G. Pétur Matthíasson
G. Pétur Matthíasson
G. Pétur Matthíasson skrifar um þróun Vegagerðarinnar á vegakerfum landsins: "Ákvörðun um hvaða kostur er bestur að áliti Vegagerðarinnar er ekki einföld en hún er heldur ekki tekin af léttúð."

VEGAGERÐIN hefur einsett sér að þróa og sjá um vegakerfið á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Þannig hefur Vegagerðin skilgreint hlutverk sitt.

Þetta er vert að skoða í ljósi þess að töluverð umræða hefur farið fram um þær leiðir og veglínur sem Vegagerðin mælir með víða um land. Má nefna Sundabrautina, Lyngdalsheiðarveg, Vestfjarðaveg og veg um Hornafjörð. Ekki eru allir sáttir við þær leiðir sem Vegagerðin mælir með. Það er bæði eðlilegt og skiljanlegt. Málið er að taka þarf tillit til margra og ólíkra þátta.

Á þessum ólíku þáttum er tekið með meginmarkmiðum Vegagerðarinnar en þau eru:

* Greiðar samgöngur með góðri þjónustu.

* Hagkvæm uppbygging og rekstur vegakerfisins.

* Að umferðaröryggi sé á við það sem best gerist.

* Góð sambúð vegar og umferðar við umhverfi og íbúa.

* Vel skipulögð og skilvirk starfsemi.

* Ánægt, hæft og gott starfsfólk.

Það sem Vegagerðin vill er að samgöngur séu tryggar allt árið með sem minnstum tilkostnaði og eins miklum þægindum og hægt er fyrir vegfarendur. Við gerð nýrra vega og viðhald þeirra er lögð sérstök og sífellt aukin áhersla á umferðaröryggi. Tekið er svo sem hægt er tillit til óska vegfarenda þannig að sambúð vegar og umferðar við umhverfi og íbúa sé sem best. Þá er reynt að minnka mengun og sýna náttúru og minjum tillitssemi.

Það segir sig sjálft að þegar markmiðin eru þetta mörg eiga þau það til að stangast hvert á við annað og niðurstaðan verður ævinlega málamiðlun. Besti kosturinn getur verið svo dýr að ekki sé réttlætanlegt að mæla með honum svo dæmi sé tekið. Því vegur og metur Vegagerðin kostina saman þegar veglínur eru valdar. Vegagerðin skýtur sér heldur ekki undan því að mæla með einni leið umfram aðra en þá eingöngu að teknu tilliti til nefndra markmiða.

Það er vert að hafa í huga að það er ekki hentistefna eða annað í þá veru sem ræður afstöðu Vegagerðarinnar heldur vandað mat á öllum þessum þáttum. Í dag gerist það heldur ekki fyrr en að loknu ítarlegu mati á umhverfisáhrifum og að matinu loknu fer framkvæmdin iðulega í skipulagsferli hjá viðkomandi sveitarfélagi.

Ákvörðun um hvaða kostur er bestur að áliti Vegagerðarinnar er ekki einföld en hún er heldur ekki tekin af léttúð. Þetta er rétt að hafa í huga þótt ákvörðun um besta kostinn sé vissulega ekki hafin yfir gagnrýni.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.