[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fræðsluefni hræðir mig. Sérstaklega fræðsluefni sem er jafn fagmannlega unnið og þættirnir um jörðina á RÚV. Þeir hræða úr mér líftóruna vegna þess að þeir hafa sýnt mér að allt varð til fyrir tilviljun.

Fræðsluefni hræðir mig. Sérstaklega fræðsluefni sem er jafn fagmannlega unnið og þættirnir um jörðina á RÚV. Þeir hræða úr mér líftóruna vegna þess að þeir hafa sýnt mér að allt varð til fyrir tilviljun. Líf á jörðinni kviknaði vegna þess að réttir þörungar voru á réttum stað þegar sólin skein á réttum stað á réttum tíma. Þetta segir mér að sama tilviljunarkennda ferlið getur endað allt – ef röngu lífverurnar eru á röngum stað á röngum tíma. Það hræðir mig.

Ég vil helst ekki vita hvernig jörðin virkar. Fáfræði er alsæla og þættirnir um jörðina eru allt of upplýsandi og vel gerðir til að ég geti þolað þá. Í staðinn fyrir að vita um brennandi bergkvikuna sem sýður undir okkar vil ég trúa að undir grasinu og moldinni sé meiri mold. Þá vil ég ekki trúa á tilvist flekanna sem eru að rífa Þingvelli í sundur. Ég vil miklu frekar trúa því að tröllskessur hafi farið um þjóðgarðinn fyrir hundrað þúsund árum og skorið landið í sundur. Loks vil ég ekki hafa hugmynd um alla þessa hafstrauma sem stjórna andrúmsloftinu, skapa fellibylji, flóðbylgjur og djúpar lægðir. Ég vil trúa því að vindurinn blási af því bara . En það er of seint núna. Þættirnir um jörðina hafa upplýst mig og þurrkað fáfræðiglottið af vanþakklátu andliti mínu.