Bótox, sem notað er til að slétta hrukkur, getur borist til heilans. Þetta sýna tilraunir á rottum sem tímaritið Nature greinir frá. Vísindamenn í Pisa á Ítalíu sprautuðu bótólíni, taugaeitri í bótoxi sem brýtur niður ákveðið prótín, í kinnar rottna.

Bótox, sem notað er til að slétta hrukkur, getur borist til heilans. Þetta sýna tilraunir á rottum sem tímaritið Nature greinir frá. Vísindamenn í Pisa á Ítalíu sprautuðu bótólíni, taugaeitri í bótoxi sem brýtur niður ákveðið prótín, í kinnar rottna. Þremur dögum eftir að bótólíni var sprautað í rotturnar sáust merki þess að prótínið hafði brotnað niður í heila þeirra.

Vísindamennirnir taka það fram að hegðun tilraunadýranna hafi ekki breyst. Þeir telja jafnframt að hættan á skaðlegum áhrifum á fólk sé lítil þar sem bótoxskammturinn sé lítill. Hins vegar telja þeir ástæður til að hafa áhyggjur af því að efnið hafi yfirhöfuð borist til heilans.

Guðmundur M. Stefánsson lýtalæknir segir fyllstu ástæðu til að sýna aðgát vegna fegrunaraðgerða með bótoxi sem ekki hafi verið leyfðar hér á landi fyrr en fyrir um tveimur mánuðum. „Ef efninu er sprautað á rangan stað getur viðkomandi fengið lömunareinkenni í andlitið, að vísu ekki langvarandi en fólk lítur ekki vel út á eftir.“

Að sögn Guðmundar bíða bæði karlar og konur í röðum eftir bótoxaðgerðum hér sem ekki er byrjað að gera þar sem ekki hefur verið samið við birgja erlendis um verð. Hann reiknar með að meðferðin verði dýr. „Það er alveg ljóst. Ég giska á að hver aðgerð muni kosta 40 til 70 þúsund krónur og þetta þarf að gera tvisvar til þrisvar á ári.“ ingibjorg@24stundir.is