Eftir Einar Jónsson
einarj@24stundir.is
Á undanförnum árum hafa margir lært listina að elda góðan mat hjá Fríðu Sophiu Böðvarsdóttur enda hefur hún verið dugleg að halda alls kyns matreiðslunámskeið samhliða störfum sínum sem heimilisfræðikennari í Víkurskóla í Grafarvogi.
Jurtir í mat og te
Í skólanum hefur Fríða verið óhrædd við að brydda upp á nýjungum og samtvinna heimilisfræðina við jurtafræðslu og útikennslu.„Ég kenni krökkunum til dæmis að tína jurtir úr náttúrunni, meðhöndla þær og matreiða úr þeim. Þeim finnst rosalega skemmtilegt og spennandi að geta notað þær í mat og búið til te,“ segir Fríða og bætir við að jafnframt sé áhersla lögð á hollt mataræði í heimilisfræðikennslunni.
Á undanförnum árum hefur Fríða einnig haldið fjölda matreiðslunámskeiða í Kvöldskóla Kópavogs. Námskeiðin eru af ýmsu tagi og hefur hún til dæmis kennt fólki að matreiða grænmetisrétti, hráfæði, bökur, súpur og brauð. Þá hefur hún boðið upp á sérstök námskeið í matargerð fyrir karlmenn, jafnt byrjendur sem lengra komna.