin hafi alltaf verið í hans hendi. Þegar upp er staðið fór líka vel á því. Þór útskrifaðist úr Lækjarskóla vorið 2006 með láði þrátt fyrir mjög erfið veikindi.

Að eiga vin og vera vinur er fjársjóður sem við þiggjum. Þór var sannarlega vinur og hann átti óvenju marga og góða vini. Það sem einkennir hann og vini hans er ríkjandi gleði, húmor, kjarkur og kærleikur. Þetta á líka við um aðstandendur hans. Ef til vill var það hann sem kallaði fram þessi góðu gildi hjá samferðafólki sínu. Þessir skemmtilegu vinir, nemendur okkar, reyndu stundum á ramma þeirra fullorðnu með prakkaraskap sínum, þar var Þór engin undantekning. En unglingspiltur sem mætir í skólann snoðaður um höfuð vegna veikinda sinna er ekki lengi einn um það. Daginn eftir eru vinirnir mættir með sömu klippingu. Ef flýta þurfti för og hætta var á að Þór drægist aftur úr þá var honum skellt á hjólabretti og hann dreginn um götur bæjarins eins og þurfa þótti. Þetta kalla ég lífsgleði, æðruleysi, kjark og kærleika.

Aðkoma vina Þórs og bekkjarfélaga úr Lækjarskóla er öðrum til eftirbreytni. Sú helga stund sem bekkjasystkini hans og vinir stóðu að sl. fimmtudagskvöld mun án efa verða hverjum sem kom í Hafnarfjarðarkirkju og í Lækjarskóla ógleymanleg perla og göfgandi varða á lífsleiðinni. Skólastjóri Lækjarskóla er í senn hrærður og stoltur.

Við aðstandendur, vandamenn og sérhvern vin Þórs vil ég segja:

Þú misstir hann sem hjartanu er kær

og hlýtur sárt að finna til og stríða.

Það sem vakti gleði þína í gær

grætir þig í dag og fyllir kvíða.

Mundu samt að sorgartárin tær

trega víkja burt er stundir líða.

(H.H.)

Starfsfólk Lækjarskóla syrgir skjólstæðing sinn, mikinn sigurvegara og efnilegan æskumann og sendir foreldrum, ættingjum og vinum Þórs sínar dýpstu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Þórs Willemoes Petersen.

Haraldur Haraldsson,

skólastjóri Lækjarskóla.

Kæra fjölskylda.

Við erum þess ekki umkomin að skilja en við höfum fengið þau forréttindi að njóta nærveru ykkar og kærleiks í miklu návígi undanfarin ár.

Samstiga fóruð þið í gegnum einn dag í einu. Stundum sást til lands en oftast var allt í þoku. Það var fátt um svör. Því var kannski ekki mikill tilgangur í því að spyrja. Alltaf að reyna að njóta. Lýsandi fyrirmynd fyrir aðra. Það er búinn að vera mikill lærdómur fyrir okkur að horfa á fjölskylduna halda jafnvægi, reisn og lífsgleðinni gangandi við þessar óbærilega erfiðu aðstæður. Fyrir það viljum við þakka.

Drengirnir okkar í vinahópnum áttu sameiginlegan brennandi áhuga á fótbolta. Þegar við lítum til baka núna sjáum við að menningin í kringum þessa merkilegu tuðru sameinaði okkur öll ennþá sterkari böndum.

Þór Willemos Peterssen var mikill Liverpool-aðdáandi og fylgdist mjög náið með gangi liðsins og missti sjaldnast af leik sinna manna. Að mörgu leyti má líkja lífshlaupi Þórs við úrslitaleik Liverpool og AC Milan 2005. Eins og mörgum er kunnugt virtist taflið tapað í hálfleik, þegar Milan-menn höfðu skorða 3 mörk. En Liverpool gafst ekki upp. Tókst að jafna leikinn og knýja fram sigur í vítaspyrnukeppni. Þannig baráttumaður var Þór, hann gafst aldrei upp þó útlitið væri ekki alltaf bjart, heldur hélt ótrauður áfram sannfærður um að sigur næðist að lokum. Þó að lokaorrustan hafi tapast stendur hann uppi sem ótvíræður sigurvegari eftir 10 ára baráttu við erfiðan sjúkdóm. Sjúkdóm sem hann horfðist við augu við af þvílíkri festu að margir sem eldri eru gætu af honum lært.

Liverpool-ferðirnar verða okkur ógleymanlegar. Þar fengum við að kynnast Þór á allt annan hátt en heima. Hann lét ekkert stoppa sig, hvorki erfiða stiga né langar göngur. Ekkert væl, ekkert vol, enga væmni takk fyrir. Hann lét okkur öll vita með fasi sínu og framgöngu að hann vildi enga sérmeðferð. Það fór þó ekki framhjá neinum hversu veikur hann var orðinn, en hann sá til þess með dugnaði sínum og skemmtilegheitum að við eignuðumst margar ómetanlegar minningar.

Húmorinn og ósérhlífnin voru hans sterkustu vopn. Lífsviljinn svo mikill. Það eru svo margir sem mættu taka hann sér til fyrirmyndar. Hann gat haldið svo mikilli reisn og gefið svo mikið af sér þrátt fyrir þungan farangur öll þessi ár. Gefumst aldrei upp, þannig heiðrum við minningu hans.

Við viljum sérstaklega minnast síðustu heimsóknar hans til okkar. Hann kom oft í Háabergið að horfa á leiki með okkur og í þetta skiptið varð engin breyting á. Við glöddumst öll yfir 4-0 sigri Liverpool á West Ham. Hann var nýbúinn að taka bílpróf og þó að hann væri fárveikur kom hann akandi sjálfur á nýja bílnum sínum. Hann ljómaði allur og tókst eins og alltaf að draga athyglina frá sjálfum sér. Um nóttina fór hann á spítalann og átti aldrei afturkvæmt.

Vinir Þórs í samvinnu við Liverpool-klúbbinn á Íslandi munu stofna sjóð, sem aðstoða mun börn við að fara í fótboltaferðir á Anfield.

Blessuð sé minning hans,

Þið verðið aldrei ein á ferð. (Y.N.W.A.)

Jenný Axelsdóttir, Bárður Sigurgeirsson, Sigurgeir Bárðarson, Þóra Kristín Bárðardóttir, Guðmundur Örn Bárðarson, Anna Kanthi Axelsdóttir.

Skömmu fyrir upphaf vorannar fékk ég símtal með fyrirspurn um hvort unnt væri að bæta við einum nemanda í skólann. Í þessu samtali, sem var við móður Þórs, komu strax fram upplýsingar um hin erfiðu veikindi hans og jafnframt að það væri einbeittur vilji hans til að koma í skólann. Hann vildi hafa næg verkefni fyrir stafni. Það tók ekki langan tíma að sannfæra mig um að þarna færi ungur maður sem nálgaðist verkefnin með réttu hugafari þannig að skólavistin var auðsótt mál. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður stundaði Þór náms sitt vel og það viðhorf sem hann sýndi til allra verka var til fyrirmyndar og eftirbreytni. Það voru því þungbærar fréttir sem bárust þegar páskafríinu var að ljúka að krabbameinið hefði lagt þennan góða dreng að velli.

Við erum þakklát fyrir þann stutta tíma sem hann var hjá okkur og erum stolt af því að hann valdi Flensborgarskólann. Ég vil fyrir hönd okkar allra í skólanum senda foreldrum, systkinum og ástvinum öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Einar Birgir Steinþórsson

skólameistari.

Í dag kveðjum við góðan starfsmann og vin sem fallinn er frá langt fyrir aldur fram. Fyrir tæpu ári gekk Þór til liðs við vaska sveit starfsfólks í kjötborði Nóatúns í Hafnarfirði. Ég minnist þess hve hæglátur, rólegur og kurteis þessi drengur var og einkar áhugasamur um starfið frá fyrsta degi. Hann var vinnusamur, léttur í lund og hafði einstakan metnað til að þjóna viðskiptavinum Nóatúns í hvívetna.

Á ævi okkar kynnumst við einstaklingum sem hafa meiri áhrif á okkur en aðrir á lífsleiðinni. Ég kynntist sögu Þórs þegar hann hóf störf hjá Nóatúni og þeirri hatrömmu baráttu sem hann hafði háð allt frá fimm ára aldri. Þessari sögu sinni hélt hann ávallt alfarið út af fyrir sig og lagði hart að sér í vinnu, jafnvel þótt oft á tíðum sárþjáður væri. Viðhorf hans til lífsins var einstakt og það var ekki annað hægt en það snerti mann. Hugur hans var ávallt á bak við kjötborðið dag og nótt og allt þar til hann kvaddi þennan heim.

Fyrir hönd Nóatúns vil ég votta fjölskyldu Þórs dýpstu samúð. Minningin um góðan dreng lifir.

Bjarni Friðrik Jóhannesson.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Við þökkum Þór samfylgdina í íslenskutímunum í vetur og sendum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hólmfríður Þórisdóttir, íslenskukennari, Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og nemendur í íslensku 202.