Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson
ÓLAFUR Stefánsson og Arnór Atlason, íslensku landsliðsmennirnir í handknattleik, eiga stórleiki fyrir höndum um helgina.

ÓLAFUR Stefánsson og Arnór Atlason, íslensku landsliðsmennirnir í handknattleik, eiga stórleiki fyrir höndum um helgina. Báðir spila þeir með liðum sínum í undanúrslitum í Evrópumótunum en fyrri leikirnir eru leiknir þessa helgina og síðari leikirnir þá næstu.

Ólafur og félagar í Ciudad Real fá Hamburg frá Þýskalandi í heimsókn til Spánar í Meistaradeild Evrópu á morgun. José Hombrados, fyrirliði og markvörður Ciudad Real, sagði í viðtali á vef félagsins í gær að liðin ættu tvo hörkuleiki framundan. „Það er mikilvægt að ná góðum úrslitum í heimaleiknum því í Hamborg bíða okkar 11 þúsund áhorfendur. Liðin eru áþekk að styrkleika,“ sagði Hombrados.

Þýskaland og Spánn heyja einvígi í Meistaradeildinni því í hinni viðureign undanúrslitanna eigast við Kiel og Barcelona.

Arnór og samherjar hans í FCK frá Danmörku eru komnir í undanúrslit í EHF-bikarnum en þeir lögðu HK að velli í keppninni fyrr í vetur. Þeir leika gegn Cimos Koper í Slóveníu í dag en slóvenska liðið er firnasterkt og lagði Lemgo frá Þýskalandi í báðum viðureignum liðanna í átta liða úrslitunum. Arnór er nýkominn af stað eftir meiðsli í hné og ætti að geta tekið nokkurn þátt í leiknum í dag. Í hinum leik undanúrslitanna í EHF-bikarnum eigast við Aragón, Spáni og Nordhorn, Þýskalandi.