Fögnuður Cristiano Ronaldo fagnar hér ásamt Rio Ferdinand eftir að hann skoraði mark fyrir Manchester United gegn Aston Villa á Old Trafford.
Fögnuður Cristiano Ronaldo fagnar hér ásamt Rio Ferdinand eftir að hann skoraði mark fyrir Manchester United gegn Aston Villa á Old Trafford. — Reuters
ÁTTA liðin úrslitin í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu hefjast í kvöld með tveimur leikjum.

ÁTTA liðin úrslitin í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu hefjast í kvöld með tveimur leikjum. Í Róm tekur Roma á móti Englandsmeisturum Manchester United og í Gelsenkirchen í Þýskalandi sækja Eiður Smári Guðjohnsen og félagar hans í Barcelona lið Schalke heim. Annað kvöld eru svo síðari tveir leikirnir. Arsenal og Liverpool eigast við á Emirates Stadium og í Istanbul tekur Fenerbache á móti Chelsea.

Leikur Roma og Manchester United á ólympíuleikvangnum í Róm verður fimmta viðureign liðanna á síðustu 12 mánuðum en liðin áttust við í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð og voru í sama riðli í Meistaradeildinni í ár.

Þær fregnir bárust úr herbúðum Roma um helgina að Francesco Totti, fyrirliði og aðalamaðurinn í ítalska liðinu, geti ekki verið með vegna meiðsla og verði það niðurstaðan veikir það lið Rómverja gríðarlega enda er Totti Rómverjum ákaflega mikilvægur og þá tekur Simone Perrotta út leikbann en Perrotta er fæddur í næsta nágreni við Old Trafford, heimavöll Manchester United.

,,Manchester United er á pappírunum með besta liðið í heimi. Liðið hefur á að skipa frábærum sóknarmönnum og vörn liðsins er ógnarsterk,“ segir Luciano Spalletti, þjálfari Roma. ,,Við höfum bætt okkur mikið eftir útreiðina sem við fengum á Old Trafford í fyrra en þó svo að Totti leiki ekki með okkur getum við farið með sigur af hólmi,“ segir Spalletti.

Roma og United skildu jöfn, 1:1, í Róm í riðlakeppninni í vetur en United hafði betur á Old Trafford, 1:0, en Rómverjar eru ekki búnir að gleyma útreiðinni sem þeir fengu á Old Trafford í fyrra þegar þeir steinlágu, 7:1.

Nani og Louis Saha fóru ekki með liði United til Rómar í gær en báðir eru meiddir en Sir Alex Ferguson vonast til að Michael Carrick, Rio Ferdinand, Patrice Evra og Ryan Giggs verði klárir í slaginn en allir höltruðu þeir af velli í sigurleiknum gegn Aston Villa á laugardaginn. Þá er Ferguson vongóður um að geta teflt markverðinum Edwin van der Sar fram en Hollendingurinn hefur átt við nárameiðsli að stríða.

,,Roma hefur bætt sig mikið á þessari leiktíð en við höfum mætt því tvisvar á þessu tímabili og við vitum því alveg hverju við eigum von á. Þetta verður erfiður leikur en í því formi sem við erum í dag þá er ég bjartsýnn,“ segir Sir Alex Ferguson.

Líkleg byrjunarlið:

Roma: Doni - Marco Cassetti, Christian Panucci, Philippe Mexes, Max Tonetto - Taddei, Alberto Aquilani, Daniele De Rossi, Mancini, Ludovic Giuly - Mirko Vucinic.

Manchester United: Edwin van der Sar - Wes Brown, Rio Ferdinand, Nemanja Vidic, Patrice Evra - Paul Scholes, Owen Hargreaves, Anderson - Cristiano Ronaldo, Wayne Rooney, Ryan Giggs.

Eiður líklega á bekknum

Victor Valdes, markvörður Barcelona, segir að liðið muni reka af sér slyðruorðið og ná góðum úrslitum gegn Schalke en hvorki hefur gengið né rekið hjá Katalóníuliðinu í deildinni á undanförnum vikum og eftir tapið gegn Real Betis er það fallið niður í þriðja sæti. Eiður Smári Guðjohnsen er í leikmannahópi Barcelona og er talið líklegt að hann hefji leik á varamannabekknum en Ronaldinho og Deco fóru ekki með liðinu til Þýskalands – eru báðir á sjúkralistanum.

,,Við þurfum svo sannarlega á góðum úrslitum að halda til að bæta andlegt ástand okkar þessa stundina. Okkur hefur vegnað vel í Meistaradeild Evrópu í vetur og ætlum okkur alla leið og því verðum við að vera jákvæðir og ná góðum leik,“ segir Valdes.

Líkleg byrjunarlið:

Schalke: Manuel Neuer - Rafinha, Marcelo Bordon, Mladen Krstajic, Heiko Westermann - Gerald Asamoah, Jermaine Jones, Fabian Ernst, Christian Pander - Kevin Kuranyi, Halil Altintop.

Barcelona: Victor Valdes - Gianluca Zambrotta, Carles Puyol, Gabriel Milito, Silvinho - Yaya Toure, Xavi, Andres Iniesta - Bojan Krkic, Samuel Eto'o, Thierry Henry.