Sif Sigfúsdóttir
Sif Sigfúsdóttir
Sif Sigfúsdóttir kynnir BS-nám í viðskiptafræði: "Námið er sérstaklega sniðið að þörfum þeirra sem vilja leggja stund á háskólanám með vinnu og hefst haustið 2008"
ÞAÐ VAR í september árið 1938 að auglýsing birtist í dagblöðum landsmanna um að settur yrði á stofn Viðskiptaháskóli Íslands. Skólinn átti að gegna því hlutverki að mennta nemendur á sviði viðskiptafræði og atvinnurekstrar. Tíu nemendur voru teknir inn þá um haustið og fór kennsla fram í bókasafninu Íþöku við Menntaskólann í Reykjavík. Síðan eru liðin sjötíu ár og hefur viðskiptafræðideild Háskóla Íslands nú um þúsund nemendur við nám í deildinni.

Viðskiptafræðideild HÍ leggur metnað sinn í að veita nemendum sínum hagnýta þekkingu, þjálfa þá í að beita faglegum vinnubrögðum og búa þá undir fjölbreytt störf. Deildin hefur á stefnuskrá sinni að bjóða fjölbreyttar og sveigjanlegar námsleiðir til að mæta þörfum nútímans fyrir fjölþætta og haldgóða menntun. Í því augnamiði býður viðskiptafræðideild HÍ nú upp á BS- og diplómanám samhliða starfi. Námið er sérstaklega sniðið að þörfum þeirra sem vilja leggja stund á háskólanám með vinnu og hefst haustið 2008. Nemendur fá rækilega þjálfun í öllum helstu greinum viðskiptafræði, svo sem fjármálum, markaðsfræði, reikningshaldi og stjórnun, og geta nemendur valið sér sérsvið á sviði fjármála- og reikningshaldslínu eða markaðsfræði- og stjórnunarlínu. Námsefni og námskröfur eru þær sömu og í BS-námi í dagskóla en kennslufyrirkomulag er talsvert annað. Við deildina starfa helstu sérfræðingar landsins á öllum sviðum viðskiptafræði. Að auki koma erlendir háskólakennarar að kennslu á ári hverju.

Fyrir hverja?

BS-nám með vinnu er sérstaklega sniðið að þörfum þeirra sem vilja leggja stund á háskólanám samhliða starfi. BS-nám í kvöldskóla tekur alla jafna fimm ár en hægt er að ljúka diplómagráðu eftir tvö og hálft ár. Námið er hægt að stunda frá og með haustinu 2008 og er hvert námskeið kennt á fimm vikum. Að því loknu er haldið próf, áður en kennsla í næsta námskeiði hefst. Nemendur munu sækja fyrirlestra tvisvar í viku í um fjórar klukkustundir í senn. Ýmist er kennt tvo eftirmiðdaga í viku frá kl. 16.15 til 20.00 eða eitt kvöld og laugardagsmorgun. Nemendur greiða hefðbundin skráningargjöld í Háskóla Íslands og gjald fyrir hvert námskeið. Fyrir þá sem hafa nýlega lokið rekstrar- og viðskiptanámi frá EHÍ með góðum námsárangri er í boði að ljúka BS-námi samhliða starfi á fjórum árum með sama hætti.

Frábær aðstaða fyrir nemendur

Háskólatorgið hefur gerbreytt starfsaðstöðu viðskiptafræðideildar og aðbúnaði nemenda deildarinnar. Á Háskólatorgi og í Gimli er frábær vinnuaðstaða fyrir nemendur í nánu samneyti við kennara. Í byggingunni eru m.a. fyrirlestrasalir, kennslustofur, tölvuver með yfir 130 tölvum og lesrými. Á Háskólatorgi er einnig þjónusta við nemendur svo sem Bóksala stúdenta, námsráðgjöf, nemendaskrá og alþjóðaskrifstofa. Þar er einnig Háma: ný og stórglæsileg veitingasala og kaffibar fyrir nemendur jafnt sem starfsfólk Háskóla Íslands.

Hverjar eru forkröfur?

Inntökuskilyrði eru þau sömu og í BS-nám í dagskóla, þ.e. stúdentspróf af bóknámsbraut eða annað sambærilegt nám. Fjöldi nemenda í kvöldskóla er þó takmarkaður og tekið er mið af árangri í fyrra námi og starfi við val á nemendum. Umsóknarfrestur er til 5. júní og allar nánari upplýsingar eru á vef deildarinnar, www.vidskipti.hi.is.

Höfundur er markaðsstjóri viðskipta- og hagfræðideildar HÍ og stundakennari í HÍ.