— 24stundir/Árni Torfason
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@24stundir.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@24stundir.is

Bæði almenningur og starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins, sem ákvarða réttindi og afgreiða bætur, telja að tryggingasvik séu umfangsmikil og að auðvelt sé að fá hærri greiðslur en menn eiga rétt á. Þetta kemur fram í skýrslu sem kynnt var á Norðurlandaráðstefnu um tryggingasvik sem haldin var í Stokkhólmi í gær.

„Manni bregður við það hversu stórt hlutfall starfsmanna álítur að svikin séu umfangsmikil, “ segir Gunnar Andersen, forstöðumaður eftirlits Tryggingastofnunar.

Gunnar, sem þátt tók í ráðstefnunni í Stokkhólmi, segir þetta í fyrsta skipti sem Norðurlönd vinna saman að því að reyna að meta umfang tryggingasvika í öllum löndunum og viðhorf almennings til þeirra.

Íslenskt líkan

Á ráðstefnunni var kynnt líkan sem Einar Guðbjartsson, dósent við Háskóla Íslands, þróaði að beiðni þróunarsviðs TR. Líkanið metur kostnaðarvirkni ýmissa eftirlitsaðgerða en hér á landi var fyrst stofnuð eftirlitsdeild um mitt ár 2005. „Það er verið að byggja upp grunn hér en við sjáum öll sömu afbrigðin og eru annars staðar á Norðurlöndunum,“ tekur Gunnar fram.

Hundraða milljóna svik

Heildarfjárhæðin sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir út á ári nemur um 70 milljörðum, að sögn Gunnars. „Það má reikna með að bóta- og tryggingasvikin hér á landi skipti hundruðum milljóna króna þegar allt er tekið saman, bæði vegna lífeyris og starfsmanna á heilbrigðissviði. Við erum ekkert öðruvísi en aðrar þjóðir þótt bótaflokkarnir séu aðeins öðruvísi. Tíðnin og afbrigðin eru samskonar. Það er til dæmis alls staðar vesen með þá sem þykjast vera einstæðir foreldrar en eru það ekki. Þetta er vinsæl leið í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi.“ Gunnar tekur það fram að upphæðirnar kunni í vissum tilfellum að vera lægri á Íslandi. „Í Noregi er til dæmis vinsælasti svikaflokkurinn sjúkradagpeningar en þeir eru 100 prósent af launum í heilt ár. Hér er hlutfallið lægra.“

Meira umburðarlyndi hér

Í skýrslunni, sem kynnt var í Stokkhólmi í gær, kemur fram að almennt líti starfsmenn tryggingastofnana og almenningur á Norðurlöndum tryggingasvik alvarlegum augum. Þess er þó getið að í Svíþjóð, í Noregi og á Íslandi sé umburðarlyndið í vissum tilfellum mjög mikið. Um helmingi aðspurðra finnst það ekki alvarlegt að taka út aukaveikindafrí þótt maður sé frískur eða að vera heima vegna veiks barns þótt barnið sé frískt. Íslenskir starfsmenn sem ákvarða réttindi og greiða út bætur hafa jafnframt meira umburðarlyndi en starfsmenn annars staðar á Norðurlöndunum.

Þekkir þú til?

Í hnotskurn
Sænskri nefnd var falið að gera samanburð á eftirliti með tryggingagreiðslum á Norðurlöndum sem í fyrsta sinn vinna saman að því að meta umfang tryggingasvika. Viðhorfskönnun meðal almennings á Íslandi gerði Capacent. Af 1.200 manna úrtaki svöruðu 797. Starfsmenn sem sjá um greiðslur tóku einnig þátt í könnuninni.