Kristín Vilhjálmsdóttir skrifar í tilefni af nýföllnum dómi í héraðsdómi: "Þær þjáningar sem ég hef þurft að þola eru ekki komnar beint til af fötlun minni, heldur miklu fremur af skilningsleysi, hroka og fordómum annarra."

NÝFALLINN dómur Héraðsdóms í máli einhverfrar stúlku veldur mér nokkrum heilabrotum. Þar kemur fram að stúlkan hafi átt að gera sér fulla grein fyrir afleiðingum gerða sinna og móður hennar er gert skylt að greiða kennaranum bætur. Að vísu viðurkennir dómurinn fötlun stúlkunnar, en finnst hún það litlu máli skipta að til hliðsjónar er eingöngu hafður upplýsingapési um Asperger-heilkennið. Kennaranum til fulltingis eru hins vegar kvaddir til sérfræðingar um hin ýmsu mál. Hvers vegna var það ekki gert þegar stúlkan átti í hlut?

Hefði skipt máli ef drengur, en ekki stúlka, hefði átt í hlut? Hver er forsaga málsins og hver er hlutur kennarans í henni? Hvaða þekkingu hafði umræddur kennari á fötlun barnsins? Hver er stefna skólans varðandi einelti? Hver er ábyrgð skólastjórnanda á þessum afdrifaríku atburðum? Getur verið að skólakerfið sé ekki að standa sig? Sífellt verða þær raddir háværari sem lýsa vantrausti á dómstóla og þessi dómur hefur óneitanlega lagt sín lóð á þær vogarskálar.

Þegar ég var að alast upp heyrði maður aldrei minnst á einhverfu. Seinna, þegar ég var við að klára menntaskóla, bárust raddir utan úr heimi um einhverfu, sem hrjáði einkum drengi. Ísköld skelfing greip mig þegar mér var bent á að sonur minn væri hugsanlega á einhverfurófinu, en sú skelfing hvarf smátt og smátt þegar ég hóf að kynna mér málin frekar. Eftir að hann greindist fékk ég sjálf greiningu og brot úr uppvextinum fóru að raða sér upp í heildstæða mynd.

Einhverfa, ódæmigerð einhverfa og Asperger-heilkenni eru allt greinar af sama meiði. Á erlendum málum er rætt um Autistic Syndrome Disorder, eða ASD. Á Íslandi tölum við um einhverfurófið. Einhverfa virðist liggja í taugakerfinu og taugakerfið er að miklum hluta til ókannað land, enn sem komið er. Í besta falli er taugakerfi okkar einfaldlega viðkvæmara fyrir áreiti. Einkenni geta þó verið afar ólík og missterk eftir einstaklingum. Hafa ber í huga að hver einstaklingur á einhverfurófinu er einstakur og ber að meta sem slíkan – ekki samkvæmt alhæfingum nokkurra síðna kynningarbæklings.

Annað er það í flestri umfjöllun um mál okkar sem erum á einhverfurófinu sem ég set stórt spurningarmerki við. Það er þegar fólk kallar einhverfu sjúkdóm. Fara fjölmiðlar þar fremstir í flokki, með heilbrigðisstarfsfólk og jafnvel rithöfunda í eftirdragi. Mér finnst athyglisvert að slík rökleysa rati inn í íslensk bókmenntaverk. Fæstum núorðið dytti í hug að nefna Downs-heilkenni sjúkdóm. Ennfremur er fjölmiðlum tíðrætt um svokallaðar þjáningar einhverfra; þær þjáningar sem ég hef þurft að þola eru ekki komnar beint til af fötlun minni, heldur miklu fremur af skilningsleysi, hroka og fordómum annarra.

Bill Gates var nýverið greindur með Asperger. Getgátur hafa verið uppi um að Jane Austen, Þórbergur Þórðarson, Halldór Laxness, Albert Einstein og Isaac Newton hafi verið með Asperger. Öll þóttu þau sérvitur og sérkennileg í háttum og mér þætti gaman að sjá íslenskt skólakerfi kljást við þessa sögufrægu einstaklinga.

Höfundur er þýðandi.

Leiðrétting 6. apríl - Röng mynd

Röng mynd birtist með grein Kristínar Vilhjálmsdóttur þýðanda, „Hvenær er fötlun fötlun?“ í blaðinu í gær. Rétt mynd birtist með leiðréttingu í blaðinu og eru hlutaðeigandi beðnir velvirðingar.