— 24stundir/Jón Svavarsson
„Ég hef engar áhyggjur. Sum ár er nóg af keppendum en önnur ár ekki.

„Ég hef engar áhyggjur. Sum ár er nóg af keppendum en önnur ár ekki. Þetta kemur í bylgjum,“ segir Arnar Laufdal Ólafsson, eigandi keppninnar Ungfrú Ísland, aðspurður um hvort það sé áhyggjuefni hversu fáar undankeppnir verða fyrir Ungfrú Ísland þetta árið.

24 stundir hafa þegar greint frá því að undankeppnir fari ekki fram á Austur- og Vesturlandi en einnig munu keppnirnar á Suðurnesjum og Vestfjörðum falla niður. Því verða undankeppnirnar þrjár þetta árið. „Keppnirnar sem verða núna í ár eru á Suðurlandi, Akureyri og Reykjavík. Síðan koma fulltrúar frá Vesturlandi og Austurlandi.“

Aldrei meiri áhugi í Reykjavík

Þrátt fyrir að keppnirnar á landsbyggðinni verði færri en venjulega þetta árið telur Arnar að áhuginn á fegurðarsamkeppnum sé ekkert að dvína. „Ég held, satt best að segja, að áhuginn sé ekki að minnka og þá er ég að meta það út frá því hvað það eru margir sem sækja um hér í Reykjavík. Árin eru bara mismunandi, þetta er bara svoleiðis.“

Þessu til sönnunar bendir hann á hversu margar ábendingar bárust um keppendur fyrir Ungfrú Reykjavík en þetta árið var met slegið í ábendingum. „Okkur bárust yfir 200 ábendingar fyrir Ungfrú Reykjavík og yfir 115 komu í viðtöl til okkar.“

Arnar segir að lokum að þótt undankeppnirnar verði færri þetta árið þá verði lokakeppnin ekkert síður glæsileg en undanfarin ár.

„Það er verið að setja upp show, glamúr-show, og fólk hefur áhuga á að fylgjast með þessu. Sjónvarpsáhorfið er í kringum 30 prósent og það hefur bara verið að aukast.“ vij