— 24stundir/Kristinn
Fríða Sophia Böðvarsdóttir kennir jafnt körlum að elda fljótlega rétti og grunnskólabörnum að nýta jurtir úr næsta nágrenni til matargerðar.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Á undanförnum árum hafa margir lært listina að elda góðan mat hjá Fríðu Sophiu Böðvarsdóttur enda hefur hún verið dugleg að halda alls kyns matreiðslunámskeið samhliða störfum sínum sem heimilisfræðikennari í Víkurskóla í Grafarvogi.

Jurtir í mat og te

Í skólanum hefur Fríða verið óhrædd við að brydda upp á nýjungum og samtvinna heimilisfræðina við jurtafræðslu og útikennslu.

„Ég kenni krökkunum til dæmis að tína jurtir úr náttúrunni, meðhöndla þær og matreiða úr þeim. Þeim finnst rosalega skemmtilegt og spennandi að geta notað þær í mat og búið til te,“ segir Fríða og bætir við að jafnframt sé áhersla lögð á hollt mataræði í heimilisfræðikennslunni.

Á undanförnum árum hefur Fríða einnig haldið fjölda matreiðslunámskeiða í Kvöldskóla Kópavogs. Námskeiðin eru af ýmsu tagi og hefur hún til dæmis kennt fólki að matreiða grænmetisrétti, hráfæði, bökur, súpur og brauð. Þá hefur hún boðið upp á sérstök námskeið í matargerð fyrir karlmenn, jafnt byrjendur sem lengra komna.

Karlar læra að elda

„Mig langaði til að prófa eitthvað nýtt og ég er svolítið fyrir að demba mér út í djúpu laugina og sjá hvað gerist,“ segir Fríða um tildrög þess að hún ákvað að halda slíkt námskeið. „Þetta er mjög vinsælt og skemmtilegt námskeið. Ég kenni þeim allt frá grunni upp í að elda stórsteik,“ segir Fríða og bætir við að bakgrunnur þátttakenda sé mjög misjafn. „Þetta eru bæði giftir og einhleypir menn, strákar sem eru að byrja að búa og svo framvegis. Svo er svolítið um að konurnar gefi þeim námskeiðið í afmælis- eða jólagjöf. Það er í tísku núna,“ segir Fríða Sophia sem deilir að lokum uppskriftum að þremur einföldum en góðum réttum með lesendum 24 stunda.
Í hnotskurn
Fríða fékk áhuga á grænmetismat þegar hún bjó í Danmörku og var um tíma grænmetisæta. Fríða hefur haldið námskeið í Kvöldskóla Kópavogs í 17 ár og unnið sem heimilisfræðikennari í sex ár.