Framtíðarhúsfreyja Hún er óneitanlega tilhöfð og vel litasamsett en þó skemmtilega fortíðarskotin húsmóðirinn sem Ísak Freyr Helgason á heiðurinn að.
Framtíðarhúsfreyja Hún er óneitanlega tilhöfð og vel litasamsett en þó skemmtilega fortíðarskotin húsmóðirinn sem Ísak Freyr Helgason á heiðurinn að.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur annaei@mbl.is Framtíðin er núna.

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

Framtíðin er núna. Þeir voru að minnsta kosti vel með á nótunum nemarnir sem tóku þátt í hárgreiðslu- og förðunarkeppninni Hamskipti 2008 sem fram fór í Vetrargarðinum í Smáralind á fimmtudagskvöldið, en þema keppninnar að þessu sinni var framtíðin í hár og förðun. Bleikir lokkar og fjólubláir, álskreytingar og tölvutakkaprýddur haddur voru meðal þess sem fyrir augu bar. Förðun sumra fyrirsætnanna vakti þá ekki minni athygli, til að mynda framtíðar-geisha þar sem tengsl fortíðar og framtíðar voru augljós. Ekki lá þá minni vinna í mörgum búningnum. Þannig bar ein fyrirsætan sérsmíðað skart, sérsaumuð klæði og jafnvel sérskreytta skó. Fjölmargir aðrir búningar fönguðu ekki síður augað og ljóst að hér lágu víða ófáar vinnustundir að baki, enda lagt upp með að þátttakendur hönnuðu heildarútlit fyrirsætu sinnar.

„Við viljum að krakkarnir hugsi út fyrir kassann – út fyrir sitt venjulega fagsvæði og þess vegna leggjum við upp með að þau hanni heildarútlit þar sem greiðsla, förðun og fatnaðar skiptir allt máli,“ segir Ásgeir Hjaltason annar eigandi Supernova hair and airbrush studio, sem skipuleggur og stendur að baki keppninni sem nú var haldin í 2. skipti. „Hugsunin að baki Hamskiptum er að krakkarnir læri að bjarga sér sjálf og standa fyrir sínu, enda styrkir það þau og eykur sjálfstraust þeirra auk þess sem að það skilar okkur betra fagfólki í framtíðinni.“

Líkt og áður sagði var þema Hamskiptanna að þessu sinni framtíðin í hári og förðun og hamskiptameistari var, af dómnefnd skipuðu færu fagfólki, valinn Ísak Freyr Helgason, sem einnig lenti í fyrsta sæti. Ísak Freyr er nýútskrifaður úr förðunarskólanum Emm School of Make Up, en hann kynnti til sögunnar framtíðarhúsfreyjuna sem greinilega hefur engu gleymt af eldhúskúnstunum.

Í öðru sæti var Erik Helgi Björnsson af hárgreiðslustofunni Kristu og í því þriðja lenti Theódóra Mjöll Skúladóttir af Rauðhettu og úlfinum.