HRVOJE Custic, leikmaður króatíska knattspyrnuliðsins NK Zadar, lést á fimmtudag vegna höfuðáverka sem hann varð fyrir í leik sl. laugardag gegn Cibalia Vinkovci.

HRVOJE Custic, leikmaður króatíska knattspyrnuliðsins NK Zadar, lést á fimmtudag vegna höfuðáverka sem hann varð fyrir í leik sl. laugardag gegn Cibalia Vinkovci. Custic fékk þungt högg á höfuðið þegar hann rann út af vellinum og skall á steinvegg sem var í aðeins tveggja metra fjarlægð frá grasvellinum.

Custic var í baráttunni um boltann við einn leikmann Cibalia Vinkovci þegar atvikið átti sér stað strax á fjórðu mínútu leiksins. Custic missti meðvitund við höggið og komst hann aldrei til meðvitundar eftir að hann var fluttur á sjúkrahús. Steinveggurinn heldur uppi girðingu sem aðskilur áhorfendur frá keppnisvellinum. Custic var 25 ára gamall og hefur öllum leikjum í efstu deild í Króatíu verið frestað vegna andláts hans. Custic lék 10 landsleiki með U21 árs landsliði Króatíu.

Fjölmiðlar í Króatíu greina frá því að heimavöllur Zadar uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru og er þess krafist að knattspyrnusamband Króatíu setji af stað ítarlega rannsókn á keppnisvöllum víðsvegar um landið, sem eru margir í slæmu ásigkomulagi og uppfylla ekki öryggiskröfur.