Lausn? Skýrslan, sem unnin var að frumkvæði fyrri meirihluta, skoðar m.a. þær leiðir sem aðrar borgir hafa farið til að leysa svipuð vandamál.
Lausn? Skýrslan, sem unnin var að frumkvæði fyrri meirihluta, skoðar m.a. þær leiðir sem aðrar borgir hafa farið til að leysa svipuð vandamál. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.is FULLTRÚAR minnihluta í borgarstjórn segja doða í borgaryfirvöldum og að athygli veki það ráðaleysi sem einkennt hafi umræðuna um vanda miðborgarinnar, þegar fyrir liggja vandlega rökstuddar tillögur um úrbætur.

Eftir Ásgeir Ingvarsson

asgeiri@mbl.is

FULLTRÚAR minnihluta í borgarstjórn segja doða í borgaryfirvöldum og að athygli veki það ráðaleysi sem einkennt hafi umræðuna um vanda miðborgarinnar, þegar fyrir liggja vandlega rökstuddar tillögur um úrbætur.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem borgarfulltrúar minnihluta boðuðu í gær þar sem lögð var fram skýrsla um málefni miðborgarinnar.

Fyrirliggjandi í tvo mánuði

Vinna við skýrsluna hófst í september 2007 að frumkvæði 100-daga meirihlutans svokallaða, og komu að gerð hennar fulltrúar veitingamanna, lögreglu, ferðaþjónustu og borgar auk þess að valdir íbúar miðbæjarins voru fengnir til þátttöku í verkefninu.

Skýrslan er um 50 blaðsíður að lengd og eru þar lagðar fram tillögur til úrbóta á ýmsu því sem finna má að ástandi borgarinnar í dag.

Skoðar skýrslan einnig þær lausnir sem aðrar borgir með svipuð vandamál og Reykjavík hafa notað með góðum árangri.

Skýrslan óhreyfð

Skýrslan lá fyrir fáeinum dögum áður en núverandi meirihluti tók við stjórn borgarinnar og gagnrýndu fulltrúar minnihluta borgarstjóra og formann borgarráðs fyrir að hafa ekki kynnt efni skýrslunnar eða hafið vinnu í samræmi við tillögur hennar.

„Það er eins og sumt af þeirri miklu vinnu sem var unnin í tíð fyrri meirihluta hafi fengið að liggja ofan í skúffu frá því nýr meirihluti tók við,“ sagði Dagur B. Eggertsson á fundinum. „Skýrslan er afrakstur umfangsmikillar vinnu helstu hagsmunaaðila og veitir alhliða tillögur sem taka m.a. á hreinsun bæjarins, veggjakroti og yfirgefnum húsum.“

Hefur burði til að blómstra

Bæjarfulltrúarnir kölluðu á fundinum eftir skýrari stefnu og markvissum aðgerðum. Sagði Dagur að líklega hefði áhugi, framtaksemi og fjárfesting í úrbótum á miðbænum aldrei verið meiri. „Það eru ekki bara möguleikar fyrir hendi til að miðbærinn blómstri, heldur getur hann orðið kröftugri en nokkurntíma áður,“ sagði hann.

Dagur sagði það skipta miklu máli að skilaboð borgaryfirvalda í málefnum miðbæjarins væru skýr, og að hústöku og öðrum vandamálum hefði verið sýnt of mikið umburðarlyndi.

Lögregla taki áfengið

Meðal hugmynda sem lagðar eru fram í skýrslunni er að mörkuð verði svæði í miðborginni þar sem neysla áfengis utandyra er leyfileg, en að lögreglu verði gefið vald til að leggja hald á áfengi á öðrum stöðum.

Önnur hugmynd er sú að skemmtistaðir hleypi viðskiptavinum ekki inn eftir ákveðinn tíma, þó staðirnir séu opnir lengur. Slíkt komi í veg fyrir ráp viðskiptavina milli staða og um leið þann óskunda sem oft vill fylgja rápinu.

Í hnotskurn
» Skýrsla gerð með þátttöku helstu hagsmunaaðila var fyrirliggjandi þegar nýr meirihluti tók við.
» Minnihluti gagnrýnir borgarstjóra fyrir að kynna ekki og nýta þær tillögur sem koma fram í skýrslunni.
» Tillögur m.a. um að lögregla megi taka áfengi af fólki á sumum svæðum.