Einvígi þarf Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir teflir við Birgi Karl Sigurðsson á unglingameistaramóti Reykjavíkur. Hallgerður og Dagur Andri Friðgeirsson hlutu bæði 5½ vinning.
Einvígi þarf Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir teflir við Birgi Karl Sigurðsson á unglingameistaramóti Reykjavíkur. Hallgerður og Dagur Andri Friðgeirsson hlutu bæði 5½ vinning. — Morgunblaðið/Óttar Felix
29. mars - 6. apríl 2008
Henrik Danielssen er efstur þeirra fjögurra íslensku skákmanna sem taka þátt í Scandinavian open sem fram fer þessa dagana í Kaupmannahöfn. Eftir þrjár umferðir hefur Henrik hlotið tvo vinninga og er í 3.-6. sæti. Efstir eru dönsku stórmeistararnir Lars Schandorff og FIDE-meistarinn Nikolaj Mikkelsen með 2½ v. Bræðurnir Bragi Þorfinnsson, sem hefur 1½ vinning, og Björn Þorfinnsson, sem hefur einn vinning, komu mikið við sögu á síðasta Reykjavíkurskákmóti og verður gaman að fylgjast með frammistöðu þeirra. Svo skemmtilega vill til að þeir eiga enn eftir að útkljá atskákmót Íslands hjá RÚV en keppni verður sett á dagskrá fljótlega.

Sverrir Þorgeirsson er langstigalægsti keppandinn en sækir sér hér mikilvæga reynslu í svo sterku móti. Af 14 keppendum eru fjórir stórmeistarar, þrír alþjóðlegir meistarar og fimm FIDE-meistarar. Sverrir gerði jafntefli í fyrstu skák sinni en tapaði í annarri og þriðju umferð. Fyrirkomulag þessa móts er dálítið sérstakt því að 14 skákmenn tefla 11 umferðir eftir svissneska kerfinu.

Arnar leiðir Grand Prix-mótaröðina

Það var að venju hart barist á Grand Prix-móti Fjölnis og TR í Skákhöllinni í Faxafeni á fimmtudagskvöldið. Arnar E. Gunnarsson vann alla andstæðinga sína, sjö talsins, á Grand Prix-móti TR og Fjölnis sem fram fór í Skákhöllinni í Faxafeni sl. fimmtudagskvöld. Arnar Þorsteinsson varð í 2. sæti með 6 vinninga og Daði Ómarsson í þriðja sæti með 5 vinninga. Síðan komu Kristján Örn Elíasson í 4. sæti og Vigfús Vigfússon í því 5. Grand Prix-mótaröðin heldur áfram næstkomandi fimmtudagskvöld og er allt skákáhugafólk velkomið.

Hallgerður og Dagur Andri efst á unglingameistaramóti Reykjavíkur

Hallgerður Helga Þorsteinsdóttur og Dagur Andri Friðgeirsson urðu jöfn í efsta sæti á unglingameistaramóti Reykjavíkur sem fram fór sl. laugardag. Þau hlutu bæði 5½ vinning úr sjö skákum. Í 3.-5. sæti voru Hörður Aron Hauksson, Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir og Birkir Karl Sigurðsson, öll með 4½ vinning. Hörður hreppti 3. sætið á stigum og Geirþrúður Anna lenti í 4. sæti. Hallgerður Helga og Dagur Andri munu tefla einvígi um titilinn unglingameistari Reykjavíkur og hefst keppni þeirra nk. fimmtudag.

Reykjavíkurmót grunnskólasveita

Reykjavíkurmót grunnskólasveita í skák fer fram í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur í Skákhöllinni í Faxafeni 12 miðvikudaginn 2. apríl. Þátttökurétt hafa allir grunnskólar í Reykjavík og getur hver skóli sent eins margar sveitir og kostur er. Hver sveit skal skipuð fjórum liðsmönnum og skal þeim raðað í sveitir eftir styrkleika. Skólastjórar eru hvattir til að mynda sem flest lið og senda til skemmtilegrar keppni. Mótið hefst kl. 17 á miðvikudaginn og fer skráning sveita fram á staðnum frá kl. 16.30.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)