Eftir Atla Ísleifsson atlii@24stundir.is Robert Zoellick, forseti Alþjóðabankans, segir nauðsynlegt að ríki heims bregðist þegar í stað við síhækkandi matarverði, sem leiði af sér matarskort, hungur og vannæringu víðs vegar um heim.

Eftir Atla Ísleifsson

atlii@24stundir.is

Robert Zoellick, forseti Alþjóðabankans, segir nauðsynlegt að ríki heims bregðist þegar í stað við síhækkandi matarverði, sem leiði af sér matarskort, hungur og vannæringu víðs vegar um heim. Zoellick segir skortinn krefjast athygli og viðbragða stjórnmálaleiðtoga í öllum ríkjum heims, þar sem hátt verð og óstöðugleiki muni að öllum líkindum vara í nokkurn tíma. Margir óttast að hækkanirnar muni leiða af sér enn frekari félagsleg vandamál í fátækari ríkjum heims.

Gríðarleg hækkun

Heimsmarkaðsverð á korni og öðrum hrávörum hefur rokið upp úr öllu valdi síðustu mánuði. Þannig hækkaði verð á hrísgrjónum, sem er grunnfæða rúmlega þriggja milljarða jarðarbúa, um heil 42 prósent á fyrsta ársfjórðungi 2008, samanborið við 33 prósent allt síðasta ár.

Stjórnvöld í Kína, Indlandi, Víetnam, Egyptalandi og fleiri af mestu framleiðsluríkjum heims á hrísgrjónum hafa dregið verulega úr eða lokað á allan útflutning til þess að halda niðri verðinu heima fyrir.

Dregið úr matvælaaðstoð

Talsmenn Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna segja stofnunina nú neyðast til að draga úr matvælaaðstoð sinni við Darfúr-hérað í Súdan og fleiri staði þar sem neyð ríkir, verði ekkert að gert.

John Powell, yfirmaður hjá stofnuninni, segir að án frekari framlaga ríkja verði gjafirnar minni eða að þær berist færra fólki. „Við erum að ræða um fátækasta fólk í heimi. Slíkt mun hafa hrikaleg áhrif á framtíð þessa fólks, heilsu og lífsviðurværi.“

Powell segir hækkandi matarverð í heiminum helst orsakast af hækkandi olíuverði, aukinni eftirspurn í Kína og Indlandi, loftslagsbreytingum og alþjóðlegri eftirspurn eftir lífrænu eldsneyti.

Í hnotskurn
Náttúruhamfarir og aukin eftirspurn frá Kína, Indlandi og fleiri ríkjum hefur valdið hækkandi verði á ýmsum grunnvörum. Verð á grunnvörum hefur hækkað um 80 prósent frá 2005. Alþjóðabankinn telur að félagslegur óstöðugleiki muni aukast í 33 ríkjum vegna hækkandi matarverðs á næstu árum.