Hafsteinn G. Hauksson
Hafsteinn G. Hauksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Már Þrastarson og Hafsteinn G. Hauksson fjalla um kynjaskiptingu í embættum innan Verzló: "Ekki er lengra en ár síðan stúlkur sátu í meirihluta í stjórn félagsins og árið þar áður var forseti þess stúlka."
KVENRÉTTINDAFÉLAG Íslands ályktaði fyrr í vikunni um kynjaskiptingu nýkjörinnar stjórnar Nemendafélags Verzlunarskóla Íslands og vakti athygli á hversu fáar stúlkur hefðu sóst eftir stjórnarsetu, og jafnframt að engin þeirra hefði náð kjöri. Við undirritaðir tökum heilshugar undir áhyggjur KRFÍ og er sannarlega miður að ásækni stúlkna við skólann í stjórnarembætti sé ekki meiri. Það er hinsvegar von okkar og trú að úrslit kosninganna dragi ekki úr áhuga stúlkna á starfsemi félagsins heldur verði þeim hvatning til að láta að sér kveða á öðrum sviðum félagslífsins og í kosningum að ári. Það er jafnframt verðugt verkefni fyrir sitjandi stjórn að tryggja að allir félagsmenn hafi sömu tækifæri til að njóta hæfileika sinna og þeir séu metnir að verðleikum.

Stúlkur hafa síst spilað minna hlutverk en piltar innan Nemendafélagsins á umliðnum árum; ekki er lengra en ár síðan stúlkur sátu í meirihluta í stjórn félagsins og árið þar áður var forseti þess stúlka. Sömuleiðis ber að fagna því að sé nemendafélagið skoðað í heild kveður við annan tón en þegar stjórnarsætin ein eru skoðuð. Af þeim 130 nemendum sem sinntu embættum á vegum nemendafélagsins á síðasta skólaári var meirihlutinn stúlkur. Að sama skapi voru þeir nefndarmenn sem kjörnir voru í nýafstöðnum kosningum að meirihluta stúlkur. Það er því sem betur fer ljóst að stúlkur fara ekki varhluta af því frábæra starfi sem Nemendafélagið stendur fyrir.

Þegar upp er staðið skiptir þó auðvitað mestu máli að þeir sem taka að sér verkefni, hvort heldur sem um er að ræða í nemendafélögum eða á öðrum vettvangi, séu hugmyndaríkir og framkvæmdaglaðir einstaklingar sem eru starfi sínu vaxnir og sú er svo sannarlega raunin jafnt í stjórn Nemendafélagsins sem nefndum þess. Það verður gaman að fylgjast með þeim stóra hópi hæfileikafólks sem sér um Nemendafélagið vinna saman á komandi ári, hvers kyns svo sem það er.

Höfundar eru fráfarandi forseti NFVÍ og nýkjörinn forseti NFVÍ.