Þeir sem hafa unnið við iðngrein en ekki lokið prófi geta bætt úr því með því að fá starfsreynslu og þekkingu metna inn í skólakerfið og ljúka því sem upp á vantar.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Margir hafa starfað lengi við ákveðna iðngrein og náð talsverðri færni á sínu sviði án þess að hafa lokið formlegu námi í greininni. Iðan fræðslusetur og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins bjóða mönnum nú upp á að láta meta reynslu sína og þekkingu af greininni inn í skólakerfið. Sigurjón Jónsson húsasmiður er einn þeirra sem fóru í slíkt raunfærnimat en hann hefur starfað við smíðar frá því að hann var 16 ára. „Áður en ég fór á námskeið hjá Iðunni var ég kominn með um 140 einingar í framhaldsskóla en hafði aldrei klárað nein próf eða fengið nein réttindi,“ segir Sigurjón og bætir við að erfitt hafi verið að ljúka náminu samhliða fullri vinnu og öðrum önnum. „Þetta verkefni gerði það að verkum að ég fæ í rauninni metið allt sem ég er búinn að vera að vinna við í sambandi við smíðar,“ segir Sigurjón sem fór í framhaldi af matinu aftur í skóla.

Kominn í meistaranám

„Ég fór í Iðnskólann í haust og kláraði 15 einingar. Það nægði mér til þess að ég tók sveinspróf í húsasmíði í desember og tók svo stúdentspróf af félagsfræðibraut líka,“ segir Sigurjón sem hefur ekki látið staðar numið. „Síðan hélt ég áfram á vorönn í meistaraskólanum og stefni á að klára húsasmíðameistarann um næstu jól.“

Þarf ekki að afsaka sig

Sigurjón segir að það hafi allt að segja fyrir sig að hafa lokið námi. „Fyrir sjálfan mig er þetta fyrst og fremst staðfesting á því að ég geti klárað. Ég þarf ekki lengur að afsaka mig fyrir það sem ég hef næstum því. Sú tilfinning er alveg farin og þetta veitir mér ákveðið öryggi,“ segir Sigurjón og bendir jafnframt á að það styrki stöðu hans á vinnumarkaði.

„Við þessir smærri verktakar finnum fyrir því þegar farið er að þrengjast á markaðnum að í staðinn fyrir að fá bara einhvern til að vinna verkið fer fólk að hugsa meira um að maðurinn sem vinnur fyrir það sé menntaður,“ segir Sigurjón Jónsson að lokum.

Í hnotskurn
Bættu um betur er tilraunaverkefni sem felst í að meta færni þátttakenda og gefa þeim kost á að ljúka námi. Verkefnið nær til nokkurra iðngreina, meðal annars húsasmíði, bifvélavirkjunar, blikksmíði og framreiðslu.