SÉRA Gunnar Gíslason, prófastur og prestur í Glaumbæ, lést á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks mánudaginn 31. mars á 94. aldursári. Hann fæddist á Seyðisfirði 5. apríl 1914.

SÉRA Gunnar Gíslason, prófastur og prestur í Glaumbæ, lést á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks mánudaginn 31. mars á 94. aldursári. Hann fæddist á Seyðisfirði 5. apríl 1914. Foreldrar hans voru Gísli Jónsson, kaupfélagsstjóri og verslunarmaður og Margrét Arnórsdóttir húsfreyja.

Sr. Gunnar lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1943 og vígðist sama ár sóknarprestur að Glaumbæ í Skagafirði. Hann var skipaður prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi árið 1977. Sr. Gunnar stundaði búrekstur í Glaumbæ samhliða prestsskap. Honum var veitt lausn frá embætti prófasts og sóknarprests Glaumbæjarprestakalls 1982, en þjónaði áfram Barðssókn í Fljótum til 1984.

Snemma varð sr.Gunnar áhugamaður um stjórnmál. Hann var í stúdentaráði Háskóla Íslands 1939-40 og formaður Vöku 1940-41. Hann var varaþingmaður Skagfirðinga fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1954-56, sat á Alþingi um skeið árin 1955 og 1957 og var þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra 1959-1974.

Hann sat á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1965 og í bankaráði Búnaðarbanka Íslands frá 1969-85.

Sr. Gunnar gegndi fjölda trúnaðarstarfa í Skagafirði. M.a. sat hann í hreppsnefnd Seyluhrepps frá 1946-86, var sýslunefndarmaður 1984-1988, í stjórn Varmahlíðar frá 1947-73 og í stjórn Skógræktarfélags

Skagfirðinga 1947-81.

Sr. Gunnar var í stjórn Byggðasafns Skagfirðinga í Glaumbæ frá 1948-86 og formaður Karlakórsins Heimis í tíu ár á árunum 1954-65.

Eiginkona sr. Gunnars var Ragnheiður Margrét Ólafsdóttir, safnvörður við Byggðasafnið í Glaumbæ. Þau fluttu frá Glaumbæ árið 1983 og bjuggu síðustu árin í Varmahlíð. Ragnheiður lést árið 1999. Þau eignuðust sex börn. Elsti sonurinn, Stefán Ragnar, lést árið 1996, en hin eru Gunnar, Ólafur, Arnór, Margrét og Gísli.