— 24stundir/RAX
Gunnar Hansson leikari svífur um borgina á fagurgrænni vespu. Sannri Vespu Piaggio. „Þetta eru gæðahjól, einu hjólin sem svo sannarlega eru vespur,“ segir Gunnar sem flytur þau inn og selur.

Gunnar Hansson leikari svífur um borgina á fagurgrænni vespu. Sannri Vespu Piaggio. „Þetta eru gæðahjól, einu hjólin sem svo sannarlega eru vespur,“ segir Gunnar sem flytur þau inn og selur. „Önnur hjól en af þessari tegund í sama flokki eru svo kölluð scooter-hjól,“ bætir hann við.

Eftir Kristjönu Guðbrandsdóttur

dista@24stundir.is

„Þetta er lífstíll,“ segir Gunnar Hansson um grænu Piaggio Vespuna sem hann sést þeysast um borgina á. „Ég veit að ég hef sennilega ekki valið besta tímann til að fara í bissness í öllu þessu Evrudjóki sem er búið að vera upp á síðkastið en svo er það að kannski samt tíðarandinn nú sem er einmitt sá heppilegasti til að selja Vespur enda hagkvæmir fararskjótar.“

Gunnar segir Vespuna hafa verið hannaða af Piaggio fyrirtækinu árið 1946 þegar Ítalskt efnahagslíf hafi verið í sárum. „Það vantaði farartæki sem almenningur hafði efni á að kaupa og reka. Hjólið var hannað árið 1946 og náði strax vinsældum,“ segir Gunnar.

„Ég er með aðstöðu til að sýna Piaggio-hjólin í versluninni Saltfélaginu auk þess sem ég rek vefsíðu: www.vespur.is þar sem ítarlegar upplýsingar má finna um þær gerðir af hjólum sem eru í boði.“ Gunnar segir þrjár vélarstærðir í boði, 50 kúbik, 125 kúbik og 250 kúbik. 125 kúbika hjólin eru góður kostur fyrir marga enda hafa þau kraft til að halda í við umferðarhraðann, geta farið á 90-100 km hraða á klukkustund. Ég fór í samgönguráðuneytið og niður á Umferðarstofu vegna þeirra hjóla til að koma því í kring að auðvelda fólki að fá próf á þessi hjól. Próf getur fólk nú öðlast á hjólunum sjálfum og þarf ekki að fara á stórt mótorhjól og taka próf á því.“

„Það er frábært að fara um borgina og hugsa ekkert um bílastæði og afskaplega hressandi að borga þúsundkall fyrir að fylla á tankinn á næstu bensínstöð!“

Í hnotskurn
Vespa eyðir talsvert minna bensíni en bílar sem annars eru taldir umhverfisvænir (t.d. með hybrid-vélar) Vespa eyðir 2-3 sinnum minna en venjulegur fjölskyldubíll og 7 sinnum minna en stór jeppi.