Skellt í lás KR-ingarnir Josuha Helm og Fannar Ólafsson verjast vel þegar ÍR-ingurinn Sveinbjörn Claessen reynir að komast í gegn.
Skellt í lás KR-ingarnir Josuha Helm og Fannar Ólafsson verjast vel þegar ÍR-ingurinn Sveinbjörn Claessen reynir að komast í gegn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„VIÐ þurfum einhvern veginn alltaf að fikta með eldinn og byrja flatt en ef við hefðum tekið svona á í fyrsta leiknum hefðum við unnið hann,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR-inga eftir erfiðan 86:80-sigur á ÍR í Breiðholtinu í...

„VIÐ þurfum einhvern veginn alltaf að fikta með eldinn og byrja flatt en ef við hefðum tekið svona á í fyrsta leiknum hefðum við unnið hann,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR-inga eftir erfiðan 86:80-sigur á ÍR í Breiðholtinu í gærkvöldi. ÍR-ingar unnu fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins svo að það dugði Íslandsmeisturum KR ekkert annað en sigur til að vera ekki úr leik. Það gekk upp hjá þeim þó svo ÍR hafi verið yfir lengst af, en KR náði að tryggja sér framlengingu og hafði betur í henni.

Eftir Stefán Stefánsson

KR-ingar lentu í sömu aðstöðu í fyrra þegar þeir mættu ÍR í 8-liða úrslitunum. Þá vann ÍR fyrsta leikinn á heimavelli KR en þegar öll sund virtust lokuð náðu KR-ingar sigri í Seljaskóla og síðan á sínum heimavelli og komust þar með í undanúrslit.

Þar mætti liðið Snæfelli og allt virtist eðlilegt því KR vann heimaleikinn sinn í fyrstu umferðinni, Snæfell vann næsta leik í Hólminum og gerði sér síðan lítið fyrir og lagði KR í þriðja leik á heimavelli KR, 63:61. Staðan því 2:1 fyrir Snæfell og næsti leikur í Hólminum.

Bakið upp við vegg

Með bakið upp við vegg eins og í rimmunni við ÍR komu KR-ingar grimmir í Hólminn og unnu 104:80 og síðan 76:74 í oddaleiknum. Þar með komust þeir í úrslitarimmuna við Njarðvík. Njarðvík vann fyrsta leikinn en síðan vann KR næstu þrjá leiki og varð Íslandsmeistari.

Benedikt þjálfari sagði sína menn ekki hafa komist í gang fyrr en leið á leikinn. „Ég var alltaf að bíða eftir því að við settum þessi stóru skot niður, okkur vantaði að skora utan af velli því við vorum að skora inni í teig og það þurfti að vera meira jafnvægi í þessu. Við þurftum ekki nema tvo eða þrjá þrista, þá hefðum við verið komnir með þetta en þetta var karaktersigur og ég held að við höfum verið andlega sterkari í lokin.“

Nú settu menn hnefana á loft

Þjálfarinn sagði liðið ekki hafa náð sér á strik í fyrri leiknum en nú leikið meira með hjartanu. „Við vorum kannski frekar yfirspenntir í fyrsta leik og það var meiri leikgleði í þessum leik, menn settu hnefann upp þegar við skorum. Við lögðum upp með sömu áherslur og í hinum leiknum nema núna ætluðum við að spila meira með hjartanu. Það gekk vel að ná stemmingu í mína menn fyrir þennan leik enda er ekki einu sinni kominn hálfleikur í þessari seríu. Við erum langt frá því komnir áfram, þetta er enn hörkueinvígi. Næsti leikur verður nákvæmlega svona, þessi úrslitakeppni á eftir að verða svakaleg og þetta er bara byrjunin á því,“ sagði Benedikt. | 3