— 24stundir/Ómar
Síðustu daga höfum við ekki heyrt annað í fréttum en hversu mikið krónan hefur fallið og lánin hafa hækkað. Fyrir suma þýðir þetta tímabundin óþægindi en fyrir aðra skelfileg fjárhagsvandræði og jafnvel gjaldþrot.
Eftir Írisi Ölmu Vilbergsdóttur

iris@24stundir.is

Vefsíðan www.bilasolur.is er hentug fyrir þá sem eru að leita sér að bíl. Þar er hægt að sjá bíla frá flestum bílasölum landsins og allar upplýsingar um bílinn. Meðal þeirra upplýsinga sem birtast á vefsíðunni er lánshlutfall bifreiðarinnar.

Bíll á 175% láni

Fljótt á litið eru nær engir bílar með lægra en 100% lán. Það kemur ef til vill fáum á óvart miðað við umræður og ákafa auglýsingamennsku lánastofnana á síðustu árum. Það sem kemur þó á óvart er hversu margir eru að reyna að losna við bíla sem eru með frá 110-175% áhvílandi. Það er varla hægt annað en að velta því fyrir sér hvernig bílaeigendur komu sér í þennan vanda.

Lán í erlendri mynt vandinn

Hilmar Hólmgeirsson bílasali starfar hjá Bílaborg og hann segir ástæðuna mjög einfalda. „Á undanförnum árum hefur verið boðið upp á lán í erlendum myntum. Lánin virtust mjög hagstæð á þessum tíma og því sá fólk ekkert því til fyrirstöðu að kaupa sér bíla á lánum,“ segir Hilmar.

Almenningur bjóst augljóslega ekki við því að krónan myndi falla jafn hratt og raunin var. Það breytir því þó ekki að þegar þessir bílaeigendur tóku lánin gerðu fæstir ráð fyrir sveiflum sem þó eiga sér alltaf stað. Krónan hefði getað styrkst og þá væru lánin orðin mun lægri. Sveiflan var þó því miður í hina áttina og var auk þess mjög óvenjuleg. „Lántakar tóku sumir hverjir lán upp á nákvæmlega þá upphæð sem þeir gátu séð af á mánuði og voru þar með strax búnir að binda sig í báða skó. Jafnvel minnsta hækkun á mánaðarlegum greiðslum var þá orðin óviðráðanleg.

Lánastofnanirnar kepptust um hylli almennings með því að bjóða upp á 100% lán. Nú er staðan breytt vegna lækkunar krónunnar og því mun erfiðara að fá lán í erlendri mynt. Fólk tók hæsta lánið og í sem lengstan tíma og hugði ekki að mögulegum breytingum á markaðnum. Þetta voru einfaldlega hagstæðustu lánin á þessum tíma,“ segir Hilmar að lokum.

Krónan mun styrkjast aftur

Nú er staðan þannig að þeir sem tóku 100% lán sitja uppi með bíl sem er mörg hundruð þúsund krónum verðminni en lánið. Þetta þarf þó ekki að vera viðvarandi ástand enda er það ekki að ástæðulausu sem talað er um sveiflur. Verðgildi krónunnar sveiflast upp og niður og því er um að gera að bíða og sjá.

Í hnotskurn
Geta verið mjög hentug fyrir þá sem þurfa aukafjármagn við bílakaup. Ættu aldrei að vera nema hluti af heildarverði bílsins þar sem bílar hækka aldrei í verði. Kostnaður og vextir á láninu gera því að verkum að töluverðar líkur eru á stóru tapi.