Arctus ehf. hafði valið stórfyrirtækin Mitsubishi og Trimet til samstarfs við sig við uppbyggingu áltæknigarðs við Þorlákshöfn.
Arctus ehf. hafði valið stórfyrirtækin Mitsubishi og Trimet til samstarfs við sig við uppbyggingu áltæknigarðs við Þorlákshöfn. Í bréfi félagsins, sem 24 stundir hafa undir höndum, kemur fram að fulltrúar fyrirtækjanna hafi komið hingað til lands til að skoða aðstæður um leið og einkaréttaryfirlýsing hafi legið fyrir, enda hafi hún verið forsenda þess að skapa traust meðal fjárfesta og til að hægt væri að hefja viðræður um orkuöflun vegna framkvæmdarinnar.

Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir að komið hafi í ljós að aðaláherslan hjá Arctus og samstarfsaðilum þeirra hafi ekki verið á áltæknigarð, heldur álver. „Það var ekki áhugi hjá Mitsubishi og Trimet fyrir áltæknigarði, heldur var það álver sem þeir höfðu áhuga á. Eins og Jón Hjaltalín [hjá Arctus] hafði kynnt þetta fyrir okkur átti þetta að vera áltæknigarður með 60 þúsund tonna álveri. Nokkru síðar kynnir hann í fjölmiðlum 270 þúsund tonna álver.“

Brutu einkaréttaryfirlýsingu

Arctus heldur því fram í umræddu bréfi að staðhæfingin um umboðsleysi Ólafs Áka hafi komið í kjölfar þess að Alcan var neitað að stækka álver sitt í Hafnarfirði. Þeir segja Ólaf Áka ítrekað hafa neitað því að viðræður hefðu átt sér stað við Alcan um byggingu 400 þúsund tonna álvers í Þorlákshöfn. Síðar kom í ljós að bréf hefði verið skrifað í nafni bæjarstjórnar Ölfuss til Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur þar sem stuðningi er lýst við byggingu álvers Alcan í Þorlákshöfn. Tilurð þess er staðfest í bókun bæjarráðs þann 13. september síðastliðinn þar sem Ásgeir Yngvi Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, lýsir furðu sinni á því að í slíku bréfi til Landsvirkjunar hafi verið lýst yfir að bæjarstjórnin standi heilshugar á bak við álverksmiðju Alcan í Þorlákshöfn. Í niðurlagi bókunarinnar segir orðrétt að það sé „lágmarkskurteisi við kjörna fulltrúa að aðrir ákveði ekki skoðanir þeirra, hverjar sem þær eru“. Ólafur Áki hafnar því að viðkomandi bæjarfulltrúi hafi ekki vitað um innihald bréfsins og segir bókunina út úr kortinu. „Umrætt mál var kynnt fyrir bæjarfulltrúum. Það getur hver og einn þeirra staðfest það. Það var gengið á alla bæjarfulltrúa og spurt hvort svona bréf mætti fara.“ Bréfin voru hvorki tekin fyrir á fundum bæjarráðs né -stjórnar.

thordur@24stundir.is