Klæðning Reiðhöllin á Gaddstaðaflötum er risin og byrjað að klæða húsið að utan. Fyrsti áfangi verður tekinn í notkun í júní í sumar.
Klæðning Reiðhöllin á Gaddstaðaflötum er risin og byrjað að klæða húsið að utan. Fyrsti áfangi verður tekinn í notkun í júní í sumar. — Morgunblaðið/Óli Már
Eftir Óla Má Aronsson Hella | Vinna við byggingu reiðhallar á Gaddstaðaflötum við Hellu er aðeins á eftir áætlun eins og sakir standa.
Eftir Óla Má Aronsson

Hella | Vinna við byggingu reiðhallar á Gaddstaðaflötum við Hellu er aðeins á eftir áætlun eins og sakir standa. Óhagstætt veður í vetur við jarðvegsframkvæmdir og steypuvinnu hefur gert þetta að verkum að sögn Guðmundar Einarssonar, framkvæmdastjóra Rangárhallarinnar ehf. sem er byggingar- og rekstraraðili hallarinnar. Reiknað er með að verkið verði á áætlun frá og með miðjum apríl.

Reiðhöllin verður 26 metra breið og 79 m löng, eða rúmir 2.000 fermetrar. Að auki er 240 fermetra anddyri og móttaka. Um er að ræða stálgrindarhús sem keypt er af Landstólpa ehf. í Gunnbjarnarholti í Árnessýslu og sér fyrirtækið um uppsetningu hússins. Árni Pálsson vélaverktaki sá um jarðvinnuna.

Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi framkvæmdarinnar kosti um 170 milljónir kr. Innifalið í þeim áfanga er húsið uppkomið og uppsteypt áhorfendastæði fyrir rúmlega 200 manns auk snyrtinga. Fjármögnun þessa áfanga er langt komin en ekki lokið að fullu. Reiðhöllin verður tilbúin til notkunar á Landsmóti hestamanna sem hefst í lok júní á Gaddstaðaflötum.

Að sögn Sigurðar Sæmundssonar á Skeiðvöllum, núverandi landsliðseinvalds sem situr í framkvæmdastjórn Landsmóts hestamanna 2008, verður allt önnur og betri aðstaða til landsmótshalds með tilkomu reiðhallarinnar, sérstaklega kemur það sér vel ef eitthvað er að veðri. Þar verður hægt að hafa markaðstorg, fræðslu og sýningar fyrir gesti, ásamt veitingaaðstöðu o.fl. en þessi starfsemi hefur aðallega farið fram í tjöldum hingað til.

„Það verður að segja að landsmótin eru hefðbundin að því leyti að menn nota það sem vel reynist en reyna að bæta annað eftir því sem ástæða er til. Við erum sífellt í samkeppni við heimsmeistaramótin sem haldin eru annað hvert ár erlendis og því er bætt aðstaða kærkomin. Við reiknum með 12-15 þúsund manns, þar af 4-5 þúsund erlendum gestum en á síðasta móti á Hellu voru 11 þúsund manns. Áhugi fyrir íslenska hestinum og starfsemi í tengslum við hann vex stöðugt erlendis, sérstaklega í Þýskalandi og enn frekar í Svíþjóð. Allt þetta hefur gríðarleg áhrif á markaðssetningu íslenska hestsins erlendis og hefur jákvæð áhrif á útflutningsverðmæti hans fyrir okkur. Hinn jákvæði þátturinn er fyrir ferðaiðnaðinn á Íslandi, þar hefur hesturinn nokkur áhrif sem er hægt að auka gríðarlega með bættri markaðssetningu,“ segir Sigurður.

Landbúnaðarsýning í ágúst

Þess má einnig geta að landbúnaðarsýning á vegum Búnaðarsambands Suðurlands verður haldin á Gaddstaðaflötum seinni part ágústmánaðar en þá verða liðin 100 ár frá stofnun sambandsins. Þar mun reiðhöllin gegna lykilhlutverki.

Í síðari áföngum reiðhallarinnar kemur rými í enda hennar sem rúmar veitingaaðstöðu á efri hæð og ýmsa aðstöðu fyrir tæki og hestavörur á þeirri neðri. Einnig munu áhorfendastæði stækka. Ljóst er að með tilkomu reiðhallarinnar mun svæðið á Gaddstaðaflötum taka forystu á landsvísu hvað varðar aðstöðu til hestamennsku og einnig verður þar kjöraðstaða til sýningarhalds almennt.

Í hnotskurn
» Landsmót hestamanna á Gaddstaðaflötum hefst í lok júní í sumar.
» Nýja reiðhöllin verður tekin í notkun á landsmótinu. Búist er við 12 til 15 þúsund manns, þar af 4 til 5 þúsund erlendum gestum.