„ÞETTA er eðlileg hæfniskrafa. Allir vegamálastjórar hingað til hafa verið verkfræðimenntaðir,“ segir Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, um auglýsingu vegna setningar í embætti vegamálastjóra.

„ÞETTA er eðlileg hæfniskrafa. Allir vegamálastjórar hingað til hafa verið verkfræðimenntaðir,“ segir Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, um auglýsingu vegna setningar í embætti vegamálastjóra. Embættið var auglýst laust til umsóknar til eins árs frá og með 1. maí sl., en í auglýsingu um það er gerð krafa um verkfræðimenntun eða sambærilega menntun. Slíkt var ekki gert síðast þegar embættið var auglýst.

Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri er lögfræðingur að mennt og athygli Lögmannafélags Íslands á málinu hefur verið vakin. Að sögn Lárentsínusar Kristjánssonar, formanns Lögmannafélagsins, mun stjórn þess að líkindum fjalla um málið á stjórnarfundi á morgun.

Lárentsínus segir að almennt sýnist sér að samkvæmt starfsmannalögum sé ráðherra líkast til heimilt að gera kröfur um sérstaka menntun vegna ráðningar vegamálastjóra. Slíkt þurfi hins vegar að rökstyðja mjög vel „og mér finnst þessi ákvörðun hans kalla á það“. Hann segir að þetta mál komi öllum sérfræðistéttum við, enda sé fyrst og fremst um stjórnunarstöðu að ræða.

Ragnhildur Hjaltadóttir segir að í samgönguráðuneytinu hafi menn talið eðlilegt að óska eftir verkfræðiþekkingu vegna ráðningarinnar. Verið sé að setja vegamálastjóra í embætti í eitt ár, en ekki skipa í stöðuna til fimm ára, líkt og áður hefur verið gert. Sú ákvörðun að setja í embættið til eins árs tengist mögulegum skipulagsbreytingum í kjölfar ábendinga frá Ríkisendurskoðun, sem um þessar mundir vinnur að því að skoða Vegagerðina og starfsemi hennar. Hjá samgönguráðuneytinu hafi menn átt von á því að endurskoðuninni lyki fyrr en raun hefur orðið á, en vinnan við hana sé umfangsmikil. Þegar ábendingar berist frá Ríkisendurskoðun verði farið yfir þær og hugað að endurskipulagningu í framhaldinu. Ragnhildur segir algengt að óskað sé eftir tiltekinni þekkingu þegar stjórnendastörf séu auglýst laus til umsóknar. Við auglýsingu stöðunnar nú hafi verið litið til þess að nýr vegamálastjóri taki við stofnuninni með tiltölulega skömmum fyrirvara og tímabundið. Jón Rögnvaldsson, núverandi vegamálastjóri, lætur af störfum 1. maí. Hann hugðist upphaflega hætta 1. mars, en ráðuneytið óskaði eftir að hann gegndi stöðunni fram í maí. Að sögn Ragnhildar er það í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis þess efnis að nauðsynlegt sé að auglýsa setningu í stöðuna í eitt ár.

Í hnotskurn
» Samgönguráðuneytið auglýsti í mars laust til umsóknar embætti vegamálastjóra.
» Vegna fyrirhugaðrar endurskipulagningar stofnunarinnar er um að ræða setningu til allt að eins árs frá 1. maí nk.