Óskar Bergsson
Óskar Bergsson
ÓSKAR Bergsson borgarfulltrúi Framsóknarflokks segir Ólaf F. Magnússon borgarstjóra ekki hafa svarað spurningum sem lagðar voru fram á fundi borgarstjórnar 1. apríl s.l. um ásakanir hans í garð Framsóknarflokksins. Í viðtali við Ríkissjónvarpið 31.

ÓSKAR Bergsson borgarfulltrúi Framsóknarflokks segir Ólaf F. Magnússon borgarstjóra ekki hafa svarað spurningum sem lagðar voru fram á fundi borgarstjórnar 1. apríl s.l. um ásakanir hans í garð Framsóknarflokksins.

Í viðtali við Ríkissjónvarpið 31. mars sagði Ólafur Framsóknarflokkinn hafa „gengið lengst flokka í þjónustu við verktaka og auðmagn“ og að sjást muni í skipulagsmálum og uppbyggingu í borginni að núverandi borgarstjórn ætlaði að „gæta hagsmuna borgarbúa en ekki einhverra tiltekinna sérhagsmunahópa eða flokksmanna eða verktaka.“

Lagði Óskar fram spurningar á fundi borgarstjórnar 1. apríl, þar sem hann bað Ólaf að skýra fullyrðingar sínar nánar, hvernig Framsóknarflokkurinn hafi þjónustað verktaka og auðmenn og hvernig það tengdist að mati borgarstjóra niðurlægingu miðborgarinnar.

Í tilkynningu sem Óskar sendir frá sér gagnrýnir hann Ólaf fyrir að hafa ekki svarað spurningum sínum: „Ég krefst rökstuðnings borgarstjóra og sannana fyrir þessum ummælum eða að hann dragi ummæli sín til baka og biðjist afsökunar,“ segir Óskar í tilkynningunni.