SVO gæti farið að Skagamaðurinn Stefán Þórðarson spili ekkert með sænska liðinu Norrköping eins og til stóð. Hann var lánaður frá ÍA til Norrköping fyrr í mánuðinum og til stóð að hann yrði hjá sænska liðinu þar til deildin hér heima byrjar.
SVO gæti farið að Skagamaðurinn Stefán Þórðarson spili ekkert með sænska liðinu Norrköping eins og til stóð. Hann var lánaður frá ÍA til Norrköping fyrr í mánuðinum og til stóð að hann yrði hjá sænska liðinu þar til deildin hér heima byrjar. Stefán lék um árabil með Norrköping og var gríðarlega vinsæll leikmaður þar. Hann gekk síðan til liðs við ÍA í haust eftir að sænsku deildinni lauk.

Stafán var ekki í leikmannahópi félagsins í fyrstu umferðinni þegar liðið tók á móti Djurgården og tapaði 2:1. Ástæðan er túlkun Knattspyrnusambands Íslands á reglugerðum FIFA að því er þjálfari Norrköping segir.

„Við gerðum allt rétt í þessu máli, töluðum við sænska sambandið áður en við ræddum við Stefán og ÍA um að við fengjum hann lánaðan. Við ræddum líka við íslenska sambandið og þar á bæ túlka menn eina grein með öðrum hætti en sænska sambandið gerir,“ segir Mats Jingblad þjálfari í viðtali við Folkbladet í gær.

Greinin sem um ræðir segir að frá 1. júlí til 30. júní megi leikmaður ekki leika með fleiri en tveimur félögum. Svíar segja að það snerti þetta mál ekki þar sem um lánssamning sé að ræða en KSÍ telur að ef samningurinn gangi í gegn geti Stefán ekki leikið með ÍA þegar Íslandsmótið hefst þar sem hann hafi þá þegar skipt þrisvar sinnum um félag á tímabilinu.

Máli sínu til stuðnings benda Svíar á að Henrik Larsson hafi verið lánaður frá Helsingborg til Manchester United í nokkurn tíma fyrir síðasta tímabil í Svíþjóð og það hafi gengið ljúflega. Stefán segir við blaðið að hann sé svekktur yfir þessu en vonist til að málið leysist. „Annars flýg ég bara heim á þriðjudaginn og sest upp í vörubílinn og fer að keyra eins og ég gerði áður en ég kom hingað,“ sagði Stefán.