Þórður Þórðarson fæddist á Akranesi 5. október 1933. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akranesi 19. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Þórður Sigurðsson, skipstjóri á Akranesi, f. 30. janúar 1901, d. 30. apríl 1965, og Anna Ingvarsdóttir, f. 1. mars 1910, d. 28. des. 1971. Þórði Sigurðssyni og Önnu Ingvarsdóttur fæddust eftirtalin börn: 1) Jónína, f. 4. október 1932, d. 11. janúar 1933, 2) Þórður, f. 5. október 1933, d. 19. mars 2008, 3) Jónína, f. 12. janúar 1935, d. 11, október 2006, 4) Rafn, f. 2. apríl 1936, d. 19. júní 1936, 5) Rafn, f. 3. ágúst 1938, d. 21. ágúst 2006, 6) Guðrún, f. 7. apríl 1943, d. 21. október 1977, og 7) Ingvar, f. 20. október 1946.

Hinn 9. maí 1959 kvæntist Þórður Höllu Þorsteinsdóttur, f. 7. maí 1936. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Ólafsson, f. 24. júní 1896, d. 13. apríl 1967, og Gíslný Jóhannsdóttir, f. 3. júlí 1911, d. 14. jan. 1993. Dætur Þórðar og Höllu eru: 1) Anna, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, f. 21. sept. 1960, gift Kristjáni Sveinssyni sagnfræðingi, f. 21. apríl 1960. Börn þeirra eru María, háskólanemi, f. 22. febr. 1984, og Eyvindur, háskólanemi, f. 28. maí 1986. 2) Gíslný Bára þroskaþjálfi, f. 25. nóv. 1961, gift Halldóri Júlíussyni trésmið, f. 9. febr. 1957. Sonur Gíslnýjar Báru og Einars Ólafssonar tölvunarfræðings, f. 23. nóv. 1960, er Bergur, jarðeðlisfræðingur, f. 15. júní 1981, kvæntur Gyðu Þórhallsdóttur ferðamálafræðingi, f. 23. mars 1981. Börn Halldórs eru: Haukur, f. 31. jan. 1985, Halldóra, f. 25. maí 1986, og Sigurbjörg Erna, menntaskólanemi, f. 10. okt. 1989. Hún ólst upp á heimili Halldórs og Gíslnýjar Báru frá unga aldri. 3) Þóra, stærðfræðikennari, f. 24. júlí 1964, gift Helga Helgasyni rafiðnfræðingi, f. 19. ágúst 1962. Börn þeirra: a) Áróra, háskólanemi, f. 20. nóv. 1987, og Birkir, grunnskólanemi, f. 8. júlí 1993. Sonur Þóru og Þrastar Reynissonar, matreiðslumanns, f. 6. okt. 1960, er Þórður, f. 4. maí 1981, matreiðslumaður. Sambýliskona Þórðar er Áróra Rós Ingadóttir framreiðslumaður, f. 27. maí 1982. Börn þeirra eru Tristan, f. 16. des. 2003, og Thelma Rós, f. 26. sept. 2006.

4) Rósa, snyrtifræðingur, f. 24. nóv. 1966, gift Sigurði Haukssyni, rafvirkja, f. 4. des. 1961. Börn þeirra: a) Rósa, snyrtifræðinemi, f. 11. apríl 1988, b) Hallur, grunnskólanemi, f. 14. nóv. 1993. Sonur Sigurðar er Haukur, f. 27. nóv. 1980, búsettur í Noregi.

Þórður ólst upp í foreldrahúsum á Akranesi. Hann hóf ungur að stunda sjó og var togarasjómaður fram til ársins 1972. Eftir það vann hann um skeið ýmis verkamanna- og iðnaðarstörf á Akranesi, þar á meðal í Sementsverksmiðjunni, Hvalstöðinni í Hvalfirði og Trésmiðjunni Akri en lengstum sem netagerðarmaður í Nótastöðinni á Akranesi. Árið 1978 lét hann byggja sér smábát sem hann gerði síðan út í 17 ár og var þá smábátasjómennskan hans aðalstarf.

Þórður verður jarðsunginn frá Akraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Þig lofar, faðir, líf og önd,

þín líkn oss alla styður.

Þú réttir þína helgu hönd

af himni til vor niður.

Og föðurelska, þóknan þín,

Í þínum syni til vor skín,

Þitt frelsi, náð og friður.

(Sigurbjörn Einarsson.)

Takk afi fyrir góðu stundirnar sem ég átti með þér á Akranesi. Í skúrnum að vinna saman, heimsóknirnar niður á bryggju og í sumarbústaðnum í Skorradal. Ég var alltaf velkominn til þín og ömmu. Ég á margar góðar minningar um það þegar við vorum saman. Ég á alltaf eftir að sakna þín.

Hallur Sigurðarson.