Helgi Kristján Guðmundsson fæddist á Skáldsstöðum 3. október 1921. Hann lést á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum 29. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru þau Guðmundur Helgason og Jóhanna Magnúsdóttir, er lengi bjuggu á Skáldsstöðum og voru þau bæði ættuð úr Austur-Barðastrandarsýslu. Eignuðust þau sex börn og var Kristján fjórði í röðinni. Elstur var Jens, sem lengi var skólastjóri á Reykhólum, þá kom stúlka, sem þau misstu nýfædda, þá Magnús, Kristján, sem hér er minnst, Ingibjörg og Jón, sem öll bjuggu á Skáldsstöðum. Ingibjörg lifir systkini sín og er búsett á Dvalarheimilinu Barmahlíð.

Útför Kristjáns fer fram frá Reykhólakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Í sumar verða liðin 20 ár síðan við komum fyrst að Skáldsstöðum í Reykhólasveit og var erindið að fá leyfi til að tjalda í landi ábúenda. Til dyra kemur eldri maður, sem eftir að hafa heyrt okkar bón, gefur sér góðan tíma til að horfa rannsakandi augum á aðkomufólkið. Leyfið veitir hann með þeim orðum að umgengnin verði að vera góð og þess gætt vel að loka hliðum vegna búsmalans.

Þetta voru okkar fyrstu kynni af systkinunum sem bjuggu á Skáldsstöðum. Magnús þeirra elstur, var bóndinn, Kristján sem hér er kvaddur, starfaði á sínum yngri árum sem landpóstur auk almennra bústarfa, Ingibjörg var húsmóðirin, sem með hlýju sinni fyllti bæinn af góðum anda og yngstur var fræðimaðurinn Jón. Allt lífið bjuggu þau saman á þessum fallega stað í sátt hvert við annað, landið sitt og skepnur. Þau þekktu hvern blett eins og lófann á sér og gáfu sér alltaf tíma til að spjalla við gesti sína, þannig að stundirnar í eldhúsinu sem stressaðir nútíma Íslendingar áttu með þeim voru ómetanlegar. Fyrstu árin kynntumst við Kristjáni ekki náið. Hann var ekki mikið fyrir ókunnuga og þar sem hann var ekki í forsvari á bænum, hélt hann sig til hlés. En eftir lát Magnúsar breyttist hlutverk Kristjáns, hann varð bóndinn og sá sem stjórnaði búskapnum. Þá fyrst kynntumst við þessum hægláta og ljúfa manni sem reyndist hafa gaman af að spjalla við gesti og gangandi. Kristján unni sveitinni og landi sínu það mikið, að hvergi annars staðar gat hann hugsað sér að vera, því varð það honum mikil raun, þegar hann þurfti sem gamall maður að leita sér lækninga á sjúkrahúsum fjarri öllu sem hann unni mest. Því miður varð það óumfrýjanlegt og hann dvaldi síðustu árin á Dvalarheimili aldraða, Barmahlíð á Reykhólum, og þrátt fyrir góðan aðbúnað og alúð starfsfólks urðu árin þar honum mjög erfið.

Það var okkar gæfa að kynnast systkinunum á Skáldsstöðum og að hafa átt þess kost að eignast okkar annað heimili í þeirra fallega landi.

Á þessum 20 árum befur lífið á Skáldsstöðum breyst mikið, því bræðurnir þrír eru látnir og Inga okkar býr orðið alfarið í Barmahlíð. Þar sem við getum því miður ekki komið í jarðarför okkar vinar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur til þín elsku Inga. Við kveðjum þig kæri vinur og þökkum þér fyrir traustið og góða vináttu síðustu 20 árin.

Þínir nágrannar á Skipatanga

Hjördís og Gylfi.