Lárus Konráðsson fæddist 1. desember 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 28. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Konráð Jónsson, f. 13.10. 1891, d. 19.8. 1974, og Ragnheiður Guðmundsdóttir, f. 11.4. 1895, d. 21.8. 1933. Lárus var næstyngstur fimm alsystkina. Látin eru Ingólfur, Jón og Ragnheiður en Eggert lifir. Hálfbræðurnir eru Gunnar, Óskar, Haukur og Kjartan. Móðir þeirra og seinni kona Konráðs er Sigurbjörg Sigurjónsdóttir, f. 27.9. 1917, er býr nú á elliheimilinu Grund í Reykjavík.

Lárus kvæntist 25. september 1953 Ragnheiði Blöndal, f. 29.7. 1928, dóttir Sveinbjargar Jónsdóttur og Benedikts Blöndal á Brúsastöðum í Vatnsdal. Börn Lárusar og Ragnheiðar eru: 1) Benedikt, f. 19.5. 1950, maki Svala Runólfsdóttir, f. 24.6. 1967, sonur þeirra Björn Blöndal, f. 3.5. 2000. Börn Svölu eru Nína, f. 25.8. 1986, og Jón Bjarni, f. 4.3. 1991. Börn Benedikts og f. k., Margrétar Hólmsteinsdóttur, f. 8.8. 1951, eru: a) Lárus Blöndal, f. 10.5. 1972, og b) Ragnheiður Blöndal, f. 21.3. 1978, maki Magnús Valur Ómarsson, f. 31.12. 1978, synir þeirra Benedikt Þór, f. 3.7. 2004, og Þröstur Már, f. 13.11. 2007, c) Gígja Blöndal, f. 27.4. 1984, maki Daníel Kristjánsson, f. 14.3. 1983, dóttir þeirra Þórey Blöndal, f. 11.7. 2003. 2) Sigurlaug Björg, f. 22.4. 1953, maki Þórir Haraldsson, f. 27.2. 1948, sonur þeirra Guðbjörn Hjalti, f. 9.1. 1991, börn Bjargar og f. m. Ólafs Skaftasonar, f. 17.12. 1951, eru: a) Bjarni Róbert Blöndal, f. 21.11. 1973, maki Hanna Sigríður Magnúsdóttir, f. 17.7. 1963, dóttir Bjarna og Írisar Stefánsdóttur er Sara Helena, f. 30.9. 1996, b) Sunneva Lind Blöndal, f. 19.4. 1979, maki Guðbjartur Halldór Ólafsson, f. 16.1. 1976, dóttir Sigurlaugar og Nicolai Þorsteinssonar, f. 5.3. 1955, er Harpa Sjöfn, f. 13.5. 1984. 3) Gróa Margrét, f. 5.12. 1958, maki Sigurður Ólafsson, f. 27.9. 1959, börn þeirra eru a) Áki Már, f. 28.7. 1983, d. 2.1.2004, og b) Arndís, f. 4.5. 1989, unnusti Jón Örn Vilhjálmsson, f. 20.2. 1987.

Lárus fæddist í Gilhaga í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, í litlu koti við rætur Haukagilsheiðar við Álftarskálaá, á sem venjulega er kölluð Álka. Foreldrar Lárusar bjuggu þar við kröpp kjör. Ragnheiður móðir hans lést þegar Lárus var fimm ára gamall. Konráð hætti búskap um þetta leyti og börnin fóru á bæina í dalnum, ýmist í fóstur eða vinnumennsku. Lárus fór að vinna strax sem barn, eins og kraftar leyfðu. Skólaganga var lítil, farskóli í nokkrar vikur. Sigurlaug Jónasdóttir er var í Kárdalstungu tók Lárus að sér og ól hann upp sem sinn fósturson. Voru þau á nokkrum bæjum en síðast í Ási hjá Guðmundi bróður hennar og Sigurlaugu konu hans. Að Brúsastöðum fór Lárus fyrir tvítugt, fyrst sem vinnumaður en tók svo smám saman við búinu ásamt Ragnheiði, heimasætu þar, en þau giftu sig 1953. Jörðina byggðu þau upp og ræktuðu tún og engjar. Einnig keyptu þau hálfa jörðina Snæringsstaði. Þau hættu búskap þegar Gróa dóttir þeirra og Sigurður tóku við 1996. Lárus var alla tíð afburða duglegur og ósérhlífinn. Hann vann mikið utan heimilisins ásamt bústörfum, hjálpsamur og greiðvikinn. Veiðimaður var hann af lífi og sál, refa- og minkaskytta til fjölda ára.

Lárus og Ragnheiður byggðu húsið Birkihlíð í landi Brúsastaða og bjuggu þar eins lengi og heilsa leyfði.

Útför Lárusar verður gerð frá Blönduóskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Jarðsettt verður í Undirfellskirkjugarði.

Kynni mín af honum Lárusi hófust þegar hann kom suður til að vera við brúðkaupið okkar Bjargar. Þá var hann ökklabrotinn, hafði meiðst í viðureign við nýbæru í fjósinu á Brúsastöðum. Ég var örlítið kvíðinn að hitta þennan mann, hvernig maður var hann og hvernig tæki hann þessum verðandi tengdasyni, mér? Kvíði minn reyndist ástæðulaus, því hann tók mér mjög vel. Fljótlega kom í ljós húmorinn hans, og á þessum dögum var talsvert gantast með fótbrotið. En hvernig kynnist maður fólki? Með því að sitja og spjalla yfir kaffibolla? Ef til vill, en ekki endilega í hans tilfelli. Þegar við fjölskyldan fórum að heimsækja tengdaforeldra mína á Brúsastöðum komst ég að raun um það að hann tengdapabbi minn var mikill vinnuþjarkur. Jú, hann kom inn í mat og kaffi, settist í gamla tréstólinn sinn við borðsendann, og jafnskjótt og máltíðinni var lokið var hann farinn út í verkin. Að sitja og spjalla? Betra að drífa sig bara í vinnugalla og fara út á eftir honum. Á þann hátt kynntist ég þessum ágæta manni, og það myndaðist með okkur vinátta sem óx með árunum.

Eitt sinn, rétt eftir að við fjölskyldan fluttum í Hólabergið, var ég að koma heim úr vinnunni, þá voru þau tengdaforeldrar mínir, Ragnheiður og Lárus, komin í heimsókn færandi hendi. Þau færðu okkur tré sem þau tóku úr sínum garði og auðvitað var hann búinn að rífa upp hellurnar fyrir framan þvottahúsgluggann og gróðursetja tréð. Bíða eftir aðstoð? Nei, bara að klára þetta. Þannig var hann. Við áttum sameiginleg áhugamál, smíðar og verkfæri af öllum gerðum, enda fórum við gjarnan saman í „dótabúðina“, Húsasmiðjuna, þegar hann heimsótti okkur. En hann stansaði sjaldan lengi. Best að drífa sig heim aftur, helst samdægurs! Síðustu misserin urðu samverustundirnar fleiri, þegar heilsan fór að bila og læknisferðir og sjúkrahúsvistir tóku við. Þá opnuðust umræður um hluti sem snerta strengi sem leynast djúpt í sál manna, og hlutir ræddir sem aldrei voru opnaðir meðan lífið var fullt af verkefnum við búskap og aðrar daglegar annir.

Ég bið algóðan Guð að blessa minningu hans tengdapabba, með innilegri þökk fyrir samfylgdina.

Þórir Haraldsson.

Hann Lalli minn er dáinn. Það er bara mánuður síðan ég sat með tárin í augum og votar kinnar að kveðja fóstra minn hann Leif; og þú núna. kallarnir mínir sem áttu svo stóran þátt í uppvaxtarárum mínum.

Mennirnir sem elskuðu heiðarnar sínar og þekktu þær eins og stóru lófana sína, mennirnir sem við Gróa þín fórum á móti á haustin þegar þið komuð með féð niður af heiðum, fengum hesta og kysstum blauta og skítuga kalla sem önguðu af kaupstaðarlykt. Minningarnar streyma gegnum huga minn um þig og fjölskylduna á Brúsastöðum, minningar um öll nýju sveitaorðin sem ég, litli Færeyingurinn, lærði af ykkur. Vorið 1964 flutti mamma með börnin sín þrjú í Vatnsdalinn, komum við frá litlu sjávarþorpi, þekktum engan og við systkinin vissum enn minna um sveitanöfn og sveitastörf. Það liðu ekki margir dagar áður en skottan þín eins og þú kallaðir mig þá kom í heimsókn, ófeimin og spurði eftir krökkum til að leika við. Jú jú, komdu inn í bæ sagðir þú, allar götur síðan hefur heimilið ykkar Lillu minnar staðið mér opið og var það stolt sveitastelpa sem söng og trallaði með stóru krökkunum þínum, Benna og Björgu, sem spiluðu á allskonar hljóðfæri, meira að segja á matskeiðar, og hlustaði á sögur. Oft gisti ég á Brúsastöðum og var það bara sjálfsagt, bara búið um mig uppi í hjónaherberginu ykkar Lillu, Gróa öðrum megin og ég hinum megin. Besti maðurinn á morgnana að flétta á mér hárið eða faxið sagðirðu stundum, það var svo þykkt að þú vildir stundum gera þrjár fléttur. Allar stundirnar við eldhúsborðið ykkar, þú að spila við okkur á endanum þínum við borðið, á tréstólnum stóra að drekka dísætt kaffið að hlusta á bullið í okkur, dimmi hláturinn þinn og brosið þitt, stóri faðmurinn þinn, þar var nóg pláss fyrir eina stelpu í viðbót, allt þetta fékk ég og miklu meira.

Elsku Lalli minn, takk fyrir að hafa verið til fyrir mig líka, ég geymi allar minningarnar í hjartanu mínu um fjölskylduna frá Brúsastöðum.

Elsku Lilla, Benni, Björg og Gróa mín, ég, mamma og systkini mín sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar innilegustu samúðarkveðju á sorgarstundu og biðjum Guð að blessa ykkur öll.

Anna (Stína) Kristín.

Við fæðumst inn í samfélag, samfélag með ólíku fólki og ólíkum persónum. Sumir eiga stóran þátt í lífi okkar og aðrir minni, sumir eignast stórt pláss í hjarta okkar. Svo eldumst við, þroskumst og lífið tekur breytingum, við flytjum og sambönd minnka og jafnvel slitna en plássið sem viðkomandi á í hjartanu, það minnkar ekki.

Hann Lalli á Brúsastöðum átti stóran sess í hjarta okkar systkinanna á Snæringsstöðum. Hann var maðurinn hennar Lillu frænku, við vorum nágrannar og umgengumst mikið.

Þau hjónin áttu mikinn þátt í uppeldi okkar og voru óþreytt á að taka á móti okkur í heimsókn og tala við okkur eins og jafningja í önnum dagsins. Við gerðum okkur oft ferð fram dalinn, hlupum niður brekkuna að Brúsastöðum og var alltaf vel tekið.

Lalli kenndi okkur svo margt, að taka stórt fang þegar litla hendur voru að gefa heyið, leiðbeindi okkur með hestana og að taka á móti lömbum. Hann dansaði við okkur systurnar ef svo bar undir, söng í fermingunum okkar og sendi eitt blikk ofan af lofti niður að altarinu þar sem maður sat með sveitta lófa. Við fengum að sitja í fanginu á honum þegar hann kom að spila lomber við pabba, hlýjaði köldum höndum þegar eigandinn hafði enn einu sinni týnt vettlingunum úti á túni. Það sem hann gat hlaupið hratt, hvort sem var á eftir kindunum eða í kapphlaupi við Gróu sem okkur fannst gaman að fylgjast með. Við leituðum til Lalla ef við þurftum aðstoð við verkin þegar pabbi var að vinna utan búsins og ,,heillin mín“ var nafnið sem hann gaf okkur oftast.

Tengingin heim er ekki bara bærinn, fjöllin og sólarlagið við enda Vatnsdalsins. Það er fólkið. Nú er einn tengiliður farinn, taug heim slitin þar sem ein af stóru manneskjunum úr æsku okkar er látin og Vatnsdalurinn tómlegri fyrir vikið.

Við erum þess fullviss að Áki Már hefur tekið vel á móti afa sínum og sýnir honum himnaríki í allri sinni dýrð. Þeir félagarnir tala örugglega um vélar og tæki og Vatnsdalinn, sem var svo stór hluti af þeim báðum.

Við þökkum góðum manni og miklum vini gömul kynni og samfylgd gegnum árin. Við vottum Lillu frænku, Gróu, Björgu, Benna og þeirra fjölskyldum okkar dýpstu samúð.

Far í friði og takk fyrir allt.

Anna, Sigríður, Inga, Elín og Ólafur frá Snæringsstöðum.

Er sól er að hækka á lofti og dagur að lengjast kvaddi þetta jarðlíf aldraður bóndi í Vatnsdal, vinur minn Lárus á Brúsastöðum.

Ég minnist Lárusar fyrst fyrir tæpum 50 árum en þá var verið að skilja sundur stóðhross, sem komin voru af heiðum í Undirfellsrétt í lok september. Hrossin voru skilin sundur í svokallaðri Setukonueyri og við það verk var gott að vera vel ríðandi. Lárus var þar á gráum hesti, sem Fálki hét, sindrandi fjörhesti og Lárus óragur að hleypa fyrir villt stóðhross sem verið var að fanga eftir dvöl í frjálsræði öræfanna. Mér, sem var á gamla Brún 10 ára gamall, fannst sem þeir svifu um eyrina, slíkur var léttleikinn og ferðin á þeim.

Þá minnist ég Lárusar er ég fór fyrst í göngur á Haukagilsheiði 14 ára að aldri lítill og grannvaxinn. Þá var hann gangnaforingi og hafði hann mig næstan sér þessa gangnadaga og sagði mér til um örnefni og leiðir en setti á mig fullt traust sem ég vildi ekki bregðast fyrir nokkurn mun.

Eftir Hvanneyrardvöl mína, um tvítugt, kom ég heim til búskapar en þá hafði vetrarrúningur á sauðfé viðgengist í nokkur ár og hafði Lárus unnið við það. Þá byrjaði okkar samstarf og rúðum við saman í yfir tuttugu vetur samfleytt fyrir bændur í Húnavatnssýslum. Lárus var einstakur vinnufélagi, harðduglegur, verklaginn og sérlega ósérhlífinn. Alltaf var hann tilbúinn að hjálpa mér í mínum byrjunarörðugleikum við rúninginn en ég var óþolinmóður og kappsfullur en hann bara hló að mér. Þessi 20 ár bar aldrei skugga á okkar samstarf þó hvorugur væri skaplaus. Minnist ég margra gleðistunda í fjárhúsum og í kaffi hjá ábúendum, ekki síst ef brjóstbirta hafði flotið með. Lárus var söngmaður góður og hafði milda bassarödd og naut þess að syngja raddaðar stemmur um heiðarlöndin en þar dvaldi oft hugurinn.

Ófáar ferðir fór hann um heiðarnar utan hefðbundinna gangna í eftirleitir enda sauðléttur göngumaður og þolhlaupari á sínum yngri árum. Þá var hann veiðimaður af lífi og sál og lá á grenjum um ártugaskeið en fyrst og síðast var hann bóndi. Hann hóf búskap á Brúsastöðum með sinni ágætu eiginkonu í samvinnu við tengdaforeldra sína svo þröngt var til búsforráða til að byrja með. En með dugnaði og elju yfirunnust þröskuldar og þau hjón og börn þeirra byggðu upp húsakost og ræktuðu tún og bjuggu afar góðu búi. Lárus var afar natinn skepnuhirðir og næmur á líðan dýranna sem skilaði sér í miklum afurðum.

Við leiðarlok minnist ég Lárusar sem tilfinningaríks manns sem vildi öllum greiða gera en gat verið snöggur upp á lagið. Ef hann hafði tekið góða ákvörðun setti hann hægri höndina fram og beygði vísifingur og sló til hendinni. Þá var hugur í mínum manni.

Ég vil að lokum þakka Lárusi vináttu og hjálpsemi við mig í gegnum árin og votta eftirlifandi eiginkonu og fjölskyldunni einlægar samúðarkveðjur.

Magnús Sigurðsson.

Vinur minn Lárus hefur lokið jarðvist sinni og þá vill hugurinn hvarfla til liðinna stunda. Lárus fæddist á heiðarbýlinu Gilhaga fyrir tæpum áttatíu árum, en alla sína ævi lifði hann og bjó í Vatnsdalnum og hvergi undi hann sér nema þar. Hann kvæntist frænku minni Ragnheiði Blöndal, heimasætunni á Brúsastöðum. Þau byggðu upp allan húsakost á jörðinni, íbúðarhús jafnt sem öll útihús, því þegar þau hófu búskap var búið í torfbæ og öll útihús úr torfi og engin hlaða til staðar. Það má með sanni segja að ævistarf þeirra hjóna hafi verið ærið við þessa uppbyggingu. Þeim varð þriggja barna auðið og hafa þau komist vel til manns og eitt þeirra tók við búskap á Brúsastöðum og hefur haldið merki foreldra sinna vel á lofti.

Lárus var hamhleypa til allra verka, laghentur og virtist oft vera óþreytandi. Auk uppbyggingarinnar á jörðinni og búrekstursins var mikið leitað til hans með ýmis verk sem of langt mál væri að telja upp hér. Hann var mjög bóngóður og nutu sveitungar hans þess. Þó hann væri áfram um að verkin gengju hratt og vel fyrir sig þá var hann samt vandvirkur og sagði gjarnan að, „tvíverknaður væri það versta sem til væri“.

Eftir að þau hjónin létu af búskap byggðu þau sér snoturt hús í brekkunni fyrir ofan þjóðveginn og nefndu það Birkihlíð. Beggja vegna hússins og upp af því gróðursetti Lárus mikið magn af trjám og eru þau fagurt merki um hina sívinnandi hönd.

Lárus hafði mikinn áhuga á hrossum, þó hann gæfi sér aldrei nægan tíma til að sinna þessu áhugamáli sem skyldi, en mér er minnistæður einn hestur sem honum þótti mjög vænt um. Þetta var grár hestur sem hann tamdi fyrir bróður sinn Ingólf í Vöglum, og hét Fálki. Þeir náðu vel saman Lárus og hesturinn og var glæsilegt að sjá skeiðsprettina á góðri stund, en þeir voru alltof fáir.

Ég átti því láni að fagna að vera nokkur sumur í sveit hjá frændfólki mínu á Brúsastöðum. Fyrsta sumarið var enn búið í gamla torfbænum, en þau næstu var búið í nýja steinhúsinu. Dvölin í sveitinni var mér mikill reynslubrunnur á marga vegu, sem ég hef búið að alla tíð síðan. Ég á því Lárusi og fjölskyldunni mikið að þakka.

Nú þegar komið að leiðarlokum vottum við Ingibjörg, Ragnheiði, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, okkar dýpstu samúð.

Stefán Skarphéðinsson.

Með hlýhug vil ég með nokkrum orðum minnast nágranna míns og vinar, Lárusar á Brúsastöðum. Lalli, eins og hann var ævinlega kallaður, var fæddur á heiðarbýlinu Gilhaga hér í Áshreppi við heldur fátæklegar og frumstæðar aðstæður. Húsakosturinn úr torfi og grjóti eins og verið hafði um aldir hér á landi. Frá fimm ára aldri var Lalli alinn upp af Sigurlaugu Jónasdóttur (Laugu í Ási) en hún var þá hjá Jónasi föður sínum í Kárdalstungu, þaðan fóru þau í Hvamm þar sem Bjarni bróðir hennar bjó og seinna að Eyjólfsstöðum. Einnig fylgdi Lalli fóstru sinni hingað í Ás til bróður síns Guðmundar og Sigurlaugar konu hans sem hér bjuggu og var hann hér þar til hann var 15 ára en þá lágu leiðir hans að Kornsá og síðan í Brúsastaði. Þar enduðu hans bæjarreisur, er hann gekk að eiga heimasætuna þar, Ragnheiði Blöndal, og stóð búskapur þeirra hjóna á Brúsastöðum í rúmlega hálfa öld.

Lalli var einstaklega duglegur og handtakagóður maður, enda eftirsóttur til allra verka og þá ekki síst til þeirra starfa sem afl og snerpu þurfti til, en nóg var af slíku á þessum árum. Hann sá um grenjavinnslu hér á heiðunum í marga áratugi og þótti góð skytta og fengsæll, en það starf er nú oft kaldsamt. Hann naut þess að fara í heiðarferðir hverskonar og fór ungur í göngur og var um tíma gangnastjóri á Haukagilsheiði og þá jafnan flugríðandi. Upp kemur minning um hann á gamla Jarp sem var afburða skeiðhestur en fljótustu stökkhestar höfðu ekki við þeim félögum þegar spretturinn var tekinn á góðri götu. Jarpur var felldur 35 vetra gamall og var þá nánast óbilaður í fótum.

Sjálfur var Lalli liðtækur langhlaupari, keppti eitt sinn í Hveragerði fyrir USAH á Landsmóti UMFÍ og hreppti þar fyrstu verðlaun, þrátt fyrir að vera eini keppandinn á strigaskóm, aðrir voru á takkaskóm. Einnig var hlaupaleiðin ógreinilega merkt þannig að hann varð að taka mið af keppendum fyrir aftan sig til að vita hvar átti að fara, en fyrstur kom hann í mark. Marga verðlaunapeninga fékk hann fyrir innanhéraðshlaup. Þrátt fyrir allmikinn aldursmun á okkur náðum við mjög vel saman frá fyrstu tíð sem nágrannar. Gott var að leita aðstoðar hans við nánast hvað sem var. Alltaf var hann reiðubúinn að aðstoða aðra. Hann var liðtækur slátrari en heimaslátrun var ekki svo lítil hér áður fyrr. Smíðar áttu vel við hann. Hann stundaði rúning á fé fram á fullorðinsár, sló fyrir bændur, jafnframt því að vera með allstórt bú sjálfur á Brúsastöðum sem var ágætlega afurðasamt. Margar ferðir fórum við saman í eftirleitir fram á heiðar, oftast ríðandi, stundum á fjór-

hjólum. Einnig voru snjósleðaferðirnar mikil ævintýri. Eftir að um fór að hægjast hjá þeim hjónum og dóttir þeirra og tengdasonur tóku við búinu, byggðu þau sér lítið hús og nefndu það Birkihlíð. Þar var gott að koma í kaffispjall.

Ég vil að lokum þakka Lalla fyrir alla fórnfýsina fyrir upprekstrarfélagið meðan ég hafði með það að gera, hjálpsemi alla við okkur Ingu og kveðjum við góðan dreng við leiðarlok og sendum Lillu og ástvinum öllum samúðarkveðjur.

Jón B. Bjarnason.

„Já góði besti kíktu endilega við í kaffi ef þér er það ekki mikið á móti skapi,“ sagði hann og brosti sínu strákslega brosi og gamalkunnugt glettnisblik tók sig upp í auga. Á leiðinni út dalinn brosti ég að ummælum míns gamla læriföður enda höfum við alla tíð verið jafnaldrar þrátt fyrir áratuga aldursmun. Því miður var þetta í síðasta sinn sem ég heimsótti öldunginn unga í dalinn sem var honum svo kær. Ég tel það eitt mesta happ í lífinu að hafa verið sendur í sveit til þeirra öndvegishjóna Lillu og Lalla þegar ég var níu ára gamall. Það breytti engu þótt ég hefði verið tárvotur af heimþrá allt sumarið, ég gat varla beðið næsta vors. Þannig gekk það sumar eftir sumar. Eftir að horfið var að öðrum sumarstörfum var mætt í réttir ásamt reglulegum heimsóknum með dóttur mína unga enda kominn jafnaldri til að leika við. Síðustu árin hefur svo alltaf verið stoppað í kaffi öðru hvoru og dvalið í sumarbústað á Undirfelli. Móttökur þeirra hjóna voru alla tíð svo innilegar að óvíða hefur mér fundist ég vera velkomnari. Á sveitaárunum á Brúsastöðum vildum við strákarnir helst vera í endalausri nálægð við Lalla og stundum var hart barist um athygli hans. Þá skipti það engu máli hvað verkefnið var erfitt í grunninn því verkgleðin og kappið gerði öll verk í senn skemmtileg og ævintýraleg. Lalli var spar á skammir og hrós en hafði lag á því að laða það besta fram í okkur strákunum. Ummæli um dugnað eða vel unnin störf urðu okkur óendanlega mikilvæg og trúlega hef ég aldrei hlaupið hraðar eða lagt meira á mig fyrir nokkurn mann sem er mér óskyldur.

Karlmennska Lalla og hreysti jafnaðist á við goðsagnir úr Íslendingasögunum, þannig sáu drengsaugun manninn. Að hanga utan á traktor með Lalla upp um hálsa voru torfærur, ævintýri og slark. Hann var grenjaskytta sveitarinnar ásamt vini sínum Guðmundi. Þegar þeir félagar voru ferðbúnir með klárana og allan farangur til þriggja daga útilegu með alvæpni vorum við drengirnir með stjörnur í augum. Engir kúrekar í villta vestrinu komst í hálfkvisti við okkar menn. Hvernig Lalli umgekkst dýr var mér alla tíð ráðgáta. Þau sperrtu eyrum og róuðust þegar hann talaði til þeirra. Tónninn var svo blíður að bæði menn og dýr fengu störu. En Lalli var ekki fæddur með silfurskeið í munni heldur átti æsku sem er líkari sögum frá nítjándu öld fremur en þeirri tuttugustu. Það er ekki langt síðan hann kom til mín í Fýlshólana og ég spurði hann nánar út í æskuna. Sú lýsing opnaði mér örlitla sýn inn í harðan heim og ég velti því fyrir mér hvernig svona erfið æska gæti búið til svona glaðværan mann og skemmtilegan. Hitt liggur í augum uppi að fjölskyldumaðurinn Lalli er afsprengi þessarar sömu æsku. Gleðin og stoltið yfir fjölskyldunni, börnunum og barnabörnunum var svo fölskvalaus og innileg. Um leið og ég kveð einn eftirminnilegasta mann sem ég hef kynnst á lífsleiðinni hugsa ég til þess með trega hversu tómlegt verður í Vatnsdalnum næsta sumar. Ég votta Lillu, Gróu, Björgu, Benna og öðrum afkomendum samúð mína.

Börkur.