Henri Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, kynnti í gær áætlanir um umbætur á regluverki bandaríska fjármálageirans og er sagt að þetta séu mestu breytingar frá því gripið var til aðgerða á fjórða áratugnum eftir kreppuna miklu.
Henri Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, kynnti í gær áætlanir um umbætur á regluverki bandaríska fjármálageirans og er sagt að þetta séu mestu breytingar frá því gripið var til aðgerða á fjórða áratugnum eftir kreppuna miklu. Paulson hafnaði því reyndar þegar hann kynnti áætlanirnar að ástandið á fjármálamörkuðum mætti rekja til ófullnægjandi reglna. Bætti hann við að ekki ætti að hefjast handa við að hrinda þeim í framkvæmd fyrr en búið væri að leysa yfirstandandi vanda. Hins vegar hafa margir haldið því fram að vandræðin, sem urðu vegna svokallaðra undirmálslána eða ótryggra húsnæðislána, kölluðu á breytingar.

Samkvæmt áætluninni mun bandaríski seðlabankinn fá mun meira vald til eftirlits með fjármálafyrirtækjum af ýmsum toga, allt frá tryggingafyrirtækjum til banka og fjárfestingarfyrirtækja og verður hlutverk hans að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Seðlabankinn fengi vald til að skoða bókhaldið hjá öllum fjármálastofnunum, sem taldar væru ógna stöðugleika fjármálakerfisins.

Einnig er ráðgert að setja upp sérstakt eftirlit með bönkum, eftirlit með viðskiptasiðferði til verndar neytendum og auka eftirlit með húsnæðislánamarkaði, meðal annars með það fyrir augum að herða reglur um fyrirtæki á þeim markaði.

Þótt ýmsir segi að eftirlitskerfi, sem lítið hafi breyst frá fjórða áratugnum, henti ekki við aðstæður nútímans þar sem með einni tölvuskipun er hægt að senda milljarða um heiminn þveran og endilangan. Fyrstu viðbrögð við áætlunum Paulsons benda hins vegar til þess að þær muni ekki ná langt á þingi. Of stutt sé eftir af stjórnartíð George Bush Bandaríkjaforseta til þess að þingið fari að leggjast í grundvallarbreytingar á eftirliti með fjármálafyrirtækjum.

Hvað sem því líður er vert að fylgjast með þeirri umræðu, sem nú á sér stað um þessi mál í Bandaríkjunum og athyglisvert að þungamiðja tillagna um umbætur snýst um að auðvelda eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Þótt hafist hafi verið handa við smíði tillagnanna áður en samdrátturinn vegna undirmálslánanna hófst og forsendan að því hafi verið kröfur um að slakað yrði á reglum til að auðvelda starfsemi bandarískra fyrirtækja í hnattvæddum heimi er ljóst að umræðan um þessar tillögur mun mótast af ástandinu eins og það er nú. Það er spurning hvort eitthvað af þeirri umræðu megi yfirfæra á Ísland og má þar bæði nefna valdið til eftirlits með fjármálafyrirtækjum og aukið eftirlit með siðferði í viðskiptum með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi.